Rithöfundurinn, Þorgrímur Þráinsson, heimsótti okkur í dag og átti erindi við nemendur í 5. – 7. bekk. Eftir lestrarkeppnina sem lauk um miðjan nóvember sýndu krakkarnir á miðstiginu áhuga á að fá Þorgrím í heimsókn. Þorgrímur tók vel í það, kom og las upp fyrir nemendur úr nýjustu bókinni sinni „Krakkinn sem hvarf“ og sagði frá helstu aðalpersónunum í bókinni. Í lokin spurðu nemendur Þorgrím spurninga af ýmsu tagi t.d. hvenær hann hafi skrifað fyrstu bókina sína, hvað hann væri lengi að skrifa eina bók, hvernig hugmyndirnar kæmu í kollinn á honum og fleira í þeim dúr. Nemendurnir okkar voru sannarlega góðir hlutstendur, kurteisir í alla staði og tóku afar vel á móti gestinum okkar. Takk fyrir heimsóknina, Þorgrímur Þráinsson!
Tag Archives: Lestur
Skemmtilegur nóvember að baki
Í Salaskóla er alltaf heilmikið um að vera og nóvember var sérlega viðburðarríkur mánuður er þetta varðar. Við fáum oft skemmtilegar heimsóknir og krakkarnir bjóða oft til sín gestum til að hlýða á tónlist, söng og atriði á sviði. Hver bekkur í skólanum skipuleggur eina sýningu að vetri þar sem allir nemendurnir taka þátt í sýningunni með einhverjum hætti. Svölurnar voru einmitt á dögunum með glæsilega sýningu fyrir foreldra og aðra bekki í skólanum. Þau sungu, lásu ljóð, fluttu tónlist og settu á svið þjóðsöguna Djáknann á Myrká í nútímalegum búningi með tilheyrandi leikhljóðum og tónlist. Flott vinna hjá krökkunum sem þau fengu mikið lof í lófa fyrir. Fleiri bekkir eru að undirbúa samsvarandi sýningu.
Hilmar Örn Óskarsson, ungur og upprennandi rithöfundur, kom við hjá okkur í síðastliðinni viku og las upp úr bók sinni „Kamilla vindmylla – og bullorðna fólkið“ fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þetta er fyrsta barnabók Hilmars og krakkarnir kunnu aldeilis vel að meta innihaldið og skemmtu sér hið besta. Í lokin spurðu þau Hilmar nokkurra spurninga t.d. hvernig hann fengi hugmyndir þegar hann væri að skrifa. Skemmtileg og gefandi heimsókn. Myndir.
Nemendur í 1. og 2. bekk buðu til sín foreldrum um miðjan nóvember til að hlýða á samsöng í salnum. En hún Heiða tónmenntakennari er dugleg að láta krakkana syngja saman – oft með tilheyrandi látbragði. Foreldrarnir flykktust í skólann til að hlusta á krakkana sína syngja og fengu meira að segja að taka undir sönginn á köflum.
Síðast en ekki síst var skemmtileg uppákoma á degi íslenkrar tungu, 16. nóvember, en þá kepptu teistur og mávar til úrslita í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Lestrarkeppnin er búin að vera í gangi síðan í haust á miðstiginu þar sem hver og einn hefur keppst við að lesa ákveðnar bækur sem gefnar voru upp fyrir keppnina. Bekkjarlið kepptu síðan sín á milli í október og nóvember sem endaði með að lið mávanna stóð uppi sem sigurvegari. Krakkar í öllu bekkjum á miðstigi lögðu á sig mikla vinnu við lesturinn og stóðu sig öll afar vel. Skemmtileg hvatning fyir krakka á miðstigi sem vonandi verður árlegur viðburður hjá okkur í Salaskóla. Hér má sjá myndir frá lestrarkeppninni.
Lestrarkeppnin í fullum gangi
Eins og fram kom í haust er lestrarkeppnin Lesum meira í gangi á miðstigi, 5. – 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur verði víðlesnari, auki orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. Í fyrstu var gefinn góður tími fyrir lestur áveðinna bóka á bókalista keppninnar og síðan var dregið um hvaða bekkir ættu að keppa saman. Í keppninni reynir jafnt á almenna þekkingu nemenda sem þekkingu á ýmsu í heimi bókmenntanna auk þess að kunna vel skil á ákveðnum sögum.
Nú þegar eru búnar þrjár keppnir og sú fjórða verður á morgun, miðvikudag, þegar svölur og súlur etja kappi saman. Liðin samanstanda af þremur nemendum en stuðningsliðið, sem er bekkurinn, skipar stórt hlutverk því eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að styðja vel við sitt lið, hvetja og fagna á réttum stöðum og sýna í alla staði háttprúða framkomu. Einnig má beina einni spurningu til bekkjarins ef liðið stendur á gati. Bekkirnir mæta prúðbúnir til leiks því hver bekkur skartar ákveðnum litum. Þetta eru miklar skrautsýningar bæði er varðar föt og andlitsmálningu. Ekki má gleyma hvatningaspjöldunum sem að sjálfsögðu eru líka í réttum litum. Sumir bekkir hafa jafnvel troðið upp með atriði til að styðja enn betur við liðið sitt. Á meðfylgjandi myndum sést annars vegar lið ritanna spreyta sig í síðustu viku á spurningum sem fyrir það voru lagt – hins vegar eru glæsileg stuðningslið teista og rita í salnum.
Skemmtilegur aðalfundur foreldrafélagsins
Foreldrafélagið hélt aðalfund sinn fimmtudagskvöldið 18. október. Á fundinum var stjórnakjör og nú eru í stjórn félagsins þau Kristinn Ingvarsson, Bjarni Ellertsson, Helgi Mar Bjarnason, Rósa Lárusdóttir og Sandra Ösp Gylfadóttir. Varamenn eru Hjörtur Gunnlaugsson og Helga Jónsdóttir. Helga og Bryndís Baldvinsdóttir eru fulltrúar foreldra í skólaráði Salaskóla.
Að loknum venjulegum aðalfundastörfum mætti Ebba Guðný Guðmundsdóttir matarbloggari á fundinn og hélt stórskemmtilegan fyrirlestur um mataræði barna, unglinga og fullorðinna. Fundarmenn sem voru því miður ekki fleiri en 27 höfðu af þessu mikið gagn og gaman og eflaust búnir að taka svolítið til í eigin mataræði í kjölfarið.
Aðalfundur Foreldrafélags Salaskóla 25. október
Foreldrafélag Salaskóla mun halda aðalfund sinn 25. október n.k. í Salaskóla. Fundurinn hefst klukkan 20.00
Stefnt er að hafa fundinn stuttan og hnitmiðaðan. Kaffi og kleinur á boðstólunum.
Efni fundar er:
Skýrsla stjórnar starfsárið 2011 – 2012
Ársreikningar lagðir fram til samþykktar
Lagabreytingar
Kosning í stjórn Foreldrafélagsins og Skólaráðs
Önnur mál
Gestafyrirlestur
Gestafyrirlesari að þessu sinni er Ebba Guðný Guðmundsdóttir sem hefur verið með innslög á MBL-Sjónvarp. Hún fjallar um mataræði fyrir skólabörn og alla í fjölskyldunni.
Lestrarkeppni á miðstigi
Í dag hófst formlegur undirbúningur fyrir lestrarkeppnina LESUM MEIRA sem nemendur á miðstigi taka þátt í síðar í vetur en þá munu bekkjardeildir miðstigs keppa sín á milli. Keppnin er samvinna skólasafns og kennara miðstigs en sex skólar í Kópavogi standa að slíkri keppni í ár innan síns skóla. Markmiðið með þessu er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist.
Krakkarnir hafa nú fengið inn í skólastofuna sína bókakassa með þeim bókum sem gefnar eru upp fyrir keppnina og eiga að lesa sem mest fram í aðra viku í október. Þá byrjar lestrarkeppni á milli bekkja þar sem tveir og tveir bekkir keppa sín á milli er endar með því að einn bekkur stendur uppi sem sigurvegari. Hver bekkur þarf að velja sér fimm manna lið (3 aðalmenn og 2 varamenn) en hinir í bekknum eru svokallaðir bakhjarlar sem hægt er að leita til í keppninni.
Fyrirkomulag keppninnar minnir á ÚTSVARIÐ á RÚV fyrir þá sem þekkja það en um er að ræða hraða-, vísbendinga-, ágiskunar- og valflokkaspurningar. Ekki er einungis spurt úr bókum á bókalista heldur er einnig gott að vera vel að sér í bókmenntaheiminum og hafa lesið í gegnum tíðina, vita um íslenska höfunda, bókatitla og fleira. Keppnin fer vel af stað því það var mikill hugur í mönnum við lesturinn í morgun. Vonandi halda krakkarnir áfram að vera svo áhugasamir og kappsfullir. Þeir sem eiga erfitt með lestur geta nýtt sér hljóðbækur. Hér er hægt að lesa nánar um keppnina og sjá bókalistann sem unnið er út frá.
Skólaárið 2012-2013
Skólaárið 2012-2013
Þjóðleg uppákoma hjá nemendum í 2. bekk
Nemendur í öðrum bekk buðu foreldrum sínum að koma í skólann í morgun til að sjá afrakstur vinnu undanfarinna vikna. Þau hafa verið að æfa upplestur og framsögn og fóru með kvæðið Saga af Suðurnesjum eftir Jóhannes úr Kötlum í sal skólans – en kvæðið þuldu þau upp reiprennandi hvert í kapp við annað. Á eftir var foreldrum boðið að koma á svæði fyrir framan kennslustofur nemenda þar sem búið var að stilla upp ýmsu sem tengdist þemanum Land og þjóð sem hefur verið í gangi í nokkurn tíma. Þar var fjallað um allt sem þjóðlegt er svo sem þjóðbúninginn, fánann og skjaldarmerkið, í máli sem myndum. Í tilefni dagsins höfðu umsjónarkennararnir þeirra klætt sig upp í þjóðbúning og einnig mátti sjá nokkra prúðbúna nemendur í sama stíl en allir nemendurnir klæddust lopapeysum í dag að góðum og þjóðlegum sið. Myndir.
Allir í skólanum hlustuðu
Allir nemendur Salaskóla lögðu við hlustir í morgun þegar ný íslensk smásaga var flutt á Rás 1. Alþjóðasamtökin IBBY (The International Board on Books for Young People) fagna degi barnabókarinnar í dag en markmið þeirra samtaka er að vekja athygli á sameiningarmættinum sem býr í barnabókmenntum. Í tilefni dagsins var ný saga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, barnabókahöfund, lesin upp í útvarpinu. Sagan á að höfða til allra aldurshópa en hún segir af systkinunum Hörpu og Val sem lenda í ýmsum ævintýrum á leiðinni í skólann. Eftir sögulesturinn spunnust góðar umræður í bekkjunum um efni sögunnar.