Salaskóla var slitið í fjórtánda sinn í dag en þá komu nemendur í 1. – 9. bekk í skólann til þess að taka á móti vitnisburði sínum. Hafsteinn skólastjóri sagði nokkur vel valin orð, kórinn söng fáein lög undir stjórn Ragnheiðar tónmenntakennara við undirleik nemenda og síðan gengu umsjónarkennarar til stofu með nemendur sína til að afhenda einkunnirnar. Gaman var að sjá hversu margir foreldrar fylgdu krökkunum sínum á skólaslitin í dag. Krakkarnir gengu svo léttir í lundu út í „sumarið“, tilbúnir að takast á við ævintýri sumarfrísins sem bíða handan við hornið.
Í gærkvöldi var útskrift nemenda í 10. bekk sem fór fram við hátíðlega athöfn í sal skólans. Flutt voru tónlistaratriði, sýndir gjörningar nemenda og fulltrúar nemenda auk skólastjóra fluttu ávörp. Hver nemandi í 10. bekk var kallaður upp á svið þar sem flutt voru vel valin orð um hann og prófskírteini síðan afhent. Að athöfn lokinni buðu foreldrar upp á kaffi og kökur á glæsilegu hlaðborði.
Hér má sjá myndir frá skólaslitum og útskrift tíundubekkinga.