arnaldur

Allir glaðir á fjölgreindaleikum

arnaldur
Seinni dagur fjölgreindaleikanna 
var í dag. Krakkarnir kepptust við að leysa hinar ýmsu þrautir sem fyrir þá voru lagðar og gaman var að sjá hversu samvinnan var góð. Þegar krakkarnir voru spurðir hver væri skemmtilegasta stöðin á leikunum fannst þeim erfitt að komast að ákveðinni niðurstöðu. Sumir byrjuðu kannski á að segja dansinn, en bættu þá við að smíðin væri líka skemmtileg, og… bandýið og … fuglastöðin og ..kapplakubbarnir – og þannig var haldið áfram að telja upp. Sumir höfðu þó vaðið fyrir neðan sig og svöruðu að ALLT á fjölgreindaleikunum væri skemmtilegt. Einfalt og gott svar. Það er mál manna að aldrei hafi tekist eins vel til með leikana og núna. Krakkarnir voru einstaklega duglegir og vinnusamir, hópmeðlimir unnu mjög vel saman, vel gekk að fara á milli stöðva og fyrirliðarnir voru til fyrirmyndar.

Það er greinilegt að þrautalausnir krefjast orku því krakkarnir tóku vel til matar síns í hádeginu og gerðu pylsunum góð skil. Síðan var boðið upp á ís í eftirrétt til hátíðabrigða. Bros lék um varir nemenda þegar þau skunduðu heim úr skólanum í dag. Á morgun, föstudaginn 4. okt., er samstarfsdagur kennara í Kópavogi og því frí í skólanum. Krakkarnir eiga að mæta aftur í skólann á mánudaginn skv. stundaskrá.

Lesið meira um fjölgreindaleikana.         

Myndir frá seinni degi fjölgreindaleika.

 

Birt í flokknum Fréttir og merkt .