Í morgun mættu foreldrar 9. og 10. bekkinga í morgunkaffi það var síðasta kaffiboðið á þessu ári. Það hafa 546 foreldrar komið í morgunkaffi með stjórnendum Salaskóla. Þessir foreldrar eiga 422 börn í 1. – 10. bekk en þar eru alls 550 nemendur. Það hafa því foreldrar 76% barna komið og líklega er prósentutalann hærri því margir eiga börn í nokkrum árgöngum og hafa kannski ekki mætt á alla fundina. Þetta verður að verður að teljast mjög vel viðunandi. Best var mætingin í himbrimum en þar mættu foreldrar allra krakkanna. Á hæla þeirra koma foreldrar langvía og sendlingar, þar vantaði aðeins foreldri eins barns. Á fundunum skrifuðu foreldrar á miða tvö atriði sem þeir eru ánægðir með í starfi Salaskóla og tvö atriði sem má bæta eða þá hugmyndir um eitthvað sem mætti taka upp í skólanum. Við erum nú að fara yfir þessa miða og vinna úr þeim. Þar er margt sem styrkir okkur í starfinu og hjálpar okkur við að bæta skólann okkar.
Category Archives: Fréttir
Viðurkenningar fyrir fjölgreindaleika og hlaup
Verðlaunaafhending fjölgreindaleikanna fór fram í vikunni. Þá voru allir nemendur skólans kallaðir á sal sem var þétt setinn. Þrjú efstu liðin fengu viðurkenningu og valdir voru tveir bestu liðsstjórarnir sem eru þau Bjarmar og Karitas. Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir norræna skólahlaupið en þar stóðu bekkirnir krummar, súlur og sólskríkjur upp úr. Sjá nánari umfjöllun og myndir á fésbókinni. Einnig myndir í myndasafni skólans.
„Vinir úr Salaskóla“
Í tilefni af Degi gegn einelti fóru nemendur úr 9. og 10. bekk í heimsókn í leikskólana föst. 7.11. og unnu með börnunum að ýmsum verkefnum í tengslum við þemað Vinir úr Salaskóla sem er samstarfsverkefni við leiksskólana Fífusali og Rjúpnahæð. Meðfylgjandi eru myndir frá þessum degi úr leikskólanum í Fífuseli.
Góðir gestir í heimsókn
Við höfum fengið góða gesti til okkar í nóvember. Rithöfundurinn Gunnar Helgason kom til okkar og las upp úr nýju bókinni sinni „Gula spjaldið í Gautaborg“. Krakkarnir tóku honum vel og margir gáfu sig á tal við hann eftir upplesturinn. Töframaðurinn Einar og aðstoðarkona hans kíktu á krakkana í 1. – 4. bekk og sýndu töfrabrögð upp úr nýrri bók sem er að koma út. Það er mikil tilbreyting að fá góða gesti í heimsókn og von er á fleirum síðar í þessum mánuði.
Myndir frá heimsóknunum.
Vegna mögulegs verkfalls 10. nóvember
– dægradvöl skólans lokar alveg meðan á verkfalli stendur, á líka við um klúbbastarf í 4. bekk
– húsvörður verður í verkfalli en skólast…jóri má opna skólahúsið að morgni dags
– ritari verður í verkfalli og því verður erfitt að ná símasambandi við skólann. Hægt að senda tölvupóst á skólastjóra hafsteinn@kopavogur.is. Ef um mjög brýnt mál er að ræða er hægt að hringja í Hafstein skólastjóra í síma 821 1630 eða Hrefnu aðstoðarskólastjóra í síma 864 3719
– sundlaugin verður lokuð og sundkennsla fellur því niður
– stuðningsfulltrúar fara í verkfall
– kennarar eru ekki í verkfalli og kennt verður skv. stundaskrá
– ýmis önnur röskun getur orðið af þessum völdum og munum við tilkynna um það eftir því sem við á.
Vonandi nást samningar áður en til verkfalls kemur. Við sendum upplýsingar til ykkar um það í tölvupósti og í gegnum facebooksíðu skólans.
Dagur gegn einelti
Föstudagurinn 7. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti hér í Salahverfi. Þetta er samstarfsverkefni milli leikskólanna í hverfinu og Salaskóla. Nemendurnir 9. og 10. bekkjar fara í heimsókn í leikskólana og vinna með börnunum að ýmsum verkefnum sem tengjast verkefninu Vinir úr Salaskóla sem er samstarfsverkefni við leiksskólana Fífusali og Rjúpnahæð. Nemendur í 7. og 8. bekk Salaskóla sjá um útivist með yngri nemendum.
Morgunkaffi – byrjum 5. nóvember
Þá er komið að morgunfundum skólastjórnenda í Salaskóla með foreldrum. Miðvikudaginn 5. nóvember bjóðum við foreldrum barna í 1. bekk til okkar, 6. nóvember foreldrum barna í 2. bekk og 7. nóvemeber foreldrum barna í 3. bekk. Fundirnir hefjast kl. 8:10 og standa til kl. 9.00 og eru í sal skólans. Á fundunum ræðum við saman um ýmis mál sem snerta skólastarfið. Einnig eiga foreldrar að skrifa á blað eitthvað sem þeim finnst gott í starfi skólans, eitthvað sem má bæta og svo ef þeir luma á góðum hugmyndum um hvað mætti gera þá viljum við fá það á blaðið líka. Krakkarnir mæta svo á fundinn kl. 8:45 taka stutta söngstund. Foreldrar ganga svo með þeim inn í kennslustofurnar. Við bjóðum upp á kaffi.
Þetta eru mikilvægir og gagnlegir fundir fyrir okkur öll og við leggjum mikla áherslu á að allir mæti.
Gengur vel á Reykjum
Frábær stemning hér á Reykjum. Kvöldvakan hjá krökkunum gekk mjög vel og voru okkar krakkar með skemmtiatriði eins og leiki, dans og söng. Í kvöld var diskótek þar sem var mikið dansað og sungið, allir tóku þátt í gleðinni. Á morgun, fimmtudag, fá krakkarnir að velja sér vinnustöðvar og síðan seinnipartinn verður hárgreiðslukeppnin mikla sem gengur út á það að stelpurnar eiga að greiða strákunum. Frumlegasta hárgreiðslan vinnur.
Allt gengur mjög vel. Myndir