Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti um mánaðarmótin af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.
Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!
Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum sem nú eru uppi, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.
Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu munum við freista þess að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.
Umgjörð og útlit verkefnisins tekur mið af markmiðinu, þar sem ætlunin er að virkja keppnisskap þjóðarinnar. Merki verkefnisins svipar til merkja íþróttafélaga, keppnistreyjur verða veittar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins og leitað verður samstarfs víða til að virkja sem flesta. Ef vel tekst til, gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim.
https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=d7c41c37-73e6-11ea-9464-005056bc4d74