Útikennslan er í góðum gír í rökkri vetrarmorgunsins. Riturnar hittust í þinginu snemma morguns með kennurum sínum þar sem voru kertaljós og tendrað var lítið bál. Allir voru með jólasveinahúfur, ennisljós eða vasaljós. Kvæðið um jólasveinana eftir Jóhannes úr Kötlum var lesið og nemendur komu fram og fengu leikmuni eftir því sem við á. Í dag var sérstök stemning þar sem komu smá snjókorn meðan stóð á þingstörfum og settu ævintýraljóma á leiksviðið. Í lokin gengur riturnar inn í stofuna sína í jólasveinaröð og fengu heitt kakó með nestinu sínu.


Góðir gestir komu snemma miðvikudags og skemmtu nemendum. Það voru þær stöllur Hildur og Þórdís Heiða, sem er að vísu kennari við skólann, er buðu nemendum í 1.-4. bekk að koma á sal og vera þáttakendur í stórri hljómsveit sem stofnað var til á staðnum. Þessi heimsókn er liður í verkefninu Tónlist fyrir alla sem grunnskólum er boðið upp á. Reglulega eru grunnskólar heimsóttir af tónlistarmönnum sem flytja skemmtileg verk, þessar uppákomur hafa verið afar fjölbreyttar og mikil ánægja verið með þær. 




Í þessari viku hefur markvisst verið unnið með móðurmálið á öllum stigum í svokallaðri móðurmálsviku. Ljóð hafa verið kyrjuð, upplestur æfður og mikil ritun í gangi svo eitthvað sé nefnt. Margir bekkir fóru á sal til að syngja ýmsar vísur og ljóð með aðstoð tónmenntakennara og ungra hljóðfæraleikara sem allt voru nemendur í skólanum. Nemendur tróðu einnig upp á sal með eigin leikþætti og frumsamin ljóð sem bar vott um frjótt ímyndunarafl þeirra. 


Hið árlega bekkjarmót í skák hófst í morgun þegar fulltrúar nemenda í 1. – 4. bekk komu saman til þess að tefla í undanrásum. Taflborð voru víða sett upp í skólanum og áhuginn skein úr andlitum hinna ungu skákmanna sem sátu og tefldu af miklum móð.