Á seinni degi fjölgreindaleika gekk allt eins og í sögu. Í íþróttahúsinu var húllað og hoppað af miklum móð, klifrað upp í rjáfur, boltar látnir skoppa og handleggir jafnvel lengdust um mun t.d. á „hanga á slá“ stöðinni. Sums staðar reyndi svo sannarlega á kunnáttu í landafræði og á einum stað var kannað hversu gott þreifiskynið væri hjá krökkunum. Í sjálfu skólahúsnæðinu var t.d. jóga iðkað, sögur skrifaðar, danssporin tekin, á einni stöðinni reyndi mjög á leikhæfileika að ógleymdri skákstöðinni. Á þeirri stöð tók skáksnillingurinn Birkir Karl á móti liðunum og skoraði á þau að tefla við sig. En ekki langt frá þeirri stöð vildi svo vel til að sat annar skáksnillingur, reyndar fv. heimsmeistari Anatolí Karpov, og tefldi við einn af nemendum skólans, Hilmi Frey. Karpov er hér á landi vegna 111 ára afmælis Taflfélags Reykjavíkur og heimsótti skólann okkar í leiðinni og tók nokkrar skákir. Ekki eru allir jafnheppnir og við að fá heimsmeistarann sjálfan í heimsókn.
Hér eru MYNDIR FRÁ FJÖLGREINDALEIKUM: Degi 2 og einnig frá heimsókn Karpovs.