Innritun nemenda sem eiga að byrja í Salaskóla í haust verður mánudaginn 4. mars og þriðjudaginn 5. mars. Skemmtilegast er að koma í skólann til innritunar en einnig er hægt að hringja á skrifstofuna. Athugið að her er bæði átt við innritun nemenda sem eru að byrja í 1. bekk og nemendur sem eru að flytja sig á milli skóla. Innritunin er frá kl. 9:00 – 15:00
Author Archives: Ásgerður Helga Guðmundsdóttir
Öskudagur í Salaskóla
Á öskudag verður öskudagsgleði í Salaskóla. Skóladagurinn verður svolítið óvenjulegur og alveg örugglega einstaklega skemmtilegur. Nemendur mæta í búningum, taka þátt í alls konar sprelli og foreldrafélagið gefur öllum nammipoka. Allir fá svo pylsur í matinn líka þeir sem ekki eru í mat að öllu jöfnu.
Skólinn opnar á venjulegum tíma en við gefum krökkunum svigrúm að mæta til kl. 9:00. Það gerum við til þess að þeir fái meiri tíma til að klæða sig ef þess þarf.
Skóladagurinn verður styttri en venjulega og allt er búið kl. 12:00. Dægradvölin verður þá opin eins og venjulega til kl. 17:00. Að gefnu tilefni skal tekið fram að allir eiga að mæta þennan dag. Í fyrra báðu foreldrar 5 eða 6 barna um leyfi.
Tónlistarkennara vantar við Salaskóla
Vegna forfalla vantar tónlistarkennara við Salaskóla frá 14. janúar og út skólaárið. Um er að ræða 70-100% starf. Auk tónlistarkennslu þarf viðkomandi að geta stjórnað kór skólans. Umsóknarfrestur er til 4. janúar. Upplýsingar um starfið gefur Hafsteinn Karlsson, skólastjóri í síma 8211630. Aðeins er hægt að sækja um starfið rafrænt á www.kopavogur.is.
Aðventuganga og jólabingó 6. desember
Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður nk. fimmtudag, 6. desember. Hún hefst í Salaskóla kl. 16:30 og þar tekur Skólahljómsveit Kópavogs á móti öllum með jólalögum. Lagt verður af stað frá Salaskóla kl. 1700 og gengið að Lindakirkju þar sem skólakórinn syngur. Síðan verður gengið aftur í skólann þar sem bíður okkar rjúkandi súkkulaði og gómsætar jólasmákökur.
Kl. 19:30 sama dag er svo jólabingó á vegum 9. bekkjar en það er liður í fjáröflun fyrir ferð í skólabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Ótrúlegir vinningar í boði. Krakkarnir ætla líka að vera með smá kaffisölu ásamt smá fjáröflunarbás þar sem nokkrar vörutegundir verða til sölu (t.d. mandarínukassar, lakkrís, útikerti, jólapappír og kannski eitthvað fleira). Það verður bæði hægt að borga með peningum eða kortum (posi á staðnum). Það er engin skylda að kaupa eitthvað en auðvitað verða krakkarnir ótrúlega glöð ef þið sjáið ykkur fær um að styrkja þau á einhvern hátt 🙂
Vond veðurspá 12. nóvember
Það er spáð vitlausu veðri í fyrramálið og líklega verður veðrið kolvitlaust í Salahverfi um það leyti sem börnin eiga að mæta í skólann. Við biðjum ykkur um að kynna ykkur tilmæli til foreldra og forráðamanna frá stjórn slökkviliðsins og sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu í slíkum tilfellum, en þau er að finna á þessari slóð:
Röskun á skólastarfi vegna óveðurs
Við munum opna Salaskóla á venjulegum tíma, en ef aftakaveður verður er mögulegt að einhver röskun verði á skólastarfi fyrst í fyrramálið. Vekjum athygli á að ábyrgðin hvílir á foreldrum í þessum efnum, eins og kemur fram í tilmælum sem bent er á hér að framan.
Niðurstöður í samræmdum prófum í 4. og 7. bekk
Nemendur hafa nú fengið niðurstöður samræmdu prófanna í 4. og 7. bekk í hendur. Niðurstöður Salaskóla í 7. bekk voru ákaflega ánægjulegar og nemendur hafa tekið mjög miklum framförum almennt frá því í 4. bekk. Sérstaklega var útkoman í stærðfræði góð en þar er meðaltal skólans 8,0 sem er langt yfir landsmeðaltali en það var 6,9. Í íslensku var meðaltal skólans 6,7, örlítið yfir landsmeðaltali sem var 6,6.
Í 4. bekk var meðaltal skólans 6 í íslensku, rétt undir landsmeðaltalinu sem var 6,1. Útkoman í stærðfræði var heldur lakari en þar var meðaltal skólans 6,1 en landsmeðaltali 6,9.
Við erum nú að rýna í niðurstöður og munum grípa til aðgerða þar sem þess er þörf hjá einstökum nemendum. Við erum einnig að vinna í því að styrkja verulega stærðfræðikennslu í 4. bekk og væntum þess að það skili góðum árangri.
Skemmtilegur aðalfundur foreldrafélagsins
Foreldrafélagið hélt aðalfund sinn fimmtudagskvöldið 18. október. Á fundinum var stjórnakjör og nú eru í stjórn félagsins þau Kristinn Ingvarsson, Bjarni Ellertsson, Helgi Mar Bjarnason, Rósa Lárusdóttir og Sandra Ösp Gylfadóttir. Varamenn eru Hjörtur Gunnlaugsson og Helga Jónsdóttir. Helga og Bryndís Baldvinsdóttir eru fulltrúar foreldra í skólaráði Salaskóla.
Að loknum venjulegum aðalfundastörfum mætti Ebba Guðný Guðmundsdóttir matarbloggari á fundinn og hélt stórskemmtilegan fyrirlestur um mataræði barna, unglinga og fullorðinna. Fundarmenn sem voru því miður ekki fleiri en 27 höfðu af þessu mikið gagn og gaman og eflaust búnir að taka svolítið til í eigin mataræði í kjölfarið.
Niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk
Í morgun fengu nemendur 10. bekkjar afhentar einkunnir úr samræmdu prófunum sem þeir þreyttu í september. Nemendur Salaskóla stóðu sig afar vel og voru langt yfir landsmeðaltali í íslensku og stærðfræði, en rétt undir því í ensku.
Í stærðfræði er meðaltalið í Salaskóla 7,45 en landsmeðaltali er 6,5 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,7. Í íslensku er meðaltalið í Salaskóla 6,95 en landsmeðaltalið er 6,4 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,5.
Í ensku er meðaltalið í Salaskóla 6,52 en landsmeðaltalið er 6,6 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,8.
Framfarir nemenda Salaskóla frá samræmdu prófunum í 7. bekk eru að meðaltali meiri en almennt gerist.
Þessi próf eru könnunarpróf og hugsuð til að sjá stöðu nemenda í upphafi 10. bekkjar. Við munum nú leggjast yfir niðurstöðurnar og skoða hvar þarf að grípa inn í með einhverjum hætti.