ADHD dagur í Salaskóla 26. október

Á morgun, miðvikudag, verður ADHD-dagur í Salaskóla. Þá ætlum við að velta fyrir okkur fjölbreytileikanum og allir bekkir ætla að horfa á myndbandið sem við gerðum í fyrra – Allir geta eitthvað, enginn getur allt. Og svo til að undirstrika fjölbreytnina í mannlífsflórunni þá hvetjum við alla til að koma í einhverju röndóttu eða neonlituðu í skólann. Svo eftir daginn á morgun förum við öll í vetrarleyfi. Myndbandið má sjá hér 

https://www.facebook.com/1412140985714002/videos/1717031968558234/?hc_ref=PAGES_TIMELINE

Kvennafrídagur

Vegna kvennafrídags beinum við þeim tilmælum til foreldra og þá ekki síst feðra að þeir sæki börn sín snemma í dag í dægradvölina enda munu mjög margar starfskonur skólans fara úr vinnunni um kl. 14 til að taka þátt í dagskrá dagsins. Dægradvölinni verður þó ekki lokað kl. 14 en þar sem þar starfa aðeins tveir starfsmenn sem ekki eru konur má búast við að starfsemin lamist meira og minna og við munum væntanlega eiga erfitt með að gæta annarra barna en þeirra sem bráðnauðsynlega þurfa gæslu.

Skipulagsdagur 7. október

Föstudaginn 7. október verður skipulagsdagur í Salaskóla og öðrum grunnskólum í Kópavogi. Sama á einnig við um leikskólana hér í hverfinu. Þennan dag er dægradvölin einnig lokuð en á skólaárinu eru tveir skipulagsdagar í dægradvölinni. Sameiginleg fræðsludagskrá er fyrir alla grunnskólana á vegum menntasviðs Kópavogsbæjar og er áherslan þar á lestur og mál. Starfsfólk dægradvalar Salaskóla fer á námskeið í skyndihjálp en það er auðvitað bráðnauðsynlegt fyrir starfsfólk þess að kunna að bregðast við ef eitthvað kemur fyrir. 

Fjölgreindaleikarnir 5. og 6. október

Fjölgreindaleikar Salaskóla eru einn mikilvægasti viðburður skólaársins. Fyrstu fjölgreindaleikar Salaskóla voru vorið 2003, á öðru starfsári skólans. Það voru kennarar við skólann sem áttu hugmyndina að leikunum og síðan hafa þeir breiðst út til fjölda skóla á Íslandi. Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn verkefna sem reyna á allar greindir mannskepnunnar.

Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Þar reynir ekki síst á leiðtoga hvers hóps, en það eru nemendur úr elstu bekkjum skólans. Þá daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir hana mætir starfsfólk í furðufötum.

Efnt verður til 13. fjölgreindaleika Salaskóla 5. og 6. október. Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í um 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum. Keppnisgreinar eru um 40 og hver hópur keppir í öllum greinum. Keppnisgreinar reyna eins og áður segir á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil.

Skólasetning 22. ágúst

Salaskóli verður settur mánudaginn 22. ágúst nk.  Nemendur mæta sem hér segir:

5., og 6.   kl. 8:30

(Foreldrar nemenda í 5. og 6. bekk eiga að mæta á sama tíma og fara á fund vegna þess að börn þeirra fá afhentan ipad. Mjög mikilvægt að amk. annað foreldri mæti).

2., 3. og 4. bekkur        kl.   9:30
7., 8., 9. og 10. bekkur      kl. 10:30

 

 Nemendur sem eru að fara í 1. bekk verða sérstaklega boðaðir með foreldrum sínum dagana 22. og 23. ágúst.  Kennsla skv. stundaskrá hefst í 1. bekk miðvikudaginn 24. ágúst. Kennsla í 2. – 10. bekk hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. ágúst.

Dægradvöl opnar þriðjudaginn 23. ágúst kl. 13:30.

Nýir nemendur (aðrir en 1. bekkingar) eru boðnir í skólann fimmtudaginn 18. ágúst kl. 12:30. Þá fá þeir smá kynningu á skólanum og starfinu. 

Forgangsröðun vegna manneklu í dægradvöl

Það gengur illa að manna dægradvölina og nú þegar tæp vika er í skólasetningu eru aðeins fimm starfsmenn þar. Okkur vantar sjö til átta starfsmenn til viðbótar til þess að geta tekið við þeim fjölda barna sem óskað hefur verið eftir vistun fyrir. Það eru lítil sem engin viðbrögð við auglýsingum okkar en þó eigum við von á tveimur starfsmönnum á næstu dögum. Á liðnum árum höfum við stundum verið í svipaðri aðstöðu og þá rætist oft úr þegar háskólar og framhaldsskólar byrja.

Við vonum að það verði svo nú og jafnframt biðjum við ykkur, foreldrar góðir, að vekja athygli þeirra, sem e.t.v. eru að leita sér að hlutastarfi, á að hér er skemmtilega vinnu að fá. Það er líka möguleiki á fullu starfi ef svo ber undir.

Það er deginum ljósara að dægradvölin verður ekki starfhæf nema að hluta þriðjudaginn 23. ágúst þegar skólastarf hefst að fullu. Við verðum því að takmarka þann fjölda sem þangað kemur þar til meiri mannskapur fæst. Ákveðið hefur verið að forgangsraða þannig að nemendur í 1. bekk ganga fyrir og eldri nemendur verða svo teknir inn eftir því sem fjölgar í starfsmannahópnum.

Þetta er auðvitað afleitt ástand en við getum ekki veitt þá þjónustu sem til er ætlast nema hafa nægan mannskap. Við vonum að þið sýnið þessu skilning og að málin leysist hratt og vel. Við látum ykkur fylgjast með.

 

Smá breyting á skóladagatali

Það höfðu slæðst inn tvær villur í skóladagatal komandi skólaárs sem nú hafa verið leiðréttar. Annars vegar var settur skipulagsdagur 14. nóvember en hann á að vera 21. nóvember. Svo hafði staðið að það væri skipulagsdagur 14. febrúar en það var bara vitleysa. Rétt skóladagatal er hér á heimasíðu Salaskóla.