Sérstakur umræðuþáttur um COVID-19 helgaður börnum og ungmennum. Fá tækifæri til að leggja spurningar fyrir framlínufólkið
Næstkomandi þriðjudagskvöld fá börn og ungmenni orðið í sérstökum umræðuþætti um COVID-19 þar sem framlínan, ráðamenn og sérfræðingar svara þeirra spurningum og vangaveltum.
Viðmælendur í þættinum verða sem fyrr Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
En ólíkt fyrri umræðuþáttum um COVID-19 faraldurinn og öðrum þeim fjölmörgu viðtölum sem þessir forvígismenn hafa veitt munu allar spurningar í þessum sérstaka umræðuþætti koma frá unga fólkinu. Þannig gefst þeim færi á að senda inn spurningar sem fyrr í gegnum fyrirspurnarhnapp á ruv.is eða í gegnum netfangið covid19@ruv.is
Einnig gefst unga fólkinu færi á að bera upp lifandi spurningar með því að senda myndskilaboð, t.a.m. í gegnum WeTransfer á sama netfang, covid19@ruv.is
Auk áðurnefndra viðmælenda munu svo Salvör Nordal umboðsmaður barna og Margrét Birna Þórarinsdóttir barnasálfræðingur einnig svara aðkallandi spurningum frá unga fólkinu okkar, eftir því sem við á, spurningum sem snúa ekki hvað síst að stöðu þeirra og líðan við þær aðstæður sem nú ríkja og þau þurfa að læra að fóta sig í, hin óvenjulega samfélagsmynd sem blasir við þeim og allar þessar nýju og framandi áskoranirnar sem þau þurfa að takast á við.
COVID-19 þáttur unga fólksins verður á dagskrá RÚV þriðjudaginn 7. apríl kl. 19.35. Umsjónarmenn þáttarins verða Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Hafsteinn Vilhelmsson verkefnastjóri UngRúv.