Category Archives: Fréttir
Snjallir nemendur í Kópavogi
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk
Alþjóðlegur dagur Downs heilkennis
Nemandi í Salaskóla verðlaunahafi í teiknisamkeppni grunnskólanema
Úrslit í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema liggja nú fyrir og var Embla Dröfn Hákonardóttir, nemandi í 4. bekk, ein af vinningshöfum.
Öllum nemendum 4. bekkjar var boðið að taka þátt en þessi skemmtilega teiknisamkeppni hefur notið mikilla vinsælda meðal nemenda, kennara og skólastjórnenda í áraraðir og eru allir sem hlut eiga að máli sammála um að keppnin sé bæði góð hvatning fyrir nemendur og skemmtileg leið til að brjóta upp hefðbundið skólastarf.
Myndin sem Embla teiknaði er ein þeirra 10 mynda sem hlaut viðurkenningu í ár, en hún var í hópi þeirra rúmlega 1.200 mynda sem bárust í keppnina.Bekkjarsjóður Emblu mun hljóta 40.000 kr. verðlaunafé frá Mjólkursamsölunni sem bekkurinn getur nýtt í að gera sér glaðan dag saman og efla liðsheild í samráði og samvinnu við umsjónakennara sinn og/eða skólastjórnendur.
Við óskum Emblu Dröfn innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.
Bebras tölvuáskorun 2022
Bebras (e. Beaver) áskorunin er alþjóðlegt verkefni sem felst í að auka áhuga á upplýsingatækni og efla rökhugsun og tölvufærni (e. Computational thinking) meðal nemenda á öllum skólastigum. Þetta er ein fjölmennasta áskorun sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni og var hún keyrð í fyrsta sinn á Íslandi í nóvember 2015 og er Ský í forsvari fyrir verkefnið á Íslandi. Salaskóli tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra verkefni í nóvember síðastliðnum líkt og undanfarin ár.
Niðurstöðurnar úr Bebras tölvuáskoruninni 2022 voru kynntar fyrir nemendum í gær og í dag. Þriðja árið í röð var Salaskóli með flesta þátttakendur af þeim skólum sem tóku þátt á Íslandi sem og allir árgangar voru yfir meðaltali í stigaskori bæði yfir höfuðborgarsvæðið sem og á landsvísu, frábær árangur það.
Alls tóku 352 nemendur í 3. – 9. bekk þátt sem er virkilega vel gert og þökkum við öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum kærlega fyrir.
Fjölgreindaleikar 2022 – Verðlaunaafhending
Fjölgreindaleikar Salaskóla voru haldnir í síðastliðnum mánuði, 10. – 11. nóvember og hafa löngum þótt vera einn mikilvægasti viðburður skólaársins.
Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn verkefna sem reyna á allar greindir mannskepnunnar. Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Þar reynir ekki síst á leiðtoga hvers hóps, en það eru nemendur úr elstu bekkjum skólans. Þá daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir hana mætir starfsfólk í furðufötum.
Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í um 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum. Keppnisgreinar eru um 40 og hver hópur keppir í öllum greinum. Keppnisgreinar reyna eins og áður segir á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil.
Í morgun voru sigurvegarar heiðraðir með verðlaunapeningum í íþróttahúsinu. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með frábæran árangur.
Lúsíuhátíð 2022
Það hefur löngum verið hefð í Salaskóla að halda upp á Lúsíumessu sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu í kringum 13. desember. Nemendur í 4. bekk eru í aðalhlutverki og Lúsían hefur í gegnum tíðina verið valin úr 7. bekk. Nemendur klæðast hvítum kyrtlum, hnýta silfurbönd um mitti sér og höfuð og halda á ljósi. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi og með rauðan linda um mitti.
Undanfarin tvö ár hafa verið með breyttu sniði í ljósi aðstæðna og því var ákaflega ánægjulegt að geta haldið upp á messuna á hefðbundin máta í morgun þegar Lúsíugangan fór um allan skólann með söng og tilheyrandi hátíðleika undir stjórn Stefáns Hauks tónlistarkennara. Falleg og friðsæl stund í Salaskóla í morgunsárið.