Öskudagsgleði og vetrarleyfi

Á öskudag verður öskudagsgleði í Salaskóla. Skóladagurinn verður svolítið óvenjulegur og alveg örugglega einstaklega skemmtilegur. Nemendur mæta í búningum, taka þátt í alls konar sprelli og foreldrafélagið gefur öllum nammipoka. Allir fá svo pylsur í matinn líka þeir sem ekki eru í mat að öllu jöfnu.
Skólinn opnar á venjulegum tíma en við gefum krökkunum svigrúm að mæta til kl. 9:00. Það gerum við til þess að þeir fái meiri tíma til að klæða sig ef þess þarf. Skóladagurinn verður styttri en venjulega og allt er búið kl. 12:00. Dægradvölin verður þá opin eins og venjulega til kl. 17:00.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að allir eiga að mæta þennan dag. Í fyrra báðu foreldrar 6 eða 7 barna um leyfi.
Á fimmtudag og föstudag er svo vetrarfrí í skólum Kópavogs.

Morgunkaffi í 1. – 7. bekk

Nú höfum við boðið foreldrum allra nemenda í 1. – 7. bekk í morgunkaffi. Samtals mættu tæplega fimmhundruð foreldrar og sötruðu með okkur kaffisopa í morgunsárið. Foreldrar 76% barna í þessum bekkjum mættu að meðaltali og var mæting mun betri í yngri bekkjunum en þeim eldri. Foreldrar stara og stelka mættu hlutfallslega best, en þar voru 95% foreldra mætt. Fjölmennustu fundirnir voru í sendlingum og stelkum, 26 foreldrar voru á hvorum fundi. Á þessum fundum bar ýmislegt á góma og umræður voru góðar og ganglegar fyrir okkur. Það er mikilvægt fyrir okkur skólastjórnendur að eiga þessi samskipti við foreldra.

Foreldrar settu niður á blað það sem þeim finnst gott í starfi skólans og það sem má bæta. Almenn ánægja var með kennara og kennslu. Einnig voru margir sem nefndu góða sérkennslu. Upplýsingaflæði frá skóla til foreldra þykir gott sem og samstarf skólans við foreldra. Þá nefndu margir viðmót starfsfólks skólans, gott andrúmsloft og hversu vel og hratt er tekið á málum. Reyndar voru einnig einhverjir sem töldu mál vinnast of hægt. Dægradvölin fékk mjög góða einkunn hjá foreldrum og margir hrósuðu starfinu þar. Fleira sem var nefnt og ánægja er með er samvinna við tónlistarskóla, skákstarfið, kórinn, samsöngurinn, fjölgreindaleikarnir, maturinn og umhverfi skólans. Þá virtust foreldrar nemenda í 5. bekk almennt ánægðir hvernig tiltókst með uppstokkun á þeim bekkjum.

Það sem oftast bar á góma að mætti bæta var fataklefinn en þar eru snagar og hillur of hátt uppi. Það er nú verið að laga og á næstu dögum verða snagar og hillur komin í rétta hæð fyrir litla krakka. Nokkrir nefndu að skólalóðin væri tómleg og mætti bæta. Sumir nefndu tíð kennaraskipti sem ókost og það að hafa sundið eftir að skóla lýkur. Einnig kom fram að bæta mætti gæsluna í útivistinni eða skerpa á henni. Hjá einhverjum kom fram óánægja með matinn, en eins og kemur fram að ofan kom líka mikil ánægja fram með hann. Þá var talsvert nefnt að betra skipulag mætti vera á óskilafatnaði.

Fjölmargar góðar ábendingar komu fram sem við tökum til skoðunar og einnig notuðu margir tækifærið til að hrósa ákveðnum starfsmönnum. Hrósinu munum við koma til skila.

Við þökkum ykkur foreldrum fyrir góða mætingu í morgunkaffið og ykkar innlegg í að bæta skólann okkar.

Líney Ragna fékk viðurkenningu fyrir ljóðið Köld náttúra

Sl. laugardag voru veitta viðurkenningar fyrir ljóð í ljóðasamkeppnin grunnskólanemenda í Kópavogi. Tíu ljóð eftir nemendur úr Salaskóla voru send í keppnina og hlaut Líney Ragna Ólafsdóttir í 10. bekk viðurkenningu fyrir ljóðið sitt Köld náttúra. Til hamingju Líney!

Þau heimsins fegurstu kristal korn
sem kastast af himni háum.
Þau ísköld eru og ævaforn
á Íslandi of við sjáum.

Þau safnast saman upp í fjöll
á Snæfells jöklatinda.
Allt landslag hverfur undir mjöll
og gerir alla blinda.

Á nóttum norðurljósanna
í nærsýni þær glitra.
Fegurð fer til frostrósanna
er þær fara að titra.

Skólahald með eðlilegum hætti

Skólahald er með eðlilegum hætti í dag í Salaskóla, þótt hann blási svolítið. Foreldrar meta sjálfir hvort þeir þurfi að fylgja börnum sínum í skólann, en það getur orðið býsna blint á milli. Foreldrar eru beðnir um að kynna sér eftirfarandi upplýsingar um viðbrögð við óveðri:

http://salaskoli.is/index.php?option=com_content&view=article&id=279&Itemid=191

 

Salaskóli prófar ipad-tölvur

Salaskóli hefur keypt tvær ipad-tölvur í því skyni að kanna hvort þær geti komið í stað venjulegra borðtölva. Tveir af kennurum skólans hafa fengið það verkefni að prófa tölvurnar og kynna sér alla möguleika á notkun þeirra í skólastarfi. Þeir fara nú í vikunni á BETT-sýninguna í London, en það er stærsta sýning í heiminum á notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Á þeirri sýningu er að þessu sinni mikil kynning á notkun ipad í kennslu.

Morgunkaffi með foreldrum

Nú hafa nákvæmlega 300 foreldrar nemenda í 17 bekkjum mætt í morgunkaffi með skólastjórnendum Salaskóla. Enn eru sex bekkir eftir og eiga þeir boð strax eftir áramót. Um ýmislegt hefur verið spjallað, s.s. lestrarþjálfun, útivist, mötuneyti, kirkjuferðir, samræmd próf og auðvitað námið sjálft. Foreldrar skrifa á miða það sem þeim finnst gott í starfi skólans og það sem betur má fara. Við erum byrjuð að vinna úr því og gerum ráð fyrir að birta skýrslu byggða á athugasemdum foreldra þegar allir foreldrar hafa komið í kaffi til okkar.

Morgunkaffið er góð viðbót við annan foreldrastarf. Stjórnendur fá tækifæri til að ræða beint við alla foreldra og foreldrar geta komið hugmyndum sínum um skólastarfið beint á framfæri. Það er alveg ljóst að morgunkaffið styrkir skólasamfélagið og bætir starfið.

Aðventuganga foreldrafélagsins

Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður fimmtudaginn 8. desember nk. Hún verður með hefðbundnum hætti og er dagskráin svohljóðandi:
17.30 spilar Skólahljómsveit Kópavogs jólalög í skólanum og kemur öllum í jólaskap.
18.00 Allir láta ljós sitt skína þegar gengið verður í Lindakirkju, þar mun kór Salaskóla flytja nokkur lög undir stjórn Ragnheiðar Haraldsdóttur.
18.45 Haldið aftur í Salaskóla þar sem boðið verður uppá piparkökur og heitt kakó.