Góðgerðarhlaup Salaskóla

Föstudaginn 13. september munu nemendur Salaskóla taka þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ á skólatíma. Eins og í fyrra, þá skilgreinum við hlaupið einnig sem „Góðgerðahlaup Salaskóla“. Að þessu sinni langar okkur að styrkja nýstofnaðan minningarsjóð Bryndísar Klöru Birgisdóttur, en hún var nemandi í Salaskóla og útskrifaðist frá okkur vorið 2023.

Í minningu Bryndísar Klöru ætlum við einnig að klæðast bleiku þennan dag en bleikur var hennar uppáhalds litur.

Íþróttakennararnir okkar skipuleggja hlaupið og eru vegalengdir mismunandi eftir aldri.
Við leitum til foreldra og vina og vandamanna skólasamfélagsins okkar að styrkja okkur við að láta gott af okkur leiða og heiðra um leið minnngu Bryndísar Klöru.

Minningarsjóður Bryndísar Klöru er í umsjón KPMG og forseti Íslands, Halla Tómasdóttr, er verndari sjóðsins. Minningarsjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að þær hörmungar sem leiddu til fráfalls Bryndísar Klöru endurtaki sig.

Í hlaupinu óskum við eftir stuðningi sem að lágmarki er ein króna fyrir hvern nemanda skólans, eða að lágmarki 530 kr. Í fyrra söfnuðum við kr. 192,500- sem voru afhentar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Margir völdu að styrkja nemendahópinn um 530 kr, en aðrir völdu hærri styrkupphæð að eigin vali.

Í nafni Salaskóla langar okkur að styðja myndarlega við nýstofnaðan minningarsjóð og leggja okkar af mörkum til að markmið hans náist. Við hvetjum ykkur til að taka þátt, styðja duglega hlaupakrakka og hjálpa okkur í skólanum að heiðra minningu Bryndísar Klöru.

Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hlaupa til góðs!
Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.

Í nafni skólasamfélags Salaskóla munum við svo koma einni heildarupphæð til minningarsjóðsins strax í næstu viku.

Birt í flokknum Fréttir.