Skólaslit föstudaginn 6. júní

Skólaslitin 6. júní verða með sama sniði og í fyrra. Helmingur nemenda í 1. – 9. bekk mætir kl. 10 og hinn helmingurinn kl. 10:30. skólastlitin taka um það bil klukkustund. Útskrift 10. bekkinga er fimmtudagskvöldið 5. júní. 

Vorskóli fyrir verðandi 1.bekkinga

Fimmtudaginn 8. og föstudaginn 9. maí verður vorskóli fyrir þau börn sem hefja nám í 1. bekk í Salaskóla haustið 2014. Vorskólinn byrjar kl. 14:00 og er til 15:30 báða dagana. Fyrri daginn mæta börnin með foreldrum sínum í anddyrið, þar verður lesið í bekki og þau fara með kennurum sínum í kennslustofuna. Á meðan þau eru í skólanum er kynning fyrir foreldrana í salnum. Seinni daginn koma foreldrarnir með þeim í skólann, skilja þau eftir og koma svo og sækja þau. 

Ýmislegt verður gert og þau fá ávexti að borða í nestitímanum. 

Tómstundaúrræði fyrir 4. bekk næsta vetur

Að undanförnu hefur greinilega dregið verulega úr áhuga 4. bekkinga á að vera í dægradvöl eftir að skóla lýkur á daginn. Engu að síður er þörf á úrræði fyrir þennan aldur og því höfum við ákveðið að bjóða upp á nýjan valkost þar sem í boði verður áhugaverð dagskrá fyrir 4. bekkinga á mánudögum til fimmtudaga frá kl. 13:30 – 15:00. 
Góð blanda af skemmtilegu tómstundastarfi og möguleiki á að stunda heimanám einn dag í hverri viku. Tómstundastarfið sem í boði verður næsta haust ef næg þátttaka fæst er m.a. eftirfarandi: 
–    margmiðlun 
–    stuttmyndagerð 
–    smiðjur
–    skák og  dans
–    hreyfing og hreysti
–    heimanám einu sinni í viku
Áhersla er lögð á fjölbreytni og skapandi vinnu krakkanna. Einnig verður farið í ferðir af ýmsu tagi. 
Við bjóðum einnig upp á sveigjanleika gagnvart þeim sem eru í öðru tómstundastarfi t.d. einn af þessum dögum sem í boði eru. 
Við ljúkum hverjum degi á kaffi kl. 14:40 – 15:00.
Við æltum að leggja okkur fram við að gera þetta áhugavert fyrir þennan aldur
Verðið er lágmarksgjald í dægradvöl, þ.e. 6.615 kr. + 125 kr. á dag fyrir kaffi. 
Foreldrar barna í 3. bekk hafa fengið póst um þetta og upplýsingar um hvernig á að skrá börn í þetta skemmtilega úrræði. 

Umsókn um skólavist

Þeir foreldrar sem óska eftir skólavist í Salaskóla næsta skólaár fyrir börn sín eru beðnir um að láta okkur vita svo fljótt sem auðið er. Sama á við um ef fólk sér fram á að börn, sem nú eru í skólanum, verði það ekki næsta vetur. Við erum í skipulagsvinnu þessa dagana og mikilvægt að fá að vita um allar breytingar. Hafið samband með tölvupósti,hafsteinn@salaskoli.is

forsida7

Ævintýri hafsins

forsida7
Þemaviku Salaskóla lauk um hádegi í dag með stórri sýningu á verkum nemenda – þar sem viðfangsefnið var HAFIÐ. 

 Mjög margir gestir lögðu leið sína í skólann í morgun til að taka þátt í hátíðahöldunum svo sem mömmur, pabbar, ömmur og afar. Nemendur og kennarar hafa unnið hörðum höndum að undanförnu við að fjalla um mismunandi hliðar hafsins á mjög marga vegu allt eftir þroska og aldri nemenda.   Margt bar fyrir augum á sýningunni s.s. risastór hákarl, skipsflakið Fernando með tilheyrandi fjársjóðum og gullakistum, bryggjuhverfi, fiskibátar, fuglabjörg, sjávarþorp, marglyttur og glitrandi fiskar svo eitthvað sé nefnt.

Einnig var stórmerkilegt verkefni í unglingadeild um skipsskaða víðs vegar um heiminn  og staðreyndir taldar upp um hafið og eiginleika þess – bæði í máli og myndum. Tónverk var samið og frumflutt, sjómannasöngvar búnir til, skuggaleikrit flutt auk myndbandsgerðar.  En margt fleira var tekið fyrir og myndir sem sýna vinnuna á þemadögum tala sínu máli.

Eftir þemavikuna hófst síðan páskaleyfi nemenda og starfsfólks. Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska. Skóli hefst aftur skv. stundaskrá 22. apríl.  

ema

Þemavika í Salaskóla

ema
Í þessari viku er þemaverkefni í gangi í skólanum sem hefur yfirskriftina HAFIÐ. Nemendum er skipt í hópa þvert á bekki og taka fyrir fjölmörg viðfangsefni er tengjast hafinu. Sumir eru að fjalla um hafsbotninn meðan aðrir einbeita sér að yfirborði sjávar og fjörunni.

Bátar, skipsströnd og vitar fá að sjálfsögðu sína umfjöllun svo ekki sé minnst á allar lífverurnar sem lifa í sjónum. Í morgun fóru allir hópar vel af stað og mikið vannst á stuttum tíma. Skrautlegar marglyttur litu dagsins ljós, verið var að mála fjársjóðakistur, búa til vita og teikna skrautlega fiska svo eitthvað sé nefnt. Þemavinnan stendur fram á föstudag en þá verður hægt að koma í skólann og sjá afraksturinn kl. 12.  

Jafnréttisáætlun Salaskóla

Jafnréttisáætlun skólans 2014 er komin inn á heimasíða skólans. Hún er aðgengileg á hnappi með sama nafni undir SKÓLINN eða með því að smella á meðfylgjandi mynd.

korinn

Kórinn heimsótti Roðasali

korinn
Nýverið lagði Kór Salaskóla leið sína upp í Roðasali þar sem þau glöddu dvalargesti með söng. Þau stóðu sig með eindæmum vel og fengu á eftir  glaðning í poka sem í var m.a. Sæmundur í sparifötunum !

Skíðaferðir 25. og 27. mars

Þriðjudaginn 25. mars verður skíðaferð 5. – 7. bekkja og fimmtudaginn 27. mars fer 8. – 10. bekkur í Bláfjöll á skíði. Nemendur eiga að mæta kl. 8:30 í skólann og við munum leggja á stað klukkan 9:00. Það  verður skíðað til kl. 14:40 og lagt af stað heim kl. 15:00. Þetta er ekki aðeins skíðaferð, nemendur sem ekki vilja fara á skíði eða bretti geta komið með sleða og snjóþotur. Allir sem fara á skíði þurfa að vera með hjálm – reiðhjólahjálmar duga alveg. 

Auður verður með skíðakennslu fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref eða eru óöryggir. 
Þeir sem ekki eiga skíði og geta ekki fengið lánað hjá ættingjum geta leigt skíði í Bláfjöllum. Leigan kostar 2 þús. kr. fyrir daginn og er sama gjald fyrir skíði og bretti. 
Annar kostnaður er lyftugjald sem er 600 kr. fyrir daginn. 
Skólinn skaffar þeim sem eru í hádegismat í skólanum nesti í hádeginu en þau þurfa að koma með annað nesti sjálf. 
Svo er bara að koma vel klædd og tilbúin fyrir hressandi og skemmtilega útiveru.