Fjölgreindaleikar 2025

Dagana 6. og 7. nóvember fóru Fjölgreindaleikar Salaskóla fram og var mikið líf og fjör í skólanum þessa daga. Enn og aftur sannast það hvað þessir leikar eru skemmtilegir og gefandi og á svona dögum sjáum við nemendur okkar blómstra á svo fjölbreyttan hátt. Nemendur vinna verkefni í aldursblönduðum hópum, vinna sameiginlega að þrautalausnum og leysa viðfangsefni sem reyna á mismunandi hæfni og færni. Á hverri stöð voru starfsfólks skólans í gervi alls kyns furðuvera og fólks sem vissulega jók við skemmtanagildið þessa daga.

Eldri nemendur leiða þá yngri áfram, taka ábyrgð í hópastarfi og leggja sig fram um að vera góðar fyrirmyndir. Nemendur mynda ný vinatengsl og kynnast nýjum hliðum á félögum sínum. Hér gildir svo sannarlega vinátta- virðing og samstarf sem eru jú einkunnarorðin okkar í Salaskóla.

📷Myndirnar tóku Viktor Óli í 5.bekk og Jökull Gauti í 7.bekk

Skólamót Kópavogs í skák

Salaskóli sendi tvö lið í Skólamót Kópavogs í flokki 5. – 7. bekk í skák. A-lið bar sigur úr býtum á mótinu, vann allar sínar skákir fyrir utan tvær.

Þeir sem skipuðu A-sveitina eru: 1. borð: Reynir, 2. borð: Krummi, 3, borð: Heiðar og 4. borð: Guðjón.
B – liðið stóð sig einnig mjög vel.

Við óskum þessum flottu drengjum innilega til hamingju !

Styrkur til Downs félagsins

Í dag 29. september afhendu nemendur Salaskóla Félagi áhugsafólks um Downs heilkenni styrk að upphæð 313.000 kr.

Styrkurinn er afrakstur söfnunar sem nemendur stóðu fyrir þann 19. september 2025. Þann dag tók allur skólinn þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ, en sá hlaupaviðburður er einnig „Góðgerðahlaup Salaskóla“. Foreldrar, nágrannar skólans í Salahverfi og aðrir velunnarar skólans styrktu nemendur til að hlaupa til góðs. Margir styrktu nemendur um 500 kr. sem er ein króna fyrir hvern nemanda skólans, aðrir völdu styrkupphæð að eigin vali.

Downsfélagið stendur samfélagi okkar nærri enda hafa bæði nemendur skólans og aðstandendur þeirra nýtt þann stuðning og félagsskap sem félagið býður fjölskyldum barna með Downs heilkenni.

Gulur september

Á morgun, miðvikudaginn 10. september, er alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna og vitundarvakningar um geðrækt.
Af því tilefni ætlum við í Salaskóla að halda GULAN dag til að sýna samstöðu í gulum september – mánuði vitundarvakningar um geðheilbrigði, líðan og sjálfsvígsforvarnir.

Þetta mikilvæga málefni snertir skólasamfélagið okkar og minnir okkur á að standa saman, sýna hvert öðru stuðning, skilning og hlýju.
Gildi Salaskóla eiga hér vel við: Vinátta – Virðing – Samstarf.

Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að klæðast gulu eða bera eitthvað gult á morgun – allir geta tekið þátt og skapa með því hlýja, jákvæða og glaða stemningu, #gulurseptember.

Alþjóðlegur dagur einhverfunnar

Alþjóðlegur dagur einhverfunnar er á morgun, 2.apríl.

Á degi einhverfunnar hvetjum við alla að mæta í öllum regnbogans litum til að undirstrika áherslu á fjölbreytileika einhverfunnar. Dagurinn var áður „blár dagur“ og það er enn leyfilegt að vera í bláu enda er það einn af regnbogans litum!

Stóra upplestrarkeppnin

Þann 26.mars var Stóra Upplestrarkeppnin haldin í Salnum í Kópavogi. Salaskóli sendi 3 mjög svo frambærilega keppendur, þau Emilíu Ósk, Patrek Leó og Emmu Dís sem öll eru í 7.bekk.

Patrekur Leó stóð uppi sem sigurvegari og óskum við honum og Salaskóla til hamingju með verðskuldað 1.sæti.

Tilnefningar til Kópsins

Nú er opið fyrir tilnefningar til Kópsins, sem er viðurkenning Menntaráðs Kópavogsbæjar fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf skólaárið 2024 – 2025.

Undanfarin ár hafa nokkur verkefni frá Salaskóla verið tilnefnd og fyrir tveimur árum fékk verkefni frá Salaskóla Kópinn – en það var verkefnið „leiðtogaþjálfun í skólaíþróttum í 10. bekk“.

Starfsfólk skóla, foreldrar og allir aðrir mega tilnefna verkefni á þessari slóð:
https://forms.office.com/e/DsRyyJP5fJ

Þeir sem vilja senda inn tilnefningu en þurfa aðstoð við eyðublaðið geta leitað aðstoðar hjá skólastjórnendum 😊