pencil

Breyting á aðalnámskrá grunnskóla og reglugerð um innritun í framhaldsskóla

Athygli er vakin á auglýsingu um breytingu á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Breytingarnar varða brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Í auglýsingu nr. 894/2016, sem birt var í Stjórnartíðindum 31. október 2016,  staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Meginbreytingin lýtur að því að ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið. Sjá nánari í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Athygli er einnig vakin á breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, sem miðar að því að auka svigrúm skólanna við val á umsækjendum um skólavist. Meginefni reglugerðarinnar er að þegar framhaldsskólar þurfa að velja úr stórum hópi umsækjanda um skólavist, er þeim heimilt að taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla. Þeim er einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Þessi breyting kemur fram í reglugerð nr. 1199/2016 um breytingar á reglugerð nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla (sem áður var breytt með reglugerð nr. 204/2012). Sjá nánar í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Innritun í grunnskóla Kópavogs fyrir skólaárið 2017-2018

Innritun 6 ára barna (fædd 2011) fer nú alfarið fram í gegnum
íbúagátt á vef bæjarins https://ibuagatt.kopavogur.is
Opnað verður fyrir skráningu 1. mars 2017 og stendur hún til
8. mars.
Sömu daga fer fram innritun nemenda sem flytjast milli
skólahverfa og þeirra sem flytja í Kópavog eða koma úr
einkaskólum.
Haustið 2017 munu skólar hefjast með skólasetningardegi
þriðjudaginn 22. ágúst. Nánari upplýsingar um skólabyrjun
munu birtast á heimasíðum skólanna.
Sérstök athygli er vakin á því að umsóknarfrestur um
heimild til að stunda nám í einkaskólum eða grunnskólum
annarra sveitarfélaga er til 1. apríl og skal sækja um á
íbúagátt Kópavogs. Sækja þarf um að nýju fyrir
nemendur, sem nú eru í slíkum skólum, ef gert er ráð fyrir
að þeir verði þar næsta vetur.

TÖLVUPÓSTUR TIL KENNARA OG SKÓLASTJÓRNENDA

 

Kennarar og skólastjórnendur lesa og svara tölvupósti eftir kennslu og að minnsta kosti innan tveggja daga frá því hann berst. Póstur sem berst eftir að vinnudegi lýkur er ekki lesinn fyrr en daginn eftir.

Ekki er hægt að treysta því að tölvupóstur sem kennarar eða skólastjórnendur fá verði lesinn samdægurs. Ef erindið er brýnt þarf því að hringja á skrifstofu skólans 441-3200 eða senda tölvupóst á skrifstofuna ritari@salaskoli.is

Við hvetjum foreldra til að fara yfir skipulag dagsins með börnum sínum áður en þau fara í skólann ekki síst ef eitthvað á að vera öðruvísi en venjulega. Við eigum oft erfitt með að sinna beiðnum um að koma skilaboðum til barna á miðjum morgni en gerum það auðvitað ef upp koma ófyrirséð tilvik. Í slíkum tilvikum geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans eða sent skilaboð á ritari@salaskoli.is.

Kennarar eru með þéttskipaða dagskrá eftir að lokinni kennslu og eru þá að sinna undirbúningi undir kennslu, samstarfi við aðra kennara, fundum með foreldrum og sérfræðingum, kennarafundum og endurmenntun. Foreldrar geta því ekki náð tali af kennara þegar kennslu lýkur t.d. þegar þeir eru að sækja börn sín, nema þeir hafi áður pantað viðtal.

Foreldrar geta óskað eftir fundi við kennara eða skólastjórnendur með því að senda þeim tölvupóst og þeir svara við fyrsta tækifæri.

Ef upp koma alvarleg tilvik utan dagvinnutíma sem þarf að upplýsa okkur um eru foreldra beðnir um að hringja í Hafstein skólastjóra í síma 821 1630 eða Hrefnu Björk aðstoðarskólastjóra í síma 8643719.

Fjáröflun 10. bekkjar

Í dag eru foreldraviðtöl og í tilefni þess hafa 10.bekkingar stillt upp þessum fallega kökubasar.

Hægt er að kaupa sér til að maula á staðnum og svo er líka hægt að kaupa heilar kökur. Gott væri að hafa reiðufé í vasanum til að borga fyrir. Salan er við aðalinngang og á miðrými uppi.

 

Fallega skreyttir kökubakkar

 

Flottir

 

Namm, girnilegt!

 

 

 

 

Lestrarátak Ævars vísindamanns

Við minnum á lestrarátak Ævars vísindamanns og hvetjum eindregið til þátttöku

Hér eru upplýsingar um átakið,(tekið af: www.visindamadur.com )

  1. Það má lesa hvaða bók sem er.
  2. Á hvaða tungumáli sem er.
  3. Hljóðbækur og ef einhver les fyrir þig telst með.
  4. Allir krakkar í 1. – 7. bekk mega taka þátt.

Fyrir hverjar þrjár bækur sem þið lesið prentið þið út lestrarmiða, fyllið út og skilið á næsta skólabókasafn, sem mun svo koma þeim til skila.

Ef einhverjir eru að taka þátt utan skóla (eins og t.d. krakkar sem búa í útlöndum) er hægt að senda lestrarmiðana á: Heimili og skóli, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Í byrjun mars verður dregið úr öllum innsendum lestrarmiðum og fá fimm krakkar í verðlaun að vera persónur í æsispennandi geimverubók eftir Ævar vísindamann, Gestir utan úr geimnum, sem kemur út í apríl.

​Í síðustu tveimur átökum voru lesnar meira en 114 þúsund bækur. Það verður einstaklega spennandi að sjá hvernig okkur gengur í ár.

Áfram lestur!

ÝTTU HÉR TIL AÐ HLAÐA NIÐUR LESTRARMIÐUNUM

 

Siljan 2017

Við hvetjum unga upprennandi kvikmyndagerðarmenn til þess að taka þátt í Siljunni 2017

Barnabókasetur stendur fyrir myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.

Markmiðið er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Nemendur geta unnið einir eða í hópi. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2014-2016.

Myndböndin skulu vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu (til dæmis youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is Skilafrestur rennur út 10. mars. Sjá nánar á barnabokasetur.is

Öll myndböndin verður því hægt að sjá á netinu. Valin myndbönd verða jafnframt tengd við einn fjölsóttasta vef landsins, gegnir.is þar sem þau munu koma að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.

Verðlaun:
Fyrstu verðlaun: 25 þúsund krónur.
Önnur verðlaun: 15.000 krónur.
Þriðju verðlaun: 10.000 krónur.

Auk þess fær skólasafnið í skóla sigurvegarans 100 þúsund króna bókaúttekt frá Félagi íslenskra bókaútgefanda.

Siljan hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði. Barnabókasetur er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri.

Umsjón með verkefninu er í höndum stjórnar Barnabókasetursins sem skipuð er Brynhildi Þórarinsdóttur, rithöfundi og dósent við Háskólann á Akureyri, Haraldi Þór Egilssyni safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri og Hólmkeli Hreinssyni Amtsbókaverði.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt.

Jólaböllin 2016

Þriðjudagurinn 20. desember er síðasti skóladagur fyrir jól. Þá mæta nemendur á jólaböll eins og hér segir: Kl. 9:00 – 9:50 – Glókollar, Þrestir, Hrossagaukar, Maríuerlur, Kríur, Flórgoðar, Tildrur Kl. 10:00 – 10:50 – Músarrindlar, Lóur, Lundar, Sandlóur, Langvíur, Himbrimar, Tjaldar Kl. 11:00 – 11:50 – Sólskríkjur, Spóar, Teistur, Steindeplar, Ritur, Lómar, Vepjur Nemendur í unglingadeild eru með sitt jólaball mánudagskvöldið 19. desember og eiga því frí daginn eftir. Nemendur í 1. – 7. bekk eru komnir í jólafrí að loknu jólaballi. Dægradvölin er opin frá kl. 8:00 á þriðjudag. Skólastarf hefst aftur að loknu jólafríi miðvikudaginn 4. janúar.

pencil

Valgreinar á vorönn

Nú er komið að því að velja valgreinar vorannar. Allir nemendur eiga að fara inn á valsvæðið og velja þar það sem vekur mestan áhuga. Þar eru allar upplýsingar um það sem er í boði og hvernig á að velja. Þetta þarf að gerast í síðasta lagi næsta sunnudag, 18. desember.