Fimmtudaginn 13. febrúar kl. 20:00 – 21:00 bjóðum við foreldrum í 5. – 10. bekk til fundar um netnotkun barna og unglinga. Óli Örn Atlason, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar fer rækilega yfir málin. Hann hefur góða þekkingu á þessum málum og er vel inni í því sem krakkar eru að sýsla á netinu. Hann leitast við að svara spurningum eins og hvað eru þau að gera á netinu og hvernig. Það er mikilvægt fyrir alla foreldra að fá einhverja innsýn í þetta og því biðjum við ykkur öll að gefa ykkur þessa klukkustund þann 13. febrúar. Athugið að þetta er sami fyrirlestur og Óli var með hér í skólanum 23. janúar fyrir 8. – 10. bekkjar foreldra. Nú bjóðum við foreldrum 5. – 7. bekkinga og þeim unglingaforeldrum sem ekki komust um daginn.
Þetta er frábær fyrirlestur sem engin má missa af. Fundurinn verður í salnum í skólanum.
Author Archives: Ásgerður Helga Guðmundsdóttir
Góðar niðurstöður Salaskóla í PISA
Niðurstöður fyrir Salaskóla í PISA voru að koma í hús. Í lesskilningi er meðaltal skólans 517 en meðaltal Íslands er 483, í læsi í náttúrufræði er meðaltal Salaskóla 522 en Íslandsmeðaltalið er 478 og í stærðfræði er meðaltal skólans 529 en meðaltal Íslands er 493. Sem sagt allsstaðar vel yfir landsmeðaltali. Þá er Salaskóli einnig nokkuð yfir meðaltali skóla í Kópavogi.
Foreldrum boðið í morgunkaffi
Í allmörg ár hafa stjórnendur Salaskóla haft þann ágæta sið að bjóða öllum foreldrum í morgunkaffi einu sinni á hverju skólaári. Að þessu sinni byrjum við í næstu viku en breytum nú aðeins út frá venjunni því nú eiga allir foreldrar í hverjum árgangi að mæta á sama tíma. Við byrjum alltaf kl. 8:10 í salnum okkar, spjöllum svolítið saman yfir kaffibolla og kíkjum svo á bekkina. Gerum ráð fyrir að allt sé búið kl. 9.00. Foreldrar eru beðnir um að fylla út eyðublað þar sem þeir eiga að skrifa 2-3 atriði sem þeir eru ánægðir með í starfi skólans og 2-3 atriði sem þeir telja að megi gera betur eða ábendingar um eitthvað sem þeir vilja sjá í skólastarfinu. Eyðublaðið verður sent heim með fundarboði og foreldrar geta því fyllt það út heima og skilað svo á fundinum. Við hvetjum alla til að mæta, bæði pabba og mömmur.
Fyrsti fundurinn verður 14. janúar og þá eiga foreldrar 1. bekkinga að mæta. Fundirnir verða annars sem hér segir:
15. janúar – 2. bekkur
16. janúar – 4. bekkur
17. janúar – 3. bekkur
22. janúar – 5. bekkur
30. janúar – 8. bekkur
31. janúar – 7. bekkur
4. febrúar – 9. bekkur
5. febrúar – 10. bekkur
6. febrúar – 6. bekkur
Nú þurfa krakkarnir bók í jólagjöf
Smá hugleiðing vegna PISA skýrslunnar:
Niðurstöður PISA rannsóknarinnar frá 2012 voru kynntar í vikunni. Við fyrstu sýn eru þær varla gleðiefni fyrir okkur Íslendinga, sem viljum ævinlega vera mest og best í öllu. Það er reyndar til einföld lausn á þeim vanda sem við erum í, en hún kostar korter á dag. En í PISA leynast líka góð tíðindi fyrir okkur Frónbúa.
Engum nemanda ofaukið
Fyrst að jákvæðu fréttunum. Íslenskum grunnskólum tekst að mestu að útmá þann mun sem er mögulega á aðstöðu nemenda eftir fjárhag heimilanna innan sama skólahverfis. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Og niðurstöður PISA rannsóknarinnar staðfesta ennfremur að innan hvers skóla er getustig nemenda það fjölbreytilegasta sem gerist í heiminum, hver skóli hefur bæði mjög sterka og mjög slaka nemendur. Þetta er ein mikilvægasta sérstaða íslenska grunnskólans. Við viljum ekki aðgreiningu eftir námsgetu, við viljum ekki skilja neinn út undan. Í okkar skólum á engum nemanda að vera ofaukið.
Íslenskum nemendum líður vel í skólanum
PISA sýnir mjög jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda sl. 4 ár í íslensku skólum. Stuðningur kennara við nemendur er mikill og samband nemenda við kennara áberandi betra en almennt gerist í OECD ríkjunum. Nemendur líður nú mun betur í nemendahópnum í skólanum, agi í tímum hefur aukist og viðhorf nemenda til skólans batnað. Af þessu má sjá að íslenski grunnskólinn stendur sig þrátt fyrir allt býsna vel. Aðgreining er lítil og nemendum líður almennt vel.
Krakkar verða að lesa meira – líka heima
Mesta áhyggjuefnið í PISA niðurstöðunum er æ slakari lestrarhæfni íslenskra unglinga, ekki bara stráka heldur líka stelpna. Ástæðan er náttúrulega engin önnur er sú að krakkar lesa of lítið og miklu minna nú en áður. Þeir gera eitthvað annað á þeim tíma sem þeir ættu að verja til lesturs. Lesskilningur eykst ekki nema með lestri og því meira sem börn og unglingar lesa því betur skilja þau það sem þau lesa – svo einfalt er það. Það er ekki aðeins verkefni skólans að hvetja börn og unglinga til lesturs. Þar skipta foreldrarnir langmestu máli. Ef við ætlum að snúa ofan af þessu verða foreldrarnir og að sjálfsögðu krakkarnir sjálfir að taka fullan þátt í því með skólunum.
Bók í jólapakkann
Jólin eru framundan og þar liggur svo sannarlega sóknarfæri. Allir krakkar sem vilja eiga margvíslega möguleika í framtíðinni óska sér bóka í jólagjöf. Og foreldrar sem vilja stuðla að betra læsi sinna barna lauma skemmtilegri bók í jólapakkann. Og auðvitað les svo öll fjölskyldan saman um jólin og ákveður að í framtíðinni eigi allir að lesa í bókinni sinni fyrir svefninn á hverju einasta kvöldi í a.m.k. stundarfjórðung. Já og ekki gleyma litlu börnunum, það þarf að lesa fyrir þau. Ef við viljum skora hærra á PISA þá er til einföld leið og hún kostar bara 15 mínútur á dag – lesa meira!
Frá stjórnendum Salaskóla
Ágætu foreldrar
Okkur undirrituðum er kunnugt um að póstkerfi Salaskóla, mentor, hafi verið notað af foreldrum í síðustu viku til að senda fjöldapóst vegna hugmynda um fyrirhugaða stækkun íþróttahússins. Við vitum ekkert um hvers vegna kerfið okkar var notað og berum enga ábyrgð á þeim bréfum sem send voru.
Sérhvert foreldri getur sent fjöldapóst á foreldra þeirra sem eiga barn í sama bekk. Skólinn getur ekki á neinn hátt stýrt þeim aðgangi né heldur borið ábyrgð á póstsendingum í gegnum kerfið. Við viljum því enn árétta að póstkerfið á ekki að nota í öðrum tilgangi en þeim sem varðar skólastarfið og samskiptum foreldra vegna nemenda í hverjum bekk.
Salaskóli tekur enga afstöðu til þess máls sem hér um ræðir og harmar að póstkerfi skólans hafi verið nýtt með þessum hætti.
Skólastjórnendur Salaskóla