Þróunarstarf

Unnið er að mörgum verkefnum:

Samvinnubekkir
Comneíusar verkefni
Útikennsla
Grænfáninn
Fjölgreindaleikar
Skák

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Salaskóla 2004 – 2007

Stefna Salaskóla er að gætt skuli fyllsta jafnréttis milli kynjanna og að hver einstaklingur, nemandi eða starfsmaður, verði metinn á eigin forsendum. Þannig verði tryggt að mannauður nýtist sem best. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og er það stefna skólans að útrýma slíkri mismunun komi hún í ljós.

Nemendur
Stefnumið – nemendur

  • Við röðun í námshópa skal leitast við að hafa sem jafnast hlutfall drengja og stúlkna í hverjum námshópi
  • Námsframboð og viðfangsefni skulu höfða til beggja kynja skal gæta jafnréttis í kynbundnu námsframboði
  • Kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir
  • Markvisst skal unnið gegn stöðluðum kynímyndum stúlkna og drengja
  • Gæta skal jafnréttis í öllu starfi skólans
  • Kynferðisleg áreitni og einelti verða ekki liðin.

Nemendur – markmið og leiðir.
Kynjahlutfall

Árlega skal fara yfir alla bekkjarlista og reikna út kynjahlutföll.  Með þær upplýsingar í höndunum er fyrst hægt að sjá hvort hlutfallslegur munur sé á milli kynja í valgreinum.´

Árlega skal fara yfir hóplista og reikna út kynjahlutföll nemenda í valgreinum í 9. og 10. bekk.  Markmiðið er að sem jöfnust kynjaskipting sé í valhópum, nema ef um sérstaka stráka- eða stelpuhópa er að ræða.  Sú staða gæti komið upp að það þjónaði jafnréttishugsun að kynskipta hópum.  Skoða – og vinna þá sérstaklega með óskýrðan mun á milli kynja  hvað varðar valgreinar.

Námsmat

Skoða árlega einkunnir að vori í 4., 7. og 10. bekk og greina þær eftir kynjum.  Ef í ljós kemur verulegur munur á einkunnum nemenda eftir kyni þarf að grípa til sérstakra aðgerða með það fyrir augum að staða kynja verði sem jöfnust.  Hér gæti t.d. komið til að breyta kennsluháttum, námsefni, samsetningu námshópa eða auka tímabundið við stuðning.

Sjálfsmynd

Leggja árlega fyrir nemendur í 5. og 8. bekk spurningar um t.d. líðan, sjálfsmynd, áform og virkni.  Er munur eftir kynjum?  Ef svo er vinna þá sérstaklega með þær niðurstöður.  Þetta sjálfsmat nemenda má einnig nota sem innlegg í nemenda- og foreldrasamtöl.  Sjálfsmat má leggja fyrir fleiri árganga í skólanum og oftar ef þurfa þykir.

Tómstundastarf – vinna

Einnig er forvitnilegt að kanna hjá nemendum í t.d. 9. og 10. bekk; vinnu nemenda með skóla, þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi og  óformlegu tómstundastarfi o.fl.  Kemur hér fram munur á milli kynja?  Eru hér komnar inn breytur sem geta haft áhrif á námsárangur, virkni í félagsstarfi í skólanum, vali á valáföngum ( mikil / lítil heimavinna )?

Kynjablandaðir námshópar í íþróttum, list og verkgreinum

Skoða kynjablandaða námshópa í leikfimi, sundi, list- og verkgreinum.  Vinna með niðurstöður þannig að staða kynja verði sem jöfnust.  Meta þarf kosti og galla samkennslu m.a. með viðhorfskönnunum. 

Vinna gegn stöðluðum kynímyndum

Það þarf að vinna sérstaklega í náms – og starfsfræðslu.  Vinna gegn stöðluðum ímyndum kynjanna í náms- og starfsvali. Þessi fræðsla getur byrjað mjög snemma og hér gefst gott tækifæri til að auka samstarf heimila og skóla með markvissum heimsóknum foreldra í skóla þar sem þeir kynna mismunandi störf og starfsvettvang.  Markviss náms- og starfsfræðsla sem byggir bæði á almennri kynningu á framhaldsskólanum og  íslenskum vinnumarkaði þarf að hefjast strax í byrjun 8. bekkjar.  Einnig  þarf að vinna með t.d. gildismat og fordóma í gegnum almennar umræður.  Kynna sérstaklega fyrir stelpum nám og störf í  tækni- og iðngreinum og fyrir strákum hefðbundin störf sem flokkast til uppeldis- og umönnunarstarfa.  Það þarf að gefa nemendum tækifæri til að fara í heimsóknir út í framhaldsskóla og fyrirtæki.

Námsefni

Allir kennarar skólans verða að skoða og meta allt námsefni út frá jafnréttissjónarmiði.  Það þarf að hafa að leiðarljósi að vinna með námsefni / kennslugögn sem byggja á jafnréttishugmyndum.

Kennsluhættir

Kennarar þurfa að beita sem fjölbreyttustum kennsluháttum og þar með reyna að nálgast mismunandi leiðir nemenda til að læra og fanga sem best áhuga þeirra og næmni til náms.  Þannig er líklegast að bæði kynin fái kennslu við hæfi og ólík reynsla og gildismat fái notið sín.

Kennsla í jafnrétti

Það er lykilatriði að vinna markvist með jafnrétti í lífsleiknitímum.  Þó svo að lífsleikni komi ekki inn í námskrá fyrr en í 4.bekk er allt skólastarf yngri nemenda samofið lífsleikniáherslum eða þjálfun.  Strax í 1. bekk er því hægt að byrja að vinna með nemendur í anda jafnréttis.

Skólanámskrá – áætlanir

Nauðsynlegt er að skoða í hvaða öðrum námsgreinum / námskrám er sérstaklega fjallað um jafnrétti kynjanna eða hefðbundnum kynímyndum viðhaldið. Í allri námsáætlanagerð verður að vinna sérstaklega með jafnrétti kynjanna að leiðarljósi.  Allar námsgreinar tengjast beint eða óbeint jafnrétti.  Hver og einn kennari verður að skoða það námsefni sem nemendur vinna með, þær áherslur sem kennari leggur í skólastarfinu í daglegu samneiti við nemendur, það gildismat sem ríkir í skólanum / nemendahópnum og þær kennsluaðferðir sem unnið er eftir.   Sérstaklega er nauðsynlegt að vinna með “jafnréttisgleraugu” í t.d. eðlis og efnafræði, heimilisfræði og íþróttum og vinna meðvitað gegn ríkjandi kynímyndum og námsvali.

Félagsstarf nemenda

Það þarf að hafa að leiðarljósi jafnan hlut kynja við val í nemendaráð, við val í ræðu- og spurningalið skólans og við hvert það tækifæri þegar nemandi eða nemendur skólans koma fram fyrir hans hönd.  Einnig að skólinn leggi jafna áherslu á þátttöku stráka og stelpna í íþróttamótum.  Hvetja þarf stúlkur sérstaklega til þátttöku í skákstarfi skólans.

Stoðþjónusta

Með jöfnu millibili þarf sérstaklega að skoða alla þá stoðþjónustu sem skólinn veitir.  Hér er átt við t.d. aðstoð í námsveri skólans, aðstoð námsráðgjafa, sérkennslu, einstaklingsnámskrár, sálfræðiaðstoð, aðstoð námsráðgjafa, aðstoð hjúkrunarfræðings og ýmis önnur náms- og félagsleg úrræði sem skólinn býður upp á eða stendur að í samvinnu við aðra aðila.  Kemur hér fram munur eftir kynjum?  Ef svo er þá þarf að vinna sérstaklega með þær niðurstöður.  Á vettvangi nemendaverndarráðs er auðvelt að skoða þessa þætti sérstaklega.

Kynferðisleg áreitni

Það þarf að gera nemendum ljóst að kynferðisleg áreitni verði aldrei liðin í skólanum.  Það þarf að setja meðferð slíkra mála í ákv. farveg sbr. einelti og áföll. Nemendaverndarráð, skólasálfræðingur, skólahjúkrunarfræðingur og / eða námsráðgjafi eiga að taka að sér þessa fræðslu og vinnu með nemendum. Nemendur eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega áreitni.  Það þarf að gera nemendum grein fyrir því að áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði.  Nemendur eiga hvorki að sætta sig við áreitni af hendi samnemenda né starfsmanna skólans.  Hér ber að skoða sérstaklega nýjar leiðir sem notaðar eru til áreitis s.s. tölvur og símar / myndsímar.

Virk samvinna við stoðþjónustuna; Félagsþjónustuna, Barnavernd, Barnahús og  lögreglu er nauðsynleg til þess að hægt sé að tryggja sem best velferð nemenda.  Ef upp kemur grunur / vissa um að nemandi hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti í skólanum eða utan hans skal samstundis haft samband við barnaverndaryfirvöld og Barnahús.  Hafa ber samband við foreldra ef þeir tengjast á engan hátt meintu áreiti.

Gagnkvæm og traust samvinna við heimili nemenda og ýmis félagasamtök í hverfinu t.d. íþróttafélag, félagsmiðstöð og kirkjuna þarf að vera til staðar. 

Kynning

Árlega þarf að kynna jafnréttiáætlun skólans og þá sérstaklega þann hluta er snýr að nemendum.  Það má gera með ýmsum hætti t.d. á haustfundum, á heimasíðu skólans og í fréttablöðum sem skólinn gefur út.

Stefna Salaskóla

Salaskóli er framsækinn skóli, óragur við að fara ótroðnar brautir. Í stefnumótun og starfi er stuðst við rannsóknir, innlendar og erlendar, og reynslu. Nemendur og hagsmunir þeirra eru ávallt í fyrsta sæti. Allt starfið miðast við að gera sérhvern þeirra að góðum og nýtum þegn þessa lands, óhræddum við að glíma við öll þau nýju verkefni sem honum munu mæta á lífsleiðinni.

Helstu áhersluatriði eru:

Áhersla á einstaklinginn

Við leggjum áherslu á sterkar hliðar hvers einstaklings og að sérhver nemandi fái að njóta sín sem einstaklingur og í hóp.

Umhverfismálin

Skólinn er „grænn skóli” og hefur hlotið viðurkenningu Landverndar sem slíkur. Nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa gert með sér umhverfissáttmála. Við flokkum rusl, spörum orku og notum ekki einnota drykkjarumbúðir.

Strákar og stelpur

Við leggjum áherslu á að bæði strákar og stelpur fái að njóta sín. Stelpurnar  fyrir að láta meira til sín taka, verða hugrakkari, taka meira rými og verða líkamlega virkari. Strákarnir þurfa að læra að virða mörk og reglur og sýna umhyggju.

Heilbrigði, hreyfing og hollusta

Við temjum okkur heilbrigði og holla lífshætti. Markviss áhersla er lögð á útivist og fjölbreytt íþróttastarf.

Siðfræði og góð framkoma

Við leggjum áherslu á þau gildi sem sérhver manneskja í siðmenntuðu samfélagi verður að rækta með sér og að nemendur temji sér góða framkomu og góð vinnubrögð.

Heimili og skóli 

Við leggjum mikið upp úr góðu sambandi og samstarfi við foreldra. Upplýsingar um skólastarfið eru aðgengilegar og foreldrar fá tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins.

salaskoli

Um skólann

Salaskóli tók til starfa í sumarlok 2001. Skólinn er í Salahverfi, í Leirdal, sem liggur norðan við Rjúpnahæð og sunnan við Seljahverfi í Reykjavík. Skólaárið 2014 – 2015 eru nemendur 550 í 1.-10. bekk í 26 bekkjardeildum. Starfsmenn eru 80.

Skólinn býr við afbragðsgóða aðstöðu. Húsnæði skólans er hlýlegt og gott og skólinn er vel búinn kennslugögnum og tækjum. Við hlið skólans er íþróttamiðstöðin Versalir og þar eru íþróttasalir og sundlaugar sem skólinn hefur afnot af. Það er þó orðið nokkuð þröngt um nemendur og tveimur lausum kennslustofum hefur verið komið fyrir á lóð skólans. 

Umhverfi skólans er fjölbreytt og gefur mikla möguleika til fjölbreyttrar kennslu. Skammt frá skólanum er ákjósanleg útivistarsvæði. Fremur stutt er í bæði Elliðavatn og Vífilsstaðavatn. Í næsta nágrenni skólans er kirkjugarður og golfvöllur. Skólalóðin er hönnuð m.a. með tilliti til útikennslu. Hún er fjölbreytt, með völlum og leiktækjum. Í Rjúpnahæðinni eigum við útikennslulund með leikskólunum í hverfinu. 

salaskoli