Athugið reglur vegna óveðurs

Það er hvasst og kalt í dag og við bendum foreldrum á að erfitt getur verið fyrir yngstu börnin að ganga í skólann. Hvetjum foreldra til að fylgja þeim. Almannavarnir hafa sett vinnureglur fyrir skóla vegna óveðurs. Þær má finna með því að smella hér .

Bendum líka á vinnureglur Salaskóla í óveðri:

1. Skóla er aldrei lokað í óveðri nema fyrir tilstilli almannavarnanefndar. Foreldrar verða að geta treyst því að skóli sé opinn hafi almannavarnir eða skólaskrifstofa ekki gefið út sérstaka tilkynningu um annað.

2. Ætlast er til að foreldrar meti sjálfir hvort þeir senda börn sín í skóla þegar óveður geisar. Sé þeim haldið heima þarf að tilkynna það til skóla eins og önnur forföll. Séu börnin hins vegar send í skóla er þess vænst af foreldrum að þeir fylgi börnum sínum í skólann og sæki þau að loknum skóladegi.

3. Ætlast er til þess af þeim kennurum sem kenna í síðasta tíma á stundaskrá hvers bekkjar að þeir sjái svo um að börnin fari ekki ein út í óveður að afloknum skóladegi. Heimferð þeirra sé tryggð – ella sé börnunum haldið í skóla þar til foreldrar sækja þau eða aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar.

4. Telji foreldrar vafasamt að senda börn í skóla vegna óveðurs áréttar skólinn að aldrei sé teflt í tvísýnu, öryggi barnanna sitji ávallt í fyrirrúmi.

5. Verði símasambandslaust við skólann þegar óveður geisar er ætlast til þess að börnin verði kyrr í skóla þar til þau verða sótt eða þeim tryggð örugg heimferð (sjá lið 3).

Skólakór Salaskóla á jólatónleikum

Skólakór Salaskóla tekur þátt í jólatónleikum Samkórs Reykjavík, fimmtudaginn 16. desember í Fella- og Hólakirkju. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Eftir tónleika verður boðið upp á smákökur og kaffi. Miðaverð er 2 þús. krónur og hægt að kaupa miða á skrifstofu skólans.  

Stjórnandi Skólakórs Salaskóla er Ragnheiður Haraldsdóttir og stjórnandi Samkórs Reykjavíkur er John Gear. Á tónleikunum spilar Margrét Stefánsdóttir á þverflautu og Julian Edwards Isaacs á orgel.  

 

Aðventuganga foreldrafélagsins 7. desember

 Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður þriðjudaginn 7. desember kl 17:15. Safnast verður saman í Salaskóla þar sem Skólahljómsveit Kópavogs leikur jólalög meðan börn og foreldrar tygja sig í gönguna. Hljómsveitin byrjar að spila 5-10 mín yfir fimm. Gengið verður að Lindakirkju og þar mun skólakór Salaksóla syngja nokkur lög. Svo verður haldið til baka í skólann og allir fá kakó og smákökur. Tónlistarfólk úr 10. bekk mun troða upp og skemmta gestum. Gaman væri að sem flestir kæmu með vasaljós eða höfuðljós til að hafa í göngunni. Foreldrar eru hvattir til að koma með börnum sínum og gott væri ef einhverjir gætu hjálpað til meðan á þessu stendur.

Hlökkum til að sjá ykkur  
Foreldrafélag Salaskóla

Góðar niðurstöður

Niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema eru býsna góðar fyrir krakka í Salaskóla. Rannsóknin var framkvæmd skólaárið 2009-2010 og náði til nemenda í 6., 8. og 10. bekk. Sem dæmi má nefna að krakkarnir hérna og í Smáraskóla fá sér oftar morgunverð í viku hverri en önnur börn á landinu, þau eru undir landsmeðaltali í sælgætisáti, líkar betur í skólanum en meðalkrakkinn á landinu, hreyfa sig meira, horfa minna á sjónvarp og nota netið minna, nota síður tóbak eða áfengi og lífsánægja þeirra er yfir landsmeðaltali.  

Góður námsárangur í 10. bekk

Nemendur í 10. bekk í Salaskóla stóðu sig vel á samræmdu könnunarprófinu nú í haust. Í öllum greinunum, íslensku, ensku og stærðfræði var niðurstaðan vel fyrir ofan landsmeðaltal. Í íslensku var meðaltal skólans 6,6 og landsmeðaltali 6,2. Í stærðfræði var meðaltal skólans 7,2 en landsmeðaltalið 6,5 og í ensku var meðaltal skólans 8,0 en landsmeðaltalið 7,1.

Ávextir í 1. – 5. bekk

199 foreldrar svöruðu könnun okkar um ávextina. Niðurstöður voru þær að 158 kváðust vilja að skólinn sæi um ávextina gegn 30 kr. greiðslu frá foreldrum á dag. 41 sagðist fremur vilja senda börn sín með nesti.

 

Við höfum því ákveðið að bjóða foreldrum nemenda í 1. – 5. bekk að kaupa ávexti í áskrift fyrir 30 kr. á dag.

 

Til að einfalda okkur vinnuna biðjum við þá sem ætla ekki að vera í ávaxtaáskrift að láta okkur vita með því að senda okkur tölvupóst á ritari@salaskoli.is eða svara þessum tölvupósti. Við gerum ráð fyrir að þeir sem láta okkur ekki vita, ætli að kaupa áskrift. Mikilvægt er þeir sem ekki ætla að vera með svari strax og eigi síðar en fimmtudaginn 21. október.

Foreldraviðtalsdagur

Á mánudaginn er foreldraviðtalsdagur í Salaskóla eins og kemur fram á skóladagatali og umsjónarkennarar hafa upplýst um. Þá ræða kennarar við sérhvern nemanda og foreldra hans um gengi í náminu og það sem mikilvægt er að gera á næstu mánuðum. Foreldrar geta líka hitt sérgreinakennara og rætt við þá.

Enginn skóli er að öðru leyti þennan dag en dægradvölin er opin frá kl. 8:10 – 17:15. Þeir sem ekki eru í dægradvöl geta fengið að vera þar til 13:30 gegn gjaldi en mikilvægt að foreldrar tilkynni okkur það með því að senda póst á egg@kopavogur.is

Fjölgreindaleikar

Efnt verður til níundu fjölgreindaleika Salaskóla dagana 6. og 7.  október Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum.  Keppnisgreinar eru 40 og hver hópur keppir í öllum greinum.  Keppnisgreinar reyna á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil.  Þennan dag mætir starfsfólk í furðufötum.