Skipulagsdagur 14. mars – dægradvölin lokuð

Þriðjudaginn 14. mars er skipulagsdagur í Salaskóla. Við vekjum sérstaka athygli á að dægradvölin er lokuð þennan dag, en starfsfólk dægradvalar fær tvo daga á starfstíma skóla til að vinna að skipulagi starfsins.

Þennan dag munum við vinna að skipulagningu næstu mánaða. Sérstök áhersla verður á tilhögun námsmats í vor. Við munum einnig skoða niðurstöður kannana og huga að viðbrögðum við þeim.

Green Screen myndir

Hér í Salaskóla er svokallaður Green Screen veggur. Með honum er hægt að velja sér bakgrunn í myndatökum þar sem notast er við app úr spjaldtölvunum.

Nokkrir krakkar tóku stórskemmtilegar og skapandi myndir á Öskudaginn þar sem þau nýttu sér Green Screen tæknina.

Fleiri myndir má nálgast hér

 

Skíðaferð 2017

Nemendur fengu val um að fara í skíðaferð upp í Bláfjöll í góða veðrinu eða taka þátt í öskudagsgleðinni nú á miðvikudaginn. Margir nemendur ákváðu að skella sér á skíði og skemmtu sér konunglega.

Fleiri myndir má nálgast í myndasafni, en þær Ása, Jóhanna Björk og Ragnheiður eiga heiðurinn að þeim.

 

 

Tilkynning til foreldra vegna veðursins

Veðrið er að versna og spáin vond. Það á að vera mjög slæmt frá ca. 11:00 – 17:00 í dag. Við höldum börnunum inni í skólanum í dag og sendum engan heim þegar veðrið er vont. Foreldrar verða að sækja börnin en óráðlegt að fara af stað meðan veðrið er verst – þá lenda bara allir í vandræðum. Skynsamlegast er að fara af stað áður en veðrið kemst í sinn versta ham. Um kl. 11:00 verða komnir 20 m/sek skv. belgingur.is og til kl. 17:00 verður kolvitlaust veður.

Við biðjum ykkur um að hringja ekkert í skólann, því þá springur kerfið. Þið getið komið skilaboðum til okkar fljótt og vel með því að senda póst á ritari@salaskoli.is.

Þegar þið komið að sækja börnin eruð þið beðin um að koma inn í skólann og fara að kennslustofunni þeirra. Þannig gengur þetta best fyrir sig.

En eins og áður kom fram þá verða einhverjir starfsmenn hér í dag þar til öll börn hafa verið sótt – hvenær sem það verður.

oskudagursmall.jpg

Öskudagur í Salaskóla

Öskudagur er miðvikudaginn 1. mars nk. Að venju verður öskudagsgleði í skólanum og krakkarnir mæta í búningum. Hér verða svo ýmsar uppákomur allan morguninn þar sem búningarnir nýtast vel. Skólinn er til hádegis þennan dag en dægradvölin er opin eftir að skóla lýkur.

pencil

Breyting á aðalnámskrá grunnskóla og reglugerð um innritun í framhaldsskóla

Athygli er vakin á auglýsingu um breytingu á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Breytingarnar varða brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Í auglýsingu nr. 894/2016, sem birt var í Stjórnartíðindum 31. október 2016,  staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Meginbreytingin lýtur að því að ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið. Sjá nánari í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Athygli er einnig vakin á breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, sem miðar að því að auka svigrúm skólanna við val á umsækjendum um skólavist. Meginefni reglugerðarinnar er að þegar framhaldsskólar þurfa að velja úr stórum hópi umsækjanda um skólavist, er þeim heimilt að taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla. Þeim er einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Þessi breyting kemur fram í reglugerð nr. 1199/2016 um breytingar á reglugerð nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla (sem áður var breytt með reglugerð nr. 204/2012). Sjá nánar í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Innritun í grunnskóla Kópavogs fyrir skólaárið 2017-2018

Innritun 6 ára barna (fædd 2011) fer nú alfarið fram í gegnum
íbúagátt á vef bæjarins https://ibuagatt.kopavogur.is
Opnað verður fyrir skráningu 1. mars 2017 og stendur hún til
8. mars.
Sömu daga fer fram innritun nemenda sem flytjast milli
skólahverfa og þeirra sem flytja í Kópavog eða koma úr
einkaskólum.
Haustið 2017 munu skólar hefjast með skólasetningardegi
þriðjudaginn 22. ágúst. Nánari upplýsingar um skólabyrjun
munu birtast á heimasíðum skólanna.
Sérstök athygli er vakin á því að umsóknarfrestur um
heimild til að stunda nám í einkaskólum eða grunnskólum
annarra sveitarfélaga er til 1. apríl og skal sækja um á
íbúagátt Kópavogs. Sækja þarf um að nýju fyrir
nemendur, sem nú eru í slíkum skólum, ef gert er ráð fyrir
að þeir verði þar næsta vetur.