Haustið 2014 gerðu starfsmenn Námsmatsstofnunar úttekt á starfsemi Salaskóla. Þeir þættir sem voru skoðaðir voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og nám nemenda með sérþarfir. Niðurstöður úttektarinnar eru settar fram í skýrslu sem var birt í febrúar 2015 en kynntar starfsfólki í byrjun janúar. Þar eru dregnir fram styrkleikar í starfi skólans og sett fram tækifæri til umbóta.
Matshópur skólans var skipaður upp á nýtt í byrjun janúar og tók þegar til við að vinna að umbótaáætlun út frá þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni. Í hópnum eiga sæti Agnes Þorleifsdóttir, kennari, Berglind Hansen, fulltrúi foreldra, Hafsteinn Karlsson, skólastjóri, Hulda Björnsdóttir, deildarstjóri, Jóhanna Björk Daðadóttir, kennari, Jóhanna Pálsdóttir, kennari, Kjartan Ólafur Gunnarsson, nemandi, Magnús Halldórsson, húsvörður, Margrét Sveinsdóttir, sérkennari, María Helga Gunnarsdóttir, kennari og Matthildur Einarsdóttir, nemandi. Hópurinn fór skipulega í skýrsluna og rýndi sérstaklega í þær ábendingar sem þar koma fram. Hann lauk vinnu við skýrsluna í byrjun mars og á starfsmannafundi 13. mars voru niðurstöður hópsins kynntar og unnið áfram með ákveðna þætti á þeim fundi með svokölluðu kaffihúsafyrirkomulagi.
Umbótaáætlunin sem er nú komin á heimasíðu skólans, er sett upp í töfluformi ásamt tímaramma og ábyrgðaraðilum. Einhver atriði eru tvítekin í úttektarskýrslunni þar sem þau koma fram undir mismunandi matsþáttum. Í umbótaáætluninni er sérhver tillaga til úrbóta úr skýrslunni tekin fyrir í sömu röð og þær eru í skýrslunni. Í einhverjum tilfellum er búið að framkvæma það sem bent er á. Það kemur þá fram í áætluninni. Salaskóli þakkar gott samstarf við þá sem stóðu að og framkvæmdu úttektina. Úttektin er afar gagnleg fyrir skólastarfið og þróun þess.