Tilnefningar til foreldraverðlauna

Auðbjörg Sigurðardóttir, forstöðukona dægradvalarinnar, fékk í síðustu viku tilnefningu sem dugnaðarforkur ársins hjá samtökunum Heimili og skóli. Hún á sannarlega innistæðu fyrir því. Hún hefur verið einstaklega hugmyndarík og dugleg við að þróa starfið í dægradvölinni og gera það bæði skemmtilegra og betra fyrir krakkana. Til hamingju Auðbjörg. 

Salaskóli fékk svo tilnefningu til foreldraverðlauna samtakanna fyrir morgunkaffið sem stjórnendur bjóða foreldrum í á hverju hausti. Það byrjaði árið 2005 og hefur verið fastur liður síðan, með einni undantekningu.

 

 

Kosningaverkefni í 10. bekk – X Fantasí bar sigur úr býtum

Eitt verkefni í samfélagsfræði í 10. bekk gengur út á að nemendur skipta sér í hópa og mynda stjórnmálaflokka. Þeir eiga að bjóiða fram og áherslan er á hvernig er hægt að gera skólann að betri stað. Þeir búa til stefnuskrá, kosningamál og auglýsa sína stefnu með ýmsum hætti í skólanum. Svo er framboðsfundur þar sem mættir eru allir nemendur í 7. – 10. bekk og hlusta á málflutning þeirra. Síðan fara fram kosningar. Að þessu sinni vann framboðið X – Fantasí. Fulltrúum þeirra verður boðið á næsta skólaráðsfund þar sem þeir greina frá málefnaskrá sinni. Myndir frá kosningafundinum má sjá hér

9. bekkur kynnti þróunarmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun

Sl. fimmtudag kynntu nemendur í 9. bekk Salaskóla hvernig þau sjá ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á kynningunni var utanríkisráðherra, foreldrar og nemendur 8. og 9. bekkja. Friðrik Dór var kynnir. 

Þetta var afar áhugaverð og fjölbreytt kynning og ýmsar góðar hugmyndir settar fram. Í framhaldi af þessu mun Salaskóli leggja meiri áherslu á vinnu sem tengist Sameinuðu þjóðunum og sjálfbærri þróun. Flottir krakkar sem eru klár á því hvernig þau vilja sjá heiminn okkar eftir 15 ár. ‪#‎okkarheimur2015‬. Myndir frá kynningunni má sjá á facebooksíðu Salaskóla

 

Þemadagar næstu þrjá daga

Salaskóli verður með sérstaka dagskrá 6. – 8. maí í tilefni afmælis bæjarins. Krakkarnir kynnast bænum sínum með því að ferðast um bæinn gangandi eða í strætó og skoða ýmsa staði, kynna sér söguna, náttúruna, menninguna og mannlífið. Einnig vinna þau verkefni um bæinn, fara í ratleiki og aðra skemmtilega leiki, syngja Kópavogslög og taka myndir og teikna myndir. Föstudaginn 8. maí verður grillveisla á skólalóðinni. 
Við skiptum krökkunum í 12-14 manna hópa og í hverjum hópi eru nemendur á öllum aldri, eins og á fjölgreindaleikunum. Elstu nemendur eru hópstjórar. Þessa daga hefst skólastarf kl. 830 og lýkur kl. 1315. Skólinn opnar að sjálfsögðu á sama tíma og venjulega. Ekki er val eða sundkennsla þessa daga. Til að einfalda málin eiga allir að koma með nesti fyrir kaffið þessa daga, þe. samloku/ávöxt og vatn eða djús til að drekka. Fínt að hafa það í litlum íþróttapoka því þau eru að þvælast út um allt. Athugið að nestið verður að vera hnetulaust!

Skóladagatal 2015-2016

Skóladagatalið fyrir næsta skólaár var samþykkt í skólanefnd í gær. Það er nú komið á heimasíðuna undir línknum „Skólinn“. Skipulagsdagar eru samræmdir hjá leik- og grunnskólum í Sala-, Linda- og Smárahverfi. 

Kópurinn – viðurkenningar skólanefndar Kópavogs

Skólanefnd Kópavogs auglýsir hér með eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs.

Viðurkenningar verða veittar fyrir 3 – 5 verkefni sem stuðla að nýbreytni og framþróun innan skólanna. Með því er átt við nýjungar í skólastarfi eða þróunarverkefni sem fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skólastarfi.

Skriflegar tilnefningar skulu berast rafrænt á sérstöku eyðublaði til grunnskóladeildar Kópavogs til  ragnheidur@kopavogur.is eigi síðar en 4. maí 2015.

Einnig er hægt að tilnefna á vef bæjarins  http://www.kopavogur.is/

Umbótaáætlun vegna ytra mats

Haustið 2014 gerðu starfsmenn Námsmatsstofnunar úttekt á starfsemi Salaskóla. Þeir þættir sem voru skoðaðir voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og nám nemenda með sérþarfir. Niðurstöður úttektarinnar eru settar fram í skýrslu sem var birt í febrúar 2015 en kynntar starfsfólki í byrjun janúar. Þar eru dregnir fram styrkleikar í starfi skólans og sett fram tækifæri til umbóta.

Matshópur skólans var skipaður upp á nýtt í byrjun janúar og tók þegar til við að vinna að umbótaáætlun út frá þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni. Í hópnum eiga sæti Agnes Þorleifsdóttir, kennari, Berglind Hansen, fulltrúi foreldra, Hafsteinn Karlsson, skólastjóri, Hulda Björnsdóttir, deildarstjóri, Jóhanna Björk Daðadóttir, kennari, Jóhanna Pálsdóttir, kennari, Kjartan Ólafur Gunnarsson, nemandi, Magnús Halldórsson, húsvörður, Margrét Sveinsdóttir, sérkennari, María Helga Gunnarsdóttir, kennari og Matthildur Einarsdóttir, nemandi. Hópurinn fór skipulega í skýrsluna og rýndi sérstaklega í þær ábendingar sem þar koma fram. Hann lauk vinnu við skýrsluna í byrjun mars og á starfsmannafundi 13. mars voru niðurstöður hópsins kynntar og unnið áfram með ákveðna þætti á þeim fundi með svokölluðu kaffihúsafyrirkomulagi.

Umbótaáætlunin  sem er nú komin á heimasíðu skólans, er sett upp í töfluformi ásamt tímaramma og ábyrgðaraðilum. Einhver atriði eru tvítekin í úttektarskýrslunni þar sem þau koma fram undir mismunandi matsþáttum. Í umbótaáætluninni er sérhver tillaga til úrbóta úr skýrslunni tekin fyrir í sömu röð og þær eru í skýrslunni. Í einhverjum tilfellum er búið að framkvæma það sem bent er á. Það kemur þá fram í áætluninni. Salaskóli þakkar gott samstarf við þá sem stóðu að og framkvæmdu úttektina. Úttektin er afar gagnleg fyrir skólastarfið og þróun þess.

Páskabíngó foreldrafélagsins

Hið geysivinsæla páskabingó foreldrafélagsins verður n.k. þriðjudag, 24. mars, og sem fyrr munum við tvískipta því svona:

1. – 5. bekkur verður frá 17:00 – 19:00
6. – 10. bekkur verður frá 20.00 – 22.00

5. bekkur getur þó valið hvort þau vilja mæta með yngri eða eldri hópnum.

Muna að taka reiðufé með ykkur þar sem engir posar eru á svæðinu.  Spjaldið kostar 500 kr og síðan verður 10. bekkur með veitingasölu í fjáröflun. Í boði verður samlokur, kökur, drykkir og fleira, þau eru heldur ekki með posa,

Ef einhver hefur tök á að útvega vinninga í bingóið þá má hinn sami hafa samband við einhvern úr stjórn foreldrafélagsins :), sjá hér http://salaskoli.is/index.php?option=com_content&view=article&id=300&Itemid=194

Sjáið einnig nánar um viðburðinn á facebook – síðu foreldrafélagsins  https://www.facebook.com/events/580189758751379/