Nokkrum starfsmönnum Salaskóla var boðið til athafnar hjá Heimili og skóla við lok síðustu viku. Tilefnið var tilnefning til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2022 í flokknum „dugnaðarforkar“.
Í umsögn með tilnefningunni kom fram að þær Guðlaug Björg Eiríksdóttir þroskaþjálfi og Gígja Jónsdóttir, með stuðningi frá Hrefnu Björk Karlsdóttur aðstoðarskólastjóra og Hafsteini Karlssyni fyrrverandi skólastjóra, hafi komið með hlýju og fagmennsku að starfi í einhverfudeild skólans. Þar sé áhersla á skólaumhverfi þar sem einhverfir nemendur blómstra.
Orðrétt kemur fram í umsögn:
„Nálgun þeirra, hlýja, þolinmæði, innsæi og fagmennska er ótrúleg. Starfsfólk einhverfudeildarinnar mætir nemendum þar sem hver og einn er staddur og bætir þekkingu nemendans á fjölbreyttan hátt. Trú þeirra á getu nemenda til að læra í gegnum áhugasvið og styrkleika hvers og eins skilar sér í áhugasömum nemendum með jákvæða sjálfsmynd og trú á eigin getu. Svona er jákvætt og uppbyggjandi skólaumhverfi sem allir einhverfir nemendur eiga rétt á“.
Til hamingju öll með frábæra viðurkenningu á góðu og faglegu starfi!