Innkaupalistar grunnskólanna ber gjarnan á góma milli skólaslita og skólasetningar. Það grípur jafnvel um sig eitthvert innkaupalistaæði sem er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Foreldrar pressa á skólana og skömmu eftir skólaslit berast okkur fyrirspurnir um hvort listarnir séu ekki að koma á netið og svo þegar líður á sumarið fara verslanirnar að auglýsa. Foreldrar fara í búðir með listana og kaupa það sem á þeim stendur. Þessu fylgja veruleg útgjöld, 10 þús. kr. fyrir hvern lista og þeir sem eiga fleiri en eitt barn þurfa að leggja fram tugi þúsunda. Það er til viðbótar öðru sem þarf fyrir skólabyrjun eins og ný föt, skólatösku o.s.frv.
En þarf þetta? Þurfa öll börn að mæta fyrsta skóladaginn með allar stílabækurnar sem gert er ráð fyrir að þurfi að nota næstu 9 mánuðina? Þarf að kaupa alla blýanda fyrir veturinn í ágúst? Nei það þarf ekki.
Það er eðlilegt að foreldrar og nemendur fari yfir það sem til er frá fyrra skólaári. Stílabækur sem ekki eru fullnýttar eru fullgildar, sem og blýantar sem ekki eru enn orðnir stubbar. Strokleður og yddarar virka yfirleitt fleiri en eitt skólaár og trélitirnir frá því í vor eru e.t.v. bara í lagi enn þá. Er ekki bara skynsamlegt að byrja nýtt skólaár á að nota þetta og kaupa svo inn í það sem gengur úr sér eftir því sem líður á veturinn? Foreldrar og nemendur þurfa að passa upp á að endurnýja þessa hluti eftir þörfum allan veturinn.
Salaskóli mun í haust ekki leggja fram innkaupalista en aftur á móti fá nemendur í hendur gátlista yfir það sem eðlilegt er að nemandi sé með í töskunni. Eðlilegt er að foreldrar og nemendur fari reglulega yfir gátlistann og verði sér þá út um það sem vantar hverju sinni.
Í 1. – 4. bekk stendur skólinn fyrir sameiginlegum innkaupum á ritföngum sem nemendur í hverjum námshópi hafa aðgang að allan veturinn. Foreldrar hafa greitt fyrir þetta og hefur kostnaður verið einhversstaðar á milli 2 – 3 þús. kr. Í 5. – 10. bekk verða svo allir nemendur með spjaldtölvur og því hlýtur þörf að ýmis konar stílabókum, reiknivélum og slíku að hverfa.
Tökum höndum saman og gerum þetta af skynsemi.