Netöryggisfræðsla

Foreldrafélag Salaskóla, í samstarfi við Salaskóla, býður nemendum í 4.-10. bekk fræðsluerindi er snýr að þáttum er varða netöryggi, upplýsinga- og miðlalæsi. Auk þess verður foreldrum boðið fræðsluerindi um sama efni í sömu viku og fræðsla til nemenda fer fram á skólatíma.

8.-10. bekkur – ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl í salnum. 

Algóritminn sem elur mig upp: Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Farið yfir mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu mynda? Markmiðið með fræðslunni er að valdefla nemendur í taka stjórn á eigin skjánotkun og kenna þeim leiðir til að nýta tæknin á betri hátt. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla.
Foreldrafræðsla

Fræðsluerindi fyrir foreldra í salnum Salaskóla. ,,Algóritminn sem elur mig upp“. Mánudagur 29. apríl kl. 17:30-18:30.

Hvað segja rannsóknir okkur um stöðuna á miðlanotkun barna á Íslandi í dag? Farið yfr atriði í stafrænu umhverfi sem beri að varast auk þess að gefa góð ráð varðandi notkun barna á skjátækjum og samfélagsmiðlum. Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu nektarmynda? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Er upplýsingaóreiða og skautun vandamál í íslensku samfélagi? Hvað áhrif mun gervigreindin hafa á okkar stafrænu tilveru á næstu árum. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu.

Netumferðarskólinn 4.-7. bekkur. Mánudagur 29. apríl 4. bekkur í kennslustofu og þriðjudagur 30. apríl 5.-7. bekkur í salnum.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi ásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

Fyrirlesari er Skúli Bragi Geirdal – Verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd

Skúli Bragi Geirdal er fjölmiðlafræðingur að mennt og starfar sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Skúli stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Auk þess felst starf hans m.a. í stefnumótunarvinnu, alþjóðlegu samstarfi, fræðslustarfi og umsjón með rannsóknum nefndarinnar á miðlalæsi sem unnar eru í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Nefndinni er ætlað það lögbundna hlutverk að efla miðlalæsi almennings og miða því verkefni hans að því að ná til fólks á öllum aldri til að auka færni þess í að nota samfélagsmiðla og leitarvélar og vera gagnrýnið á það hvaðan upplýsingar koma. Skúli er þá einnig stundakennari í fjölmiðlafræðum við Háskólann á Akureyri.

Þættir sem fjallað er um (eftir aldri og þroska):
– Upplýsinga- og miðlalæsi. Hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur.
– Virkni algóritma og áhrif þeirra á notkun okkar á stafrænum tækjum.
– Gervigreind – Hvað er handan við hornið og hvað ber að hafa í huga?
– Stafrænt fótspor og söfnun persónuupplýsinga.
– Samfélagsmiðlar, skjárinn og líðan.
– Skjáþreyta – Hvernig síminn kallar á athygli okkar.
– Skjátími – Nýta tímann frekar en drepa hann.
– Samskipti á netinu, áreiti og áreitni.
– Skautun og upplýsingaóreiða í íslensku samfélagi.
– Fjölmiðlanotkun Íslendinga – hvernig nálgumst við fréttir í dag?
– Aldursmerkingar á öppum og samfélagsmiðlum – Skoðum það í samhengi við       aldursmerkingar á efni í bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum.
– Þættir sem ber að hafa í huga varðandi notkun snjalltækja í skólastarfi.
– Áhrif tækni á þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsu.

Birt í flokknum Fréttir.