Bebras tölvuáskorunin

Dagana 4. – 15. nóvember fór Bebras (e. Beaver) tölvuáskorunin fram um heim allan. Verkefnið felst í því að auka áhuga barna og ungmenna á upplýsingatækni og efla rökhugsun og tölvufærni á öllum skólastigum. Ský er í forsvari fyrir verkefnið á Íslandi sem fór fyrst fram hérlendis árið 2015. Salaskóli var að sjálfsögðu þátt í ár líkt og undanfarin ár.

Fimmta árið í röð var Salaskóli með flesta þátttakendur af þeim skólum sem tóku þátt á Íslandi eða 378 nemendur í 2. – 9. bekk, magnaður árangur það 🥳 Það voru alls 3200 nemendur frá 46 skólum sem tóku þátt og því var þátttaka Salaskóla á landsvísu rúm 11,8 %, geri aðrir betur 🫶 Gaman er einnig að segja frá því að meðaltalsskor nemenda í 2. – 8. bekk var yfir meðaltali bæði hvað höfuðborgarsvæðið varðar sem og á landsvísu. Auk þess var nemandi í 4. bekk sem náði hæsta skori á landsvísu í sínum árgangi.

Á dögunum fengu þrír stigahæstu nemendurnir í hverjum árgangi fyrir sig afhent viðurkenningarskjal fyrir glæsilegan árangur í áskoruninni. Við í Salaskóla erum virkilega stolt af öllum okkar nemendum 😊

Ljósa- og friðarganga foreldrafélagsins

Það var falleg stund og ljúf samvera þann 5. desember þegar árleg ljósa- og friðarganga foreldrafélags Salaskóla fór fram í fallegu vetrarveðri 🌟 Samveran hófst á hljóðfæraleik frá Skólahljómsveit Kópavogs sem spilaði fyrir okkur fallega jólatóna. Þá var haldið af stað í gönguna með vasaljós, höfuðljós og ýmsar tegundir af skemmtilegum blikkljósum. Á göngustíg við jaðar skólalóðarinnar var stoppað til að vígja nýjan bekk til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur sem lést 30. ágúst sl. en hún var nemandi í Salaskóla alla sína grunnskólagöngu. Sr. Guðni frá Lindakirkju flutti stutt ávarp og vígði bekkinn og að því loknu var haldið áfram í göngu. Göngunni lauk svo í portinu fyrir framan skólann þar sem börn og fullorðnir gæddu sér á heitu kakói og smákökum. Sannarlega ljúf og falleg stund sem gaf kærleika og hlýju í hjörtu okkar allra 🩷💖🩷

Glæsilegur árangur í skákmóti

Þann 12. nóvember var haldið skólaskákmót í Smáraskóla og voru fulltrúar Salaskóla 4 nemendur úr 6. bekk, þeir Guðjón Veigar Rúnarsson, Hannes Krummi Guðlaugsson, Heiðar Már Eiðsson og Reynir Elí Kristinsson.

Þeir stóðu sig frábærlega og lentu í 2. sæti en einungis munaði einum vinningi á þeim og liðinu sem lenti í 1. sæti. Virkilega vel gert og innilega til hamingju.

Baráttudagur gegn einelti

Þann 8. nóvember tóku allir nemendur skólans auk starfsfólks þátt í baráttudegi gegn einelti. Dagurinn er að öllu jöfnu haldinn þennan dag ár hvert. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.

Af þessu tilefni gengu 10. bekkingar í leikskóla í hverfinu og náðu í elstu leikskólabörnin og fylgdu þeim í Salaskóla. Saman mynduðum svo vináttukeðju í kringum Salaskóla og knúsuðum við þannig skólann okkar. Eftir vel heppnað knús stjórnuðu nemendur í 9. bekk skemmtilegum útileikjum í sínum fjölgreindahópum og fengu yngri nemendur með í fjörið. Elstu nemendur skólans léku við leikskólavini okkar áður en þeim var fylgt aftur í sinn skóla.

Virkilega vel heppnaður viðburður og hafa nemendur á unglingastigi hvarvetna fengið mikið hrós þennan dag sem og fyrir sitt framlag til Fjölgreindaleika skólans, fyrir ábyrga hegðun, góða hópstjórn og hlýtt og hvetjandi viðmót gagnvart yngri nemendum.

Fjölgreindaleikar í Salaskóla

Dagana 6. og 7. nóvember fóru Fjölgreindaleikar Salaskóla fram og var mikið líf og fjör í skólanum þessa daga. Enn og aftur sannast það hvað þessir leikar eru skemmtilegir og gefandi og á svona dögum sjáum við nemendur okkar blómstra á svo fjölbreyttan hátt. Nemendur vinna verkefni í aldursblönduðum hópum, vinna sameiginlega að þrautalausnum og leysa viðfangsefni sem reyna á mismunandi hæfni og færni. Á hverri stöð voru starfsfólks skólans í gervi alls kyns furðuvera og fólks sem vissulega jók við skemmtanagildið þessa daga.

Eldri nemendur leiða þá yngri áfram, taka ábyrgð í hópastarfi og leggja sig fram um að vera góðar fyrirmyndir. Nemendur mynda ný vinatengsl og kynnast nýjum hliðum á félögum sínum. Hér gildir svo sannarlega vinátta- virðing og samstarf sem eru jú einkunnarorðin okkar í Salaskóla. 

Bókagjöf frá foreldrafélagi Salaskóla!

Breytingar hafa staðið yfir undanfarið á skólabókasafni Salaskóla. Síðastliðið vor var safnið fært til innanhúss og farið í endurnýjun á skráningum og skipulagi safnkosts. Í ljós kom að endurnýjun bóka var nauðsynleg til að geta boðið nemendum á öllum aldursstigum upp á gæða lesefni sem höfðar til áhugasviðs þeirra og hvetur þau til yndislesturs.

Foreldrafélag Salaskóla bætti vel í endurnýjun bóka nú nýverið með peningagjöf til safnsins sem nýtt var til að kaupa nýjar bækur og bæta við bókum í vinsæla bókaflokka eftir vinsæla höfunda. Nú er verið að skrá efnið inn og nemendur mjög ánægðir með aukið úrval bóka. Næstu innkaup fara svo fram í jólabókaflóðinu eftir nokkrar vikur.

Undir stjórn Guðnýjar Birnu, bókasafns- og upplýsingarfræðings Salaskóla, er safnið orðið mjög aðlaðandi og aðgengilegt og nú búið fullt af nýju lesefni!

Við færum foreldrafélaginu innilegar þakkir fyrir stuðninginn! ❤️📚❤️📚

LESTUR er BESTUR!

Takk fyrir stuðninginn kæra samfélag

Til samfélagsins í kringum Salaskóla 💞
Það er með innilegu þakklæti í huga og kærleika í hjarta sem við þökkum ykkur fyrir stuðninginn í góðgerðarhlaupinu okkar þann 13. september sl. Ár hvert hlaupum við að hausti Ólympíuhlaup ÍSÍ og köllum það í leiðinni góðgerðarhlaup Salaskóla. Í ár ákváðum við að hlaupa góðgerðarhlaupið til styrktar nýstofnuðum minningarsjóði Bryndísar Klöru, en hún var nemandi í Salaskóla á sinni 10 ára grunnskólagöngu og alin upp í Salahverfinu.

Hlaupið okkar fékk mikla athygli og samhugurinn sem við fundum frá ykkur öllum; foreldrum, nágrönnum og fjölmörgum öðrum velunnurum skólans var áþreifanlegur. Það er skemmst frá því að segja að með ykkar stuðningi söfnuðum við rétt tæplega einni og hálfri milljón króna sem við afhentum sl. mánudag. Afhendingarathöfnin fór fram í húsnæði KPMG sem heldur utan um minningarsjóðinn, að viðstöddum forseta Íslands Höllu Tómasdóttur, sem er verndari sjóðsins. Við erum mjög stolt af þeim fulltrúum Salaskóla sem voru við afhendinguna, íþróttakennurunum okkar þeim Auði, Ísaki og Gísla og þremur nemendum, þeim Magnúsi Inga 10. bekk, Maríu 5. bekk og Kimaya 2. bekk.

Við í Salaskóla munum halda áfram að hlaupa til góðs og láta gott af okkur leiða. Innilegar þakkir fyrir að taka þátt með okkur og styrkja svo myndarlega við minningarsjóð Bryndísar Klöru. Fjármunum sem varið er í sjóðinn er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Með fylgja nokkrar myndir frá afhendingunni
💗💗💗

Veruleikinn sem börnin okkar búa við – Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?

Foreldrafélag Salaskóla, í samstarfi við SAMKÓP, býður foreldrum til fræðsluerindis:

Veruleikinn sem börnin okkar búa við.
Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?

Fyrirlesarar eru þau Andrea Marel og Kári Sigurðsson en þau hafa bæði starfað með börnum og unglingum um langt skeið og hafa saman breiða fagþekkingu í málefnum ungmenna. Þau hafa ferðast um landið með fræðsluna „Fokk me – Fokk you“ sem fjallar um veruleika unglinga í tenglum við sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti. Þau hafa frætt bæði unglinga og foreldra sem og annað fagfólk sem starfar með börnum og unglingum um allt land. Í erindi sínu munu Andrea og Kári gefa okkur innsýn inn í þann veruleika sem börnin okkar búa við og ræða við okkur hvaða áhrif við sem foreldrar getum haft á hann. Rætt er um þá þætti sem hafa áhrif á mótun sjálfsmyndar sem og birtingarmyndir ofbeldis og áreitni í ýmsu formi.

Við óskum þess að sem flestir foreldrar geti mætt, fundið samstöðuna sem felst í því þegar mörg okkar sækja sér uppbyggilega fræðslu saman.

Oft gengur foreldrum betur að halda utan um börnin og vini þeirra þegar þeir hafa hist, spjallað og stillt saman strengi.