Erlendir gestir

Þessa viku hafa þau Marcus frá Svíþjóð og Renata frá Portúgal verið hjá okkur í Salaskóla að kynna sér skólastarfið. Þau starfa við skólastjórnun í sínum skólum. Þau hafa fylgst með kennslu og skólastarfinu almennt lært ýmislegt sem þau ætla að taka með sér heim, en einnig hafa þau miðlað mörgu góðu til okkar. Það er gott að fá gesti og sannast þá hið fornkveðna að „glöggt er gests augað.“

Upplestrarkeppnin í 7. bekk

Í morgun var síðasti liðurinn í upplestrarkeppninni í 7. bekk haldinn hjá okkur í Salaskóla. 12 keppendur lásu upp fyrir fullum sal af fólki og satt best að segja stóðu þeir sig ótrúlega vel. Mættu vel undirbúnir og virkilega skemmtu salnum með vönduðum upplestri. Sumir þeirra bættu jafnvel um betur og fluttu frumsamin ljóð sem vöktu mikla hrifningu viðstaddra. Kæmi ekki á óvart að einhverjir þeirra eigi eftir að gera garðinn frægan sem ljóðskáld þegar fram líða stundir.

En dómnefnd varð að velja tvo nemendur og einn til vara sem munu keppa fyrir skólans hönd í Salnum í Kópavogi í upplestrarkeppni grunnskólanna í bænum þann 7. mars nk. Þeir sem völdust til þess voru: Guðjón Daníel og Matthildur og svo Díana Ósk til vara.

Morgunfundir stjórnenda

Vegna veikinda varð talsverð röskun  á áætlun skólans um morgunfundi skólastjórnenda með foreldrum. Fundum með 10. bekk, 7. bekk, 6. bekk og 5. bekk þurfti að fresta og eru verið að finna nýja tíma fyrir þá.

En við höldum áætlun að öðru leyti og föstudaginn 15. febrúar verður fundur með foreldrum 3. bekkinga, 19. febrúar eru foreldrar 1. og 2. bekkinga og 20. febrúar foreldrar 4. bekkinga. Fundirnir byrja kl. 810 – 900.

Salaskóli Íslandsmeistari í skák í stúlknaflokki 3.-5. bekkja!

Skákmótið fór fram í Rimaskóla um helgina og fóru tvö stúlknalið á mótið í þessum aldursflokki frá Salaskóla. Alls tóku 8 lið þátt í þessum flokki og tefldu þau öll innbyrðis. Svo fór að A-lið Salaskóla fékk 25 vinninga af 28 mögulegum og var einum vinningi á undan Rimaskóla. Glæsilegur árangur! B-liðið stóð sig líka vel, en þar voru mest yngri stúlkur og reynsluminni, en þær urðu í 6. sæti. Skákstelpurnar í Salaskóla eru bestar! Gaman var að Jóhanna Björg fyrrverandi skákstjarna skólans var meðal skákstjóra á mótinu!
A-liðið var þannig skipað: Katrín María Jónsdóttir, Arey Amalía Sigþórsdóttir, Sesselja Kjartansdóttir, Halla Marín Sigurjónsdóttir (allar í 5. b.) og Berglind Edda Birkisdóttir (4.b.).
B-liðið: Elín Lára Jónsdóttir (3.b), Rakel María Pálsdóttir (5.b.), Rakel Lára Rúnarsdóttir og Katrín Þóra Sveinsdóttir (báðar í 3.b.).

Vetrarleyfi næsta skólaár

Í gær samþykkti menntaráð Kópavogs eftirfarandi vetrarleyfisdaga á næsta skólaári:

21. og 22. október

5. og 6. mars

Allir grunnskólar Kópavogs könnuðu afstöðu foreldra til þess hvort foreldrar vildu heldur tvo daga á hvorri önn eða fjóra daga einu sinni á vetri. Niðurstaðan var alls staðar svipuð, rúmlega 50% vildu tvo daga á hvorri önn eins og verið hefur.

Frítt forritunarnámskeið

Laugardaginn 16. febrúar

kl.10:00 – 15:00

  • Opið öllum grunnskólanemendum í 8. – 10. bekk
  • Fyrir þá sem vilja kynnast forritun
  • Góður undirbúningur fyrir forritunarkeppni grunnskólanna
  • Fríar pizzur í hádeginu

Hvað mun ég læra?

  • Grunnatriði forritunar með Python
  • Kóðað í textaham

Hverjir kenna?

  • Nemendur á tölvubraut Tækniskólans
  • Kennarar á tölvubraut Tækniskólans

Skráning á Kóðun

Morgunfundir stjórnenda með foreldrum

Stjórnendur Salaskóla boða foreldra í hverjum árgangi til morgunfunda á næstu vikum. Á fundunum verður rætt um skólastarfið almennt og foreldar koma góðum hugmyndum sínum á framfæri. Fundirnir verða sem hér segir að öllu óbreyttu:

5. febrúar – 9. bekkur

6. febrúar – 8. bekkur

7. febrúar – 10. bekkur

8. febrúar – 7. bekkur

12. febrúar – 6. bekkur

13. febrúar – 5. bekkur

15. febrúar – 3. bekkur

19. febrúar – 1. og 2. bekkur

20. febrúar – 4. bekkur

Fundirnir hefjast kl. 8:10 og standa til kl. 900. Við leggjum mikla áherslu á að allir mæti og taki þátt í mikilvægri umræðu um skólastarf barnanna sinna.

Gleðileg jól

Starfsfólk Salaskóla óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Jólaleyfi í Salaskóla er frá 20. desember. Skólahald hefst skv. stundaskrá 4. janúar 2019.

Nokkrar mikilvægar upplýsingar frá okkur í Salaskóla.

Á morgun, miðvikudaginn 19. desember er árlegt körfuboltamót unglingadeildar og kennara. Öll íþróttakennsla niður í 1. – 7. bekk. Jólaball unglingadeildar er um kvöldið. Það er skyldumæting á það og að því loknu eru nemendur í 8. – 10. bekk komnir í jólafrí. Þeir eiga ekki að mæta á fimmtudag.

Á fimmtudag, 20. desember, eru jólaböll fyrir 1. – 7. bekk. Nemendur mæta til kennara sinna, 10 mínútum fyrir jólaballstímann, og fara þaðan fylktu liði í salinn þar sem dansað er kringum jólatréð. Hljómsveit skipuð nemendum úr 10. bekk leikur fyrir jóladansi. Nemendur eiga að mæta sem hér segir:

Kl. 9:00 – 1. bekkur hrossagaukar, 2. bekkur maríuerlur, 3. bekkur glókollar, 4. bekkur branduglur, 6. bekkur himbrimar (kennari Margrét) , 7. bekkur heiðagæsir

Kl. 10:00 – 1. bekkur lóur, 2. bekkur sólskríkjur, 3. bekkur músarrindlar, 4. bekkur snæuglur, 5. bekkur lundar, 6. bekkur lómar (kennari Ingibjörg), 7. bekkur margæsir

Kl. 11:00 – 1. bekkur spóar, 2. bekkur steindeplar, 3. bekkur þrestir, 4. bekkur eyruglur, 5. bekkur teistur, 6. bekkur súlur (kennari Sara Dögg), 7. bekkur snjógæsir

Nú kann að vera að einhverjir foreldrar viti ekki í hvaða hópi börn þeirra eru þá eru tvær leiðir til að komast að því. Í fyrsta lagi að spyrja barnið, því það veit mjög líklega hvað hópurinn sem það er í heitir. Í öðru lagi að senda fyrirspurn í tölvupósti á kennara.

Jólafrí hefst að loknu jólaballi og skóli hefst að nýju skv. stundaskrá 4. janúar 2019.