Opinn dagur 11. maí

Föstudaginn 11. maí verður opinn dagur í Salaskóla. Þá er foreldrum boðið í heimsókn í skólann þar sem ýmsar uppákomur verða víðsvegar um skólann. Opnað verður kaffihús, Salaskóli fær Grænfánann í 4. sinn og margt, margt fleira. Nánar auglýst síðar.

Tölvupóstur í samskiptum heimila og skóla

Tölvupóstur í samskiptum heimila og skóla

Leiðbeiningar fyrir foreldra

Hvenær á að nota tölvupóst?

  • Tilkynna veikindi – ef skólinn tekur við tilkynningum í tölvupósti
  • Leita upplýsinga
  • Hrósa kennara/skóla fyrir það sem vel er gert
  • Gera athugasemdir um það sem þér finnst miður fara

Hvenær á ekki að nota tölvupóst?

  • Ekki ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti – hringja og panta viðtal
  • Þegar maður er reiður og illa upp lagður

Tölvupóstur er ekki öruggur

  • Aðrir geta lesið póstinn
  • Pósturinn getur “óvart” farið á annað/önnur netföng
  • Ekki er hægt að eyða bréfi sem hefur verið sent eða breyta því á nokkurn hátt
  • Þegar bréf hefur verið sent er það til, óvíst er að viðtakandi eyði því, heldur geymi það í tölvunni – jafnvel sendi það áfram til fleiri aðila eða prenti það út og sýni fleirum
  • Ekki er 100% öruggt að tölvupósturinn skili sér, frekar en sniglapóstur
  • Bréfi send í tölvupósti hafa verið gögn í dómsmáli hér á landi

Skýr, hnitmiðuð skilaboð

  • Ekki senda löng skeyti. Hafðu textann hnitmiðaðan og skýran, þannig að skilaboðin komist klárlega til skila. Fáir gefa sér tíma til að lesa langan texta í tölvunni. Skeytin eiga að vera svo stutt að ekki þurfi að prenta þau út.
  • Viðtakandi getur “lesið á milli línanna” og túlkað sjálfur og fengið þannig önnur skilaboð en sendandi hafði ætlast til. Þess vegna þarf textinn að vera skýr og augljós. Varist hálfkveðnar vísur.

Trúnaðarmál á ekki að ræða í tölvupósti

  • Tölvupóst á ekki að nota til að ræða viðkvæm mál
  • Aldrei senda trúnaðarmál í tölvupósti – þá er betra að hringja eða hittast augliti til auglitis

Viðhengi og auglýsingar

  • Tölvupóstur er einfalt, þægilegt og fljótlegt samskiptaform
  • Tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann
  • Tölvupóstur er fínn til að koma skilaboðum til skólans
  • Sendið ekki auglýsingapóst eða ruslpóst á kennara
  • Notið viðhengi í miklu hófi. Viðhengi eru stór skjöl sem taka langan tíma í að hlaðast inn í tölvu viðtakanda. Slíkt pirrar fólk. Ekki á að senda viðhengi á einstaka kennara nema þeir vita af því áður.

Sýnið alltaf kurteisi

  • Aldrei skrifa bréf í reiði, bíða þar til hún rennur
  • Ef þú ert í vafa um hvort þú eigir að senda bréfið, ekki senda það. Láttu einhvern eða einhverja lesa það yfir
  • Aldrei láta hanka þig á ókurteisi, dónaskap eða ruddaskap
  • Það sem þú lætur fara frá þér í tölvupósti lýtur sömu lögum og annað ritað mál. Varastu því að láta frá þér fara óhróður um fólk og stofnanir, jafnvel þó þér finnist einhver eiga það skilið!

Vorhátíðin verður 19. maí

Stjórn foreldrafélagsins fundaði með skólastjórnendum sl. mánudag og þar var rætt um hina árlegu vorhátíð sem hingað til hefur verið skólaslitadaginn. Ákveðið var að breyta til að þessu sinni og nú verður hátíðin laugardaginn 19. maí frá kl. 11:00 – 14:00. Það gefur fleiri foreldrum tækifæri til að taka þátt í þessari skemmtilegu samveru. Jafnframt hyggst stjórnin breyta nokkuð fyrirkomulaginu, vera með leiki, reiptog, hæfileikakeppni, brennókeppni, stultur, fjöltefli, tónlist o.s.frv. – sem sagt hátíð með virkri þátttöku nemenda og foreldra. Svo má náttúrulega ekki gleyma grillinu.

Í stjórn foreldrafélagsins eru aðeins fimm einstaklingar og það þarf fleira fólk til að hjálpa til við hátíðina. Stjórnin óskar eftir aðstoð og hugmyndum. Allir sem vilja aðstoða við hátíðina, undirbúning ásamt þeim sem e.t.v. vilja vera með eitthvað sérstakt á hátíðinni eru beðnir um að setja sig í samband við stjórnarfólkið. Netföng þeirra eru hér að neðan.

kristinn69@gmail.com
helgim@atlanta.is
bjarni.ellertsson@samskip.com
silja.g@simnet.is

Góðar niðurstöður fyrir Salaskóla

Salaskóli er þátttakandi í Skólapúlsinum sem mælir ýmis viðhorf nemenda í grunnskólum til skólans síns og skólastarfsins. Nokkrum sinnum á vetri tekur úrtak nemenda í 6. – 10. bekk þátt í könnun og yfir veturinn hafa allir nemendur í þessum bekkjum tekið þátt. Niðurstöður eru birtar jafnóðum og  þannig getur skólinn séð hvaða breytingar hafa orðið frá síðustu mælingu auk samanburðar við aðra sambærilega skóla.

Salaskóli hefur ævinlega komið vel út í Skólapúlsinum. Hér er ánægja af lestri vel yfir meðallagi sem og áhugi á stærðfræði og náttúruvísindum. Hvergi er meiri þátttaka nemenda í íþróttastarfi en hér, nemendur sýna mikla þrautseigju í námi og hafa trú á eigin vinnubrögð í náminu. Það segir sig því sjálft að nemendur Salaskóla hafa mun meira sjálfsálit en almennt gerist. Þá líður nemendum mjög vel og einelti er mun minna en í flestum samanburðarskólunum. Samband nemenda við kennara er meira en almennt gerist og sama er að segja um aga í tímum.

Þetta eru sannarlega góðar niðurstöður og góð hvatning fyrir samfélagið hér í Salaskóla.

Skíðaferð unglingadeildar

12. apríl ætlum við að fara í skíðaferð í Bláfjöll með unglingadeild skólans. Lagt verður af stað frá skólanum kl. 9:00 og nemendur eiga því ekki að mæta fyrr en þá. Lagt af stað úr Bláfjöllum kl. 14:00. Við sjáum um samloku í hádeginu en annað nesti og alla drykki þurfa nemendur að koma með. Athugið, alla drykki, líka með samlokunni í hádeginu. Allir verða að koma vel klæddir og með nóg af hlýjum aukafötum.  Ekki gleyma húfum, vettlingum og ullarsokkum.

Skólinn borgar rútukostnað en nemendur greiða sjálfir lyftukort og fyrir leigu á skíðabúnaði, ef um slíkt er að ræða. Verð fyrir daginn er 1700 kr. fyrir skíða-  eða brettapakka. Lyftukortið er á 500 kr.

Við verðum með margreynda úrvals skíðakennara með okkur sem kennir bæði byrjendum og lengra komnum.  

Biðjum ykkur um að kíkja á heimasíðuna kl. 8 að morgni 12. apríl og sjá hvort ekki verði örugglega farið.

Páskabingó foreldrafélagsins

Fimmtudaginn 22. mars n.k. verður haldið hið geysivinsæla páskabingó.
Tímasetningar eru sem hér segir: 
Yngri bekkir  (1. – 5. bekkir):  17:00 – 19:00
Eldri bekkir (6. – 10. bekkir): 20:00 – 22:00
Öll fjölskyldan að sjálfsögðu velkomin með börnunum.
Bingóspjaldið er á 300 kr. ATH: það er ekki posi á svæðinu og því mikilvægt að vera með peninga.
Stórglæsilegir vinningar, meðal gefanda eru: Stöð2 sport, Reynir Bakari, Sala-Grill, Sena, Rafha, Dominos, LaserTag, Modus og margir margir fleirri.  Já og auðvitað alveg heill hellingur af páskaeggjum 🙂
Hægt að skoða frekari kynningu á þessum hlekk –>  http://youtu.be/X2x-V-SJL38
Sjáumst á fimmtudaginn !!!!

Innritun 6 ára barna og þeirra sem skipta um skóla

Inn­ritun 6 ára barna (fædd 2006) fer fram í Salaskóla mánudaginn 5. og þriðjudaginn 6. mars. Innritað er á skrifstofu skólans frá kl. 9:00 – 14:00. Við viljum helst að foreldrar komi í skólann með börn sín til að innrita. Vorskóli fyrir börnin verður í byrjun maí.

Sömu daga fer fram inn­ritun nemenda sem flytjast milli skóla­hverfa og þeirra sem flytja í Kópa­vog eða koma úr einka­skólum. Haustið 2012 munu skólar hefjast með skólasetningardegi mánudaginn 22. ágúst. Sérstök athygli er vakin á því að um­sóknar­frestur um heimild til að stunda nám í einka­skólum eða grunn­skólum annarra sveit­ar­f­é­l­aga er til 1. apríl og skulu umsóknir berast grunnskóladeild menntasviðs rafrænt á eyðublaði sem er á heimasíðunni www.kopavogur.is. Sækja þarf um að nýju fyrir nemendur, sem nú eru í slíkum skólum, ef gert er ráð fyrir að þeir verði þar næsta vetur.