Að gefnu tilefni skal tekið fram að
– hjólabretti og hlaupahjól séu geymd heima á skólatíma en dregin fram eftir að skóla lýkur
– krakkarnir komi ekki á hjólaskóm í skólann þar sem þeir skemma dúkinn á skólagöngunum
– þeir sem koma á reiðhjóli í skólann hafi hjálm á höfðinu.
Þetta var ákveðið á kennarafundi fyrr í dag. Smellið á "lesa meira" fyrir frekari rökstuðning.
Það er kominn vorhugur í okkur öll og ekki síst krakkana. Þá eru sumarleikföngin dregin fram og tími útileikja hefst. Á hverju degi kemur fjöldi krakka í skólann með hlaupahjól, hjólabretti eða á reiðhjólum. Sumir eru líka á skóm sem eru með hjólum í sólanum og hægt að renna sér á ógnarhraða ef undirlagið er nógu gott.
Við í Salaskóla fögnum því hvað krakkarnir eru duglegir að hreyfa sig. En samt sem áður erum við í talsverðum vandræðum með þessi leiktæki hér á skólatíma. Hjólabretti og hlaupahjól er ekki hægt að skilja eftir úti vegna hættu á að þeim verði stolið. Og við höfum ekkert geymslupláss til að geyma þau á meðan á skólatíma stendur. Krakkarnir hafa borið hjólabrettin með sér inn í kennslustofur og það hefur valdið talsverðum vandræðum. Hlauphjólin liggja í hrúgu í eða við anddyri, ólæst, og sl. föstudag hurfu þrjú slík hjól og hafa eigendur þeirra ekki séð þau síðan. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólunum, hvorki vegna þjófnaðar né skemmda. Ekki er neitt vesen með reiðhjólin, þau standa bara læst í hjólagrindunum við skólann.
Þá er annar þáttur í þessu sem við höfum áhyggjur af. Krakkarnir eru hjálmlaus bæði á hlaupahjólum og hjólabrettum. Slys hafa orðið, sem betur fer ekki alvarleg þó. En óvarið höfuð, sem þeystist um skólalóðina ofan á búk sem stendur á hjólabretti, er vissulega í hættu á að skaðast alvarlega.
Þar sem við berum ábyrgð á börnunum í frímínútum og á skólatíma getum við ekki leyft þeim að leika sér á þessum leiktækjum í frímínútum. Það eru því vinsamleg tilmæli okkar til ykkar foreldrar að hlaupahjólin og hjólabrettin verði geymd heima en dregin fram eftir að skólatíma lýkur. Sjálfsagt er að koma á reiðhjóli í skólann en þó biðjum við ykkur í endilega að tryggja að reiðhjólahjálmurinn sé þar sem hann á að vera, á höfðinu. Vil þó taka fram að við berum enga ábyrgð á reiðhjólinu.
Hjólaskórnir eru ákveðið vandamál, þar sem krakkarnir freistast til að renna sér á þeim eftir dúknum á göngum skólans. Dúkurinn hefur skemmst vegna þessa og við mælumst því til að aðrir skór séu notaðir í skólann.
Við viljum taka fram að við höfum óskað eftir því við bæjaryfirvöld að hér verði sett upp einhver aðstaða fyrir hjólabrettaáhugamenn. Vonir standa til þess að það verði gert í sumar. Þá viljum við einnig taka fram að við erum að vinna að því lausn á þessum málum öllum fyrir haustið, því okkur er ekki ljúft að banna notkun jafn frábærra leiktækja og hér um ræðir. En þangað til verða ofangreindar reglur að gilda.