Rafræn innritun
Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á netinu. Framhaldsskólar skilgreina sjálfir í samráði við menntamálaráðuneytið inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir. Inntökuskilyrði eru birt í skólanámskrá á vefsíðu hvers framhaldsskóla.
Smellið á lesa meira til að fá frekari upplýsingar.
Innritun nemenda úr 10. bekk grunnskóla (fæddir 1994 eða síðar)
Forinnritun verður 12.-16. apríl. Þá eiga nemendur að velja aðalskóla og annan til vara. Nemendur í tilteknum grunnskólum eiga forgang að skólavist í ákveðnum framhaldsskólum hafi þeir staðist inntökuskilyrði. Þeim er hins vegar frjálst að sækja um hvaða skóla sem er.
Þar sem innritun fer fram á netinu þurfa nemendur að komast í nettengda tölvu til að geta sótt um. Hægt er að komast í nettengdar tölvur bæði í grunnskólum og framhaldskólum.
Allir framhaldsskólar bjóða upp á aðstoð sé hennar óskað.
Þarf að senda eitthvað með umsóknunum?
Nemendur 10. bekkjar þurfa ekki að senda afrit af prófskírteinum úr með umsóknum. Einkunnirnar verða sendar rafrænt til þess skóla sem sótt er um. Vottorð eða sérstakar upplýsingar um nemendur, sem ekki er að finna á rafræna umsóknareyðublaðinu, geta nemendur hengt við umsókn sem fylgiskjal eða sent í pósti til skóla. Aðrir umsækjendur þurfa að senda með umsókn gögn sem ekki eru til staðar í upplýsingakerfi framhaldsskóla (Innu).
Hvar má fá aðstoð og ráðgjöf?
Námsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum þekkja vel til náms á framhaldsskólastigi og eru umsækjendur hvattir til að leita upplýsinga og ráðgjafar hjá þeim. Gott er að vera tímanlega á ferðinni því að maímánuður er mikill annatími í framhaldsskólum.
Hvernig er sótt um?
Umsækjendur þurfa að sækja um veflykil sem opnar þeim persónulegan aðgang að innrituninni. Sótt er um veflykil frá og með 1. apríl á menntagatt.is/innritun og kemur hann til baka í tölvupósti. Á sama stað er rafrænt umsóknareyðublað með leiðbeiningum og ýmsar upplýsingar um nám í framhaldsskólum.