Í dag flykktust prúðbúnir nemendur í 1. – 7. bekk á Litlu jólin í Salaskóla. Í Klettagjá var fallega skreytt jólatré sem krakkarnir dönsuðu í kringum við undirleik hljómsveitarinnar Jólakúlnanna en meðlimir hennar voru að þessu sinni bæði nemendur og kennarar skólans. Allt í einu heyrðust háreysti mikil og inn um einn gluggann hentist rauðklæddur maður með miklum bægslagangi. Jú, jú… það var þá sjálfur jólasveinninn sem var kominn til þess að heilsa upp á krakkana. Hann sagðist heita Grýlukertasleikir sem viðstaddir minntust ekki að hafa heyrt um áður enda ekki skrýtið því Grýlukertasleikir kemur bara á 500 ára fresti til byggða til að gefa skrýtnar gjafir eins og jóli útskýrði fyrir krökkunum. Hafsteinn skólastjóri fékk til dæmis silfurskó sem voru allt of litlir og Magga sérkennari var svo heppin að fá eitthvað sem líktist uppblásinni jólagrís. Jólasveinninn lék á létta strengi og sagði að það væru bara þægir krakkar í skólanum en það sama væri ekki hægt að segja um kennara. Hvað sem hann meinti með því.
Eftir Litlu-jólin byrjar langþráð jólafrí nemenda og starfsfólks Salaskóla. Á nýju ári mæta kennarar á samstarfsdag þann 3. janúar en skóli hjá nemendum hefst ekki fyrr en mánudaginn 6. janúar skv. stundaskrá.
Starfsfólk skólans óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsæls nýárs með þakklæti fyrir gott samstarf á árinu 2013.