Þemaviku Salaskóla lauk um hádegi í dag með stórri sýningu á verkum nemenda – þar sem viðfangsefnið var HAFIÐ.
Mjög margir gestir lögðu leið sína í skólann í morgun til að taka þátt í hátíðahöldunum svo sem mömmur, pabbar, ömmur og afar. Nemendur og kennarar hafa unnið hörðum höndum að undanförnu við að fjalla um mismunandi hliðar hafsins á mjög marga vegu allt eftir þroska og aldri nemenda. Margt bar fyrir augum á sýningunni s.s. risastór hákarl, skipsflakið Fernando með tilheyrandi fjársjóðum og gullakistum, bryggjuhverfi, fiskibátar, fuglabjörg, sjávarþorp, marglyttur og glitrandi fiskar svo eitthvað sé nefnt.
Einnig var stórmerkilegt verkefni í unglingadeild um skipsskaða víðs vegar um heiminn og staðreyndir taldar upp um hafið og eiginleika þess – bæði í máli og myndum. Tónverk var samið og frumflutt, sjómannasöngvar búnir til, skuggaleikrit flutt auk myndbandsgerðar. En margt fleira var tekið fyrir og myndir sem sýna vinnuna á þemadögum tala sínu máli.
Eftir þemavikuna hófst síðan páskaleyfi nemenda og starfsfólks. Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska. Skóli hefst aftur skv. stundaskrá 22. apríl.