pencil

Breyting á aðalnámskrá grunnskóla og reglugerð um innritun í framhaldsskóla

Athygli er vakin á auglýsingu um breytingu á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Breytingarnar varða brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Í auglýsingu nr. 894/2016, sem birt var í Stjórnartíðindum 31. október 2016,  staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Meginbreytingin lýtur að því að ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið. Sjá nánari í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Athygli er einnig vakin á breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, sem miðar að því að auka svigrúm skólanna við val á umsækjendum um skólavist. Meginefni reglugerðarinnar er að þegar framhaldsskólar þurfa að velja úr stórum hópi umsækjanda um skólavist, er þeim heimilt að taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla. Þeim er einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Þessi breyting kemur fram í reglugerð nr. 1199/2016 um breytingar á reglugerð nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla (sem áður var breytt með reglugerð nr. 204/2012). Sjá nánar í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Birt í flokknum Fréttir.