DSC01153

Jólaþorp nemenda í 7. og 8. bekk.

DSC01153

Nemendur í 7. og 8. bekk hafa undanfarna þematíma unnið að jólaþorpi sem nú rís fyrir framan bókasafn skólans. Það hefur upp á flest það að bjóða sem prýða má slíkt þorp, s.s. skóla, vita, bryggju, báta, lest, ráðhús, skíðabrekku, tjörn, jólasveina og að sjálfsögðu fólk af öllum stærðum og gerðum. Nemendur hafa verið áhugasamir og duglegir í þessari vinnu og hvetjum við foreldra og aðra að koma og líta á þorpið við tækifæri.

Skoðið notalegu stemninguna í jólaþorpinu.

DSC01141

Lúsíumessan 13. desember

DSC01141
Það er orðin hefð í Salaskóla að halda upp á Lúsíumessu 13. desember sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu. Kór Salaskóla, sem  skipaður er nemendum úr 3.-7. bekk, sér ávallt um Lúsíuathöfnina undir stjórn tónmenntakennara sem að þessu sinni var Ragnheiður Ólafsdóttir. Krakkarnir klæðast þá hvítum kyrtlum, hnýta silfurbönd um mitti sér og höfuð og halda á ljósi. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi og með rauðan linda um mitti. Í morgun fór Lúsíugangan um allan skólann með söng og tilheyrandi hátíðleika. Guðrún Vala Matthíasdóttir í mávum var Lúsían þetta árið. Nemendur komu fram á ganga með kennurum sínum og fylgdust með göngunni. Falleg og friðsæl stund í Salaskóla í morgunsárið.

IMG_0027

Fimmtubekkingar láta gott af sér leiða

IMG_0027
Krakkarnir í 5.bekk í Salaskóla, spóar og jaðrakanar, ákváðu að þau vildu láta gott af sér leiða fyrir jólin þar sem margir eiga um sárt að binda þegar líða fer að jólum. Þau ákváðu að safna saman öllum fatnaði sem fjölskyldan heima fyrir hafði ekki lengur not fyrir ásamt því að kaupa gjafir fyrir þá sem minna mega sín. Þau pökkuðu inn öllum gjöfunum og fóru með þær ásamt öllum fatnaðinum til Mæðrastyrksnefndar í Fannborginni.  Þar sem þau voru mjög dugleg í söfnuninni þurftu þau að fá foreldri með sér í lið til að ferja gjafirnar og fatnaðinn fyrir þau því magnið var þvílíkt að ekki var hægt að taka það með í strætó.

Mjög vel var tekið á móti hópnum í Fannborginni þar sem þau fengu gómsætar kleinur, piparkökur og drykk til að snæða á staðnum. Þegar þau höfðu sungið fyrir starfsmenn Mæðrastyrksnefndar fengu þau að launum lukkuhálsmen sem vakti mikla lukku.  Á leið sinni út á stoppustöð gengu þau fram hjá félagsheimilinu Gjábakka og ákváðu að kíkja þar inn og syngja fyrir heldri borgarana sem tóku vel á móti þeim.  Fleiri myndir.

DSC01123

Gott fyrir lestraráhugann að fá rithöfund í heimsókn

DSC01123

Gunnar Helgason kom við hjá okkur í dag og las upp úr nýjustu bókinni sinni  Rangstæður í Reykjavík. Einnig talaði hann um fyrri bækurnar tvær sem eru komnar út áður í þessum bókaflokki. Það voru nemendur í 4. – 6. bekk sem komu í Klettagjá til að hlýða á Gunnar og nutu upplestursins sem var afar líflegur og skemmtilegur. Þau voru síðan dugleg að spyrja Gunnar á eftir um tilurð bókanna og hvert yrði framhaldið. Heimsókn sem þessi er eins og vítamínsprauta fyrir krakkana, kynning á slíku efni er afar hvetjandi fyrir lestraráhuga almennt, margir verða leitandi á eftir og taka sér bók í hönd. Fleiri myndir frá heimsókn Gunnars.
IMG_0151

Skín í rauðar skotthúfur …

IMG_0151


Í dag, 11. desember, er rauður dagur í Salaskóla en þá setur 
starfsfólk og nemendur skólans upp rauðar jólasveinahúfur og margir klæðast einhverju rauðu. Þetta er hefð sem lengi hefur verið viðhöfð í skólanum á þessum degi í desember. En eins og flestir vita fer bærinn að fyllast af alvöru jólasveinum innan tíðar og sá fyrsti kemur einmitt til byggða næstu nótt, blessaður karlinn hann Stekkjarstaur. Í morgunsárið voru margir krakkar mættir í bókasafn skólans til að ná sér í lestrarefni – og jólasveinahúfurnar settu óneitanlega skemmtilegan og jólalegan svip á bókasafnið. Já, allt fullt af litlum og stórum jólasveinum í skólanum í dag. 

IMG_0146

Góðir gestir í heimsókn

IMG_0146
Mjög oft fáum við góða gesti í heimsókn til okkar hingað í Salaskóla. Fyrir stuttu síðan kom Birgitta E. Hassell sem er annar höfundur bókaflokksins um Rökkurhæðir og las upp úr bókinni Rökkurhæðir – gjöfin fyrir nemendur í 7. bekk. Nemendur hlustuðu með athygli og gerðu góðan róm að sögunni.

Auður Þórhallsdóttir kom svo í dag og heimsótti nemendur í 2. og 3. bekk og kynnti fyrir þeim bók sína Sumarið með Salla sem segir frá hrafnsunganum Salla sem systkinin Lóa og Haukur finna í sveitinni. Margt skondið getur komið fyrir þegar lítill hrafnsungi er annars vegar. Krakkarnir nutu þess að hlusta á Auði lesa upp úr bók sinni.  Það er kærkomið að fá slíkar heimsóknir og mikil tilbreyting fyrir nemendur. 

Salaskoli_Mistig_skakmot_2013__Kriubardaginn

Undankeppnin í skák – 2. riðill

Salaskoli_Mistig_skakmot_2013__Kriubardaginn
Nú er lokið öðrum riðli í undankeppni fyrir bekkjamót Salaskóla í skák 2013.  
Föstudaginn 06.12.2013 kepptu 14 lið frá miðstigsbekkjunum sem eru krakkar úr 5.- 7. bekk. 
Heildarúrslit urðu þessi:

Röð      Heiti liðs                        vinningar

1..2       7b Kríur A                      19

1..2       7b Mávar A                    19

3          7b Kríur B                       17,5

4          6b Súlur A                      16

5          7b Ritur A                      14,5

6          5b Spóar A                     14

7..8       7b Mávar B                    12,5

7..8       5b Jaðrakanar A             12,5

9          6b Svölur A                    12

10         6b Súlur B                     10

11         5b Spóar D                    7

12         5b Spóar B                    5,5

13         5b Jaðrakanar B             4,5

14         5b Spóar C                    4

Sigurliðin Kríur A og Mávar A voru feiknasterk og sýndu flest liðin frábæra taflmennsku. Í toppliðinu Kríur A voru kapparnir: Jason, Aron og Ágúst. Í toppliðinu Mávar A voru kapparnir: Róbert, Kjartan, Andri og Breki

Bestum árangri pr. árgang náðu þessir:

7b. Kríur og Mávar voru hnífjöfn.
6b. Súlur A
5b. Spóar A

Næstkomandi föstudag keppir unglingastigið eða 13.12. 2013, kl: 8:10 til 12:00, 7 umferðir 2x10min. Úrslitakeppnin verður háð eftir hádegi 13.12.2013  Frá kl. 12:30 til 15:30, 7 umferðir 2×10 min. Þá mæta efstu fjögur liðin úr unglingastiginu ásamt eftirfarandi liðum: Tjaldar A , Tildrur A, Vepjur úrval,  Músarindlar A, Kríur A, Mávar A, Kríur B, Súlur A, Ritur A, Spóar A, Mávar B og Jaðrakanar A.

Mótsstjóri er Tómas Rasmus.

Nú þurfa krakkarnir bók í jólagjöf

Smá hugleiðing vegna PISA skýrslunnar:

Niðurstöður PISA rannsóknarinnar frá 2012 voru kynntar í vikunni. Við fyrstu sýn eru þær varla gleðiefni fyrir okkur Íslendinga, sem viljum ævinlega vera mest og best í öllu. Það er reyndar til einföld lausn á þeim vanda sem við erum í, en hún kostar korter á dag. En í PISA leynast líka góð tíðindi fyrir okkur Frónbúa.

Engum nemanda ofaukið
Fyrst að jákvæðu fréttunum. Íslenskum grunnskólum tekst að mestu að útmá þann mun sem er mögulega á aðstöðu nemenda eftir fjárhag heimilanna innan sama skólahverfis. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Og niðurstöður PISA rannsóknarinnar staðfesta ennfremur að innan hvers skóla er getustig nemenda það fjölbreytilegasta sem gerist í heiminum, hver skóli hefur bæði mjög sterka og mjög slaka nemendur. Þetta er ein mikilvægasta sérstaða íslenska grunnskólans. Við viljum ekki aðgreiningu eftir námsgetu, við viljum ekki skilja neinn út undan. Í okkar skólum á engum nemanda að vera ofaukið.

Íslenskum nemendum líður vel í skólanum
PISA sýnir mjög jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda sl. 4 ár í íslensku skólum. Stuðningur kennara við nemendur er mikill og samband nemenda við kennara áberandi betra en almennt gerist í OECD ríkjunum. Nemendur líður nú mun betur í nemendahópnum í skólanum, agi í tímum hefur aukist og viðhorf nemenda til skólans batnað. Af þessu má sjá að íslenski grunnskólinn stendur sig þrátt fyrir allt býsna vel. Aðgreining er lítil og nemendum líður almennt vel.

Krakkar verða að lesa meira – líka heima
Mesta áhyggjuefnið í PISA niðurstöðunum er æ slakari lestrarhæfni íslenskra unglinga, ekki bara stráka heldur líka stelpna. Ástæðan er náttúrulega engin önnur er sú að krakkar lesa of lítið og miklu minna nú en áður. Þeir gera eitthvað annað á þeim tíma sem þeir ættu að verja til lesturs. Lesskilningur eykst ekki nema með lestri og því meira sem börn og unglingar lesa því betur skilja þau það sem þau lesa – svo einfalt er það. Það er ekki aðeins verkefni skólans að hvetja börn og unglinga til lesturs. Þar skipta foreldrarnir langmestu máli. Ef við ætlum að snúa ofan af þessu verða foreldrarnir og að sjálfsögðu krakkarnir sjálfir að taka fullan þátt í því með skólunum.

Bók í jólapakkann
Jólin eru framundan og þar liggur svo sannarlega sóknarfæri. Allir krakkar sem vilja eiga margvíslega möguleika í framtíðinni óska sér bóka í jólagjöf. Og foreldrar sem vilja stuðla að betra læsi sinna barna lauma skemmtilegri bók í jólapakkann. Og auðvitað les svo öll fjölskyldan saman um jólin og ákveður að í framtíðinni eigi allir að lesa í bókinni sinni fyrir svefninn á hverju einasta kvöldi í a.m.k. stundarfjórðung. Já og ekki gleyma litlu börnunum, það þarf að lesa fyrir þau. Ef við viljum skora hærra á PISA þá er til einföld leið og hún kostar bara 15 mínútur á dag – lesa meira!

Salaskoli_Yngsta_stig_skakmot_2013_Myndin_

Teflt af miklu kappi í undankeppninni

Salaskoli_Yngsta_stig_skakmot_2013_Myndin_Nú er lokið fyrsta riðli í undankeppni fyrir bekkjamót Salaskóla í skák 2013. Föstudaginn 29.11.2013 kepptu 24 lið frá yngsta stigi sem eru krakkar úr 1. – 4. bekk.

Heildarúrslit urðu þessi:

Röð      Heiti liðs                        vinningar

1          4b Tjaldar A                   11,5

2          4b Tildrur A                    10,5

3..4       4b Vepjur B                   9,5

3..4       2b Músarindlar A            9,5

5          4b Vepjur A                    8

6..9       4b Tjaldar C                   7

6..9       4b Tildrur C                    7

6..9       3b Lóur A                      7

6..9       3b Lóur B                      7

10..12   4b Tildrur B                   6,5

10..12   3b Hrossagaukar A         6,5

10..12   2b Sólskríkjur A             6,5

13..16   4b Tjaldar B                  5,5

13..16   3b Hrossagaukar C        5,5

13..16   3b Hrossagaukar B        5,5

13..16   1b Steindeplar A            5,5

17..18   4b Tildrur D                  5

17..18   3b Þrestir B                   5

19..20   1b Sandlóur A               4,5

19..20   1b Maríuerlur A             4,5

21..23   2b Sólskríkjur B             3

21..23   2b Músarindlar B           3

21..23   2b Glókollar A               3

24         3b Þrestir A                  2

Sigurliðið Tjaldar A vann allar sínar viðureignir nema eina en það var jafntefli.

Í liði Tjalda A voru þessir kappar:

Gísli Gott, Anton Fannar, Pétur og Fannar.

Bestu árangri pr. árgang náðu þessir:

 1.  bekkur: Steindeplar A

 2.  bekkur: Músarindlar A

 3.  bekkur: Lóur A og Lóur B

 4.  bekkur: Tjaldar A

Næst komandi föstudag keppa miðstigsbekkirnir eða 6.12.2013. Síðan koma unglingarnir þann 13.12.2013 og úrslita keppnin verður háð eftir hádegi 13.12.2013, en þá keppa 4 efstu liðin úr hverjum riðli. Þá mæta Tjaldar A , Tildrur A,  Vepjur B og  Músarindlar A ásamt toppunum úr hinum riðlunum. Þessi keppni hefur verið haldin árlega í Salaskóla í 10 ár og aldrei hafa jafn margir krakkar keppt. Um 80 börn voru mætt til leiks í morgun og er það alger metþátttaka.

Móttstjóri var Tómas Rasmus honum til aðstoðar Bára Dröfn Árnadóttir.

Aðventuganga foreldrafélagsins

Aðventugangan árlega er nk. fimmtudag, 5. desember. Hefst kl. 1700 í Salaskóla og þar leikur flautuhópur Skólahljómsveitarinnar falleg jólalög. Eftir það er farið í ljósagöngu og heilsað upp á prestana í Lindakirkju og svo gengið aftur í skólann þar sem allir fá heitt kakó og smákökur.