Leikfélag Salaskóla og Fönix, skipað nemendum úr unglingadeild, afhentu á dögunum ávísun að upphæð 200.000 krónur til Barnaspítala Hringsins, en peningurinn er ágóði af sölu á leiksýningu félagsins. Unglingarnir settu upp verkið ,,Stefán rís“ byggt á bókinni ,,Unglingurinn“ eftir þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson.
Fyrrum nemendur Salaskóla, þeir Aron Ísak Jakobsson og Matthías Davíð Matthíasson, komu á fund skólastjóra eftir áramót og lögðu til að vera með leiklistarklúbb fyrir nemendur í unglingadeild, þar sem þeirra bestu minningar úr skólanum voru tengdar leiklistastarfi. Stjórnendur úr félagsmiðstöðinni Fönix bættust svo í hópinn ásamt kennara úr unglingadeild. Áheyrnaprufur voru svo snemma á önninni og fljótt var búið að skipa glæsilegan leikhóp sem lagði allt sitt í æfingar og skipulag svo að úr varð glæsileg leiksýning. Uppselt var á sýningar hópsins og var mikil ánægja meðal áhorfenda enda sýningin full af húmor og gleði, sem og raunum þess að vera unglingur. Snemma var ákveðið að gefa ágóðann til góðgerðarmála og var hópurinn sammála um hvert styrkurinn skyldi renna. Úr varð að Hrönn Sigríður Steinsdóttir kom og tók við styrknum fyrir hönd Barnaspítala Hringsins. Unglingarnir mega vera stolt af þessum frábæra árangri og vonumst við til þess að leiklistarverkefnið haldi áfram á næsta skólaári.