Nú hefur verið slakað á samkomubanninu og það gerir okkur mögulegt að bjóða foreldrum 10. bekkinga að taka þátt í útskriftinni með okkur. Við höfum því ákveðið að útskriftin verði mánudaginn 8. júní í hádeginu kl. 12:30 – 13:30 hér í skólanum. Hverjum nemanda geta fylgt tveir fullorðnir en því miður getum við ekki boðið systkinum að vera með eins og stundum hefur verið. Þetta er fjölmennur árgangur og plássið af skornum skammti. Við munum raða stólum þétt í salinn og þeir sem vilja meira rými geta valið um það.
Á útskriftinni verða stutt ávörp nemenda og kennara, einhverjir nemendur verða með atriði og svo verða útskriftarskírteini afhent. Að lokinni athöfn geta gestir gripið kaffibolla og fengið skammtaðan kökubita sem skólinn býður upp á. Ágætt að staldra aðeins við og spjalla smá stund áður en haldið er út í sumarið. Gerum ráð fyrir að öllu verið lokið kl. 14:00.
Foreldrar eiga ekki að koma með veitingar eins og venjan er á útskriftum hjá okkur. Við viljum gjarnan að nemendur komi í betri fötum á þessa mikilvægu athöfn.
Síðasti skóladagur 10. bekkinga er miðvikudagurinn 3. júní. Daginn eftir halda þeir á vit ævintýra í einnar nætur útskriftarferð sem að sjálfsögðu er óvissuferð og enginn veit hvert farið verður.