Upplestrarkeppni

Í morgun, föstudaginn 4. mars, var hin árvissa upplestrarkeppni í 7. bekk. Sjöundubekkingar hafa verið að æfa sig að undanförnu fyrir keppnina og nú var komið að því að velja fulltrúa til þess að fara á Stóru upplestrarkeppnina sem verður haldin í vor eins og venjulega. Í salnum var hátíðleg stund þar sem nokkrir vaskir lesarar kepptu sín á milli um hvaða tveir yrðu valdir til að fara áfram í aðalkeppnina. Einnig var fjögurra manna nefnd tilbúin til að hlusta á upplesturinn og meta hann út frá ákveðnum forsendum. Keppninni lauk þannig að Katrín Kristinsdóttir og Guðný Ósk Jónasdóttir voru valdar til að keppa fyrir hönd Salaskóla.  Myndir

samkop.jpg

SAMKÓP býður foreldrum á fund

Fimmtudaginn 11. mars  býður SAMKÓP foreldrum barna í Kópavogi upp á fyrirlestur með Eddu Björgvinsdóttur. Fyrirlesturinn ber heitið Húmor og gleði í lífinu- dauðans alvara
  
"Húmor í lífinu er á allan hátt uppbyggilegur og nærandi. Húmor er heilsubót og með húmor er hægt að auðvelda hvers kyns mannleg samskipti, leysa  hin fjölbreyttustu vandamál og minnka streitu.“ – Edda Björgvinsdóttir.
  
Fyrirlesturinn verður haldinn í Hörðuvallaskóla fimmtudaginn 11.mars kl. 20:00.

samkop.jpg

Aðalfundur SAMKÓP

 

Samtök foreldrafélaga við grunnskóla Kópavogs

Aðalfundur SAMKÓP verður haldinn fimmtudaginn 4. júní 2009 í Salaskóla og hefst kl. 20:00.  Stefnt er að því að fundur ljúki um kl 21:30


Dagskrá:

  • 1. Fundur settur
  • 2. Skýrsla stjórnar
  • 3. Umræður um skýrslu stjórnar
  • 4. Ársreikningur kynntur og lagður fram til samþykktar
  • 5. Kosningar (aðalmenn, varamenn, skoðunarmenn reikninga og fulltrúi foreldra í skólanefnd)
  • 6. Önnur mál
  • 7. Fundi slitið

Allir foreldrar grunnskólabarna í Kópavogi eiga rétt á setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti og geta boðið sig fram til stjórnarkjörs.  Samkóp óskar eftir áhugasömum foreldrum til þess að bjóða sig fram til stjórnarsetu, til þess að styrkja starfið enn frekar!

Fræðslufyrirlestur:  "Hvert stefna menntamál í Kópavogi á komandi árum?"

Að loknum aðalfundi og kaffiveitingum –  kl. 20:30 mun fulltrúi frá skólanefnd Kópavogsbæjar  flytja áhugaverðan fyrirlestur sem enginn ætti að láta framhjá sér fara þar sem farið verður yfir það hvernig Kópavogsbær sér þróun menntamála á komandi árum, í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna.

 

Fundurinn er opinn ÖLLUM foreldrum grunnskólabarna í Kópavogi.  Mikilvægt er að hvert foreldrafélag við grunnskóla Kópavogs eigi a.m.k. einn fulltrúa á aðalfundinum.

Kópavogur, 28. maí 2009

Stjórn SAMKÓP

samsngur_okt._007.jpg

Vel heppnuð móðurmálsvika

samsngur_okt._007.jpgÍ þessari viku hefur markvisst verið unnið með móðurmálið á öllum stigum í svokallaðri móðurmálsviku. Ljóð hafa verið kyrjuð, upplestur æfður og mikil ritun í gangi svo eitthvað sé nefnt. Margir bekkir fóru á sal til að syngja ýmsar vísur og ljóð með aðstoð tónmenntakennara og ungra hljóðfæraleikara sem allt voru nemendur í skólanum. Nemendur tróðu einnig upp á sal með eigin leikþætti og frumsamin ljóð sem bar vott um frjótt ímyndunarafl þeirra.

Drengjum og stúlkum kennt á ólíkan hátt!

Almennur fyrirlestur fyrir foreldra og annað áhugafólk um skólamál 

Fimmtudaginn 21. ágúst kl. 19:30 mun Kelley King halda almennan fyrirlestur í hátíðarsal Breiðholtsskóla.  Fyrirlesturinn verður á ensku.

Kelley fjallar um mun á strákum og stelpum og hvernig hægt er að koma til móts við kynjamun í uppeldi og kennslu.

Foreldrar og annað áhugafólk er hvatt til að mæta.

Þessa dagan stendur Breiðholtsskóli fyrir námskeiðum og fyrirlestri um ólíka nálgun við kennslu drengja og stúlkna. Hátt í 200 kennarar sækja námskeiðin en þau eru ætluð kennurum sem hug hafa á að ná betur til nemenda sinna og minnka um leið bilið á milli árangurs drengja og stúlkna í skólanum.

Mikill munur á árangri drengja og stúlkna

Í niðurstöðum samræmdra prófa hérlendis sem víða erlendis kemur fram mikill munur á árangri drengja og stúlkna.  Þessi munur virðist hafa farið vaxandi og er víða umræðuefni meðal áhugafólks um skólamál.  Rannsóknir sýna að drengir og stúlkur hafa ekki aðeins mismunandi hormónaframleiðslu heldur er einnig munur á hvernig heilinn starfar.  Kelley King fjallar um hvernig við nýtum okkur þessa þekkingu og kemur með raunhæfar leiðbeiningar til foreldra um hvernig við getum eflt getu bæði drengja og stúlkna til að ná betri árangri í námi.

Fyrirlesarinn Kelley King er bandarískur sérfræðingur á þessu sviði, og er hún ein af höfundum nýútkominna bóka um "Aðferðir til að kenna drengjum og stúlkum".  Kelley King er framkvæmdastjóri Gurian Institut Education Division. (www.gurianinstitude.com).  Hún hefur verið kennari og skólastjóri um 20 ára skeið og hlotið viðurkenningar fyrir störf sín og fjallað um þau, m.a. í Newsweek, Today Show, Educational Leadership og Radio Health Journal.

sumarlestur.jpg

Sumarlestur fyrir krakka í Salaskóla

sumarlestur.jpgBorist hefur bréf frá Bókasafni Kópavogs þar sem sagt er frá að safnið efni til sumarlesturs fyrir 6-12 ára börn í Kópavogi. Það er tímabilið frá júní til ágúst – eða á sama tíma og nemendur eru í sumarleyfi frá skólanum.

Tilgangur  námskeiðsins sumarlestur er að nemendur geti haldið áfram að þjálfa lesttrarfærni sína í sumar.  Öll börn geta fengið lánþegakort sem eru þeim að kostnaðarlausu. Aðeins þarf samþykki foreldris eða forráðamanns. Bæði Lindasafnið og Aðalsafnið bjóða upp á sumarlestur.

 

Nemendur skrá sig í sumarlesturinn á bókasafninu og um leið fá þeir tvíblöðung þar sem skráðar eru þær bækur sem þeir lesa. Þegar bókum er skilað í safnið aftur fá þeir stimpil við hvern titil og jafnframt er nafnið þeirra sett í pott. Á lokaháhátíð sem verður haldin í byrjun september verður dregið úr pottinum og nokkrir heppnir hljóta vinning. Allir eiga möguleika á vinningi, ekki bara þeir sem lesa mest. Krakkar, nú er bara að drífa sig á bókasafn og næla sér í bækur til að lesa.