Samrómur – sigrar Salaskóli?

Samrómur er heiti samvinnuverkefnis sem snýr að því að safna röddum Íslendinga til að búa til opið gagnasafn fyrir notkun á íslensku í upplýsingatækni. Verkefninu var hleypt af stokkunum þann 16. október síðastliðinn og til að byrja með snerist átakið um söfnun raddsýna frá fullorðnum einstaklingum.

Tilvera íslenskrar tungu stendur hins vegar og fellur með því að börn og unglingar noti tungumálið. Það þarf að tryggja að tæknin skilji einnig raddir barna og unglinga, sem nú tala við flest sín tæki á ensku, en raddir barna og unglinga eru afar frábrugðnar röddum fullorðinna. Því hefur verið sett af stað lestrarkeppni grunnskóla þar sem keppt er um fjölda setninga sem nemendur lesa inn og að sjálfsögðu ætlar Salaskóli að taka þátt.

Hér má sjá Guðna forseta segja frá keppninni og hvernig hægt er að taka þátt. Ævar vísindamaður er að sjálfsögðu vinur Samróms enda snýr Samrómur að tölvuvísindum. Hann hvetur hér alla grunnskólanemendur til dáða í lestrarkeppninni.

Takið þátt, ferlið er einfalt og mjög fljótlegt. 

  1. Farið inn á vefsíðu verkefnisins samromur.is.

  2. Smellið á “Tala”.

  3. Setjið inn aldur, kyn og veljið Salaskóla undir “Lestrarkeppni”.

  4. Ýtið á “Áfram”.

  5. Ýtið á míkrafóninn og lesið setninguna sem birtist á skjánum. Í upphafi fáið þið fimm setningar en hægt er að lesa aftur inn og þá er hægt að velja fjölda setninga.

Staða keppninnar er síðan birt jafnóðum á stigatöflu sem er aðgengileg inni á síðunni. Við hvetjum nemendur, foreldra, systkini og starfsmenn til þess að lesa inn fyrir Salaskóla og telst hver lesin setning vera stig fyrir skólann. Þetta getur nýst börnum sem góð æfing í lestri, sér í lagi þar sem hægt er að hlusta á sína eigin upptöku og meta hvort hún hafi verið rétt lesin. Guðni Th. Jóhannesson forseti mun veita sigurskólunum viðurkenningar en keppnin stendur til 10. maí.

Ljáðu íslenskri tungu rödd þína. Það er á okkar valdi að alltaf megi finna svar á íslensku.

Hvaða skóli les mest?Lestrarkeppni grunnskóla fer fram á Samrómur.is en þar er keppt um fjölda setninga sem nemendur, kennarar og foreldrar lesa inn. Hérna segir Guðni forseti frá keppninni og hvernig þú getur tekið þátt. #gerumeinsogguðni

Posted by Samrómur on Fimmtudagur, 16. apríl 2020

Guðni Th. forseti segir frá grunnskólakeppninni og hvernig hægt er að taka þátt. #gerumeinsogguðni

Birt í flokknum Fréttir.