Kópurinn 2022

Salaskóla hlotnaðist í gær sá heiður að fá Kópinn 2022, sem viðurkenningu fyrir verkefnið „Sköpun og tækni“. Kópurinn er viðurkenning Menntaráðs Kópavogsbæjar og er veitt árlega fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf.

Við getum verið mjög stolt af því að þetta skólaár voru fjögur verkefni í Salaskóla og Félagsmiðstöðinni Fönix tilnefnd til Kópsins. Það eru verkefnin: „Beint í mark“ – „Fönix“ – „Kosningaverkefni 10. bekkjar“ – „Sköpun og tækni“.

Þorvaldur Hermannsson kennari í Salaskóla veitti viðurkenningunni viðtöku í gær í athöfn á hátíðarsal Álfhólsskóla. Þar kynnti Þorvaldur verkefnið sem hann hefur þróað í nokkur ár. Í „sköpun og tækni“ gefst nemendum tækifæri til að hanna og skapa, tengja verkefni við áhugasvið og styrkleika sína og vinna með fjölbreyttan efnivið auk ýmissa tækja, tóla og verkfæra.

Það er mikill heiður að fá tilnefningu til Kópsins og viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf. Í Salaskóla er metnaðarfullt og gróskumikið skóla- og frístundastarf og á bakvið hvert verkefni standa margir aðilar, mörg handtök, og mikil þróunar- og skipulagsvinna.

Viðurkenningar sem þessi eru í raun hrós og hvatning til okkar allra að halda áfram að vinna að faglegum og spennandi verkefnum, með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Til hamingju öll í Salaskóla!

Birt í flokknum Fréttir.