Kópurinn og forvarnarsjóður Kópavogs

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Kópsins, sem eru viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf í grunnskólum Kópavogs.

Einnig er opið fyrir umsóknir í forvarnarsjóð Kópavogsbæjar.

Áhugasamir geta sent inn tilnefningar/umsóknir eða komið hugmyndum til skólastjóra sem getur aðstoðað við ferlið. 

Alþjóðadagur Downs heilkennis 21. mars

Fimmtudaginn 21. mars nk. er alþjóðlegur dagur Downs heilkennis. Markmið dagsins er að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin er táknræn að því leyti að hún vísar til þess að Downs-heilkenni orsakast af auka litning í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litning 21 – 21.03.
 
Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að mæta í mislitum sokkum þennan dag og fagna fjölbreytileikanum á þann hátt. 

Skólaþing Salaskóla

Skólaþing Salaskóla fór fram 8. febrúar þar sem allir nemendur skólans tóku þátt í umræðum sem tengjast skólastarfinu. Þar var meðal annars rætt hvað hægt sé að gera svo að nemendum líði betur í skólanum og hvernig hægt væri að gera námið áhugaverðara. Nemendum var skipt í hópa og 10. bekkingar tóku að sér að vera ritarar og leiða umræður, með aðstoð kennara þar sem flestir lögðu sitt að mörkum. Hugmyndir nemenda verða svo teknar saman og nokkrar tillögur fara áfram á Barnaþing Kópavogs sem verður haldið 20. mars nk. Þar munu nokkrir nemendur fara sem fulltrúar fyrir Salaskóla. 

Margar hugmyndir kviknuðu og var gaman að sjá nemendur á öllum stigum ræða saman um hvernig að þeirra mati væri hægt að gera skólastarfið áhugaverðara 🙂

Góðgerðahlaup Salaskóla

Í dag föstudaginn 15. september, fer Ólympíuhlaup UMFÍ fram í Salaskóla. Við höfum ákveðið að gera hlaupið að „Góðgerðarhlaupi“ og styrkja gott málefni.

Fyrir valinu varð Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, SKB. Það er félag sem stendur skólasamfélaginu okkar nærri. SKB styður við fjölskyldur, fjárhagslega og félagslega, heldur uppi foreldra- og unglingafundum, listmeðferðum og sinnir margvíslegu öðru stuðningsstarfi við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra. Svo vel vill til að september mánuður en tileinkaður gylltu slaufunni, en sú slaufa er tileinkuð börnum með krabbamein.

Það er spenna í okkur á hlaupdegi og við höfum beðið foreldra og aðra velunnara skólans að styrkja nemendur um eina krónu fyrir hvern nemenda, en það eru þá 530kr – upphæð framlags getur þó að sjálfsögðu verið frjáls og allt skiptir máli.

Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hjálpa öðrum – við hlaupum til góðs!

Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.

Snemma í morgun höfðu safnast rúmlega 100.000kr og við erum spennt að hækka þá upphæð og munum láta ykkur vita þegar við komum styrknum á framfæri.

 

Skólaárið 2023-2024!

Skólasetning Salaskóla verður miðvikudaginn 23. ágúst.

  • Nemendur í 2.-4. bekk mæta kl. 9:00.
  • Nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 10:00
  • Nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 11:00.

Skólasetningin verður í opnu rými við aðalinngang skólans, nálægt stiganum.

Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnum sínum.
Eftir stutta skólasetningarathöfn fara nemendur í kennslustofur þar sem umsjónarkennarar bjóða þá velkomna og fara stuttlega yfir skólabyrjun og helstu áherslur árgangsins.
Nemendur í 1. bekk mæta ekki til hefðbundinnar skólasetningar en umsjónarkennarar þeirra hafa boðað hvern nemanda til viðtals ásamt foreldrum en viðtölin fara fram dagana 22. og 23. ágúst.
Kennsla hefst samkvæmt stundatöflum hjá öllum árgöngum fimmtudaginn 24. ágúst.

Frístund er lokuð á skólasetningardegi en opnar kl. 13:20 fyrsta skóladaginn.
Foreldrar nemenda í 1.-4. bekk fá allar frekari upplýsingar um skráningar og aðra þætti sem snúa að frístundastarfinu frá Kristrúnu Sveinbjörnsdóttur sem er ný forstöðukona frístundar.

Foreldrar skrá  börn sín í mötuneyti skólans í gegnum þjónustugátt á heimasíðu Kópavogsbæjar.
Sá möguleiki er nú fyrir hendi að við skráningu geta foreldrar valið hvort þeir skrái börnin í „vegan“ fæði eða ekki.
Þeir sem nú þegar eiga virkar skráningar í mötuneyti og vilja breyta yfir í „vegan“ verða að skrá sig inn og framkvæma breytinguna.
Foreldrar nemenda í 1.-7. bekk geta einnig valið skráningu í ávexti sem morgunhressingu og hafa langflestir nýtt það.

Unglingastiginu verður boðið í hafragraut í morgunfrímínútum alla virka daga.

Skóladagatal skólaársins 2023-2024 er aðgengilegt á heimasíðu skólans.

Skrifstofa skólans er opin alla virka daga kl. 8:00-15:00.
Símanúmer skólans er 441-3200.
Ritari er Ásdís Sigurjónsdóttir en hún er öllum hnútum kunnug hvað skólastarfið varðar og svarar fyrirspurnum hratt og vel, netfang; ritari@salaskoli.is .

Við hlökkum til að hittast aftur eftir sumarfríið – GLEÐILEGT NÝTT SKÓLAÁR!