ltlar_hnatur

Gamli og nýi tíminn

ltlar_hnatur

Tvær litlar snótir í 1. bekk fengu það verkefni að reikna nokkur dæmi sem sett voru upp í spjaldtölvu (ipad). Dæmin voru misþung og sum reyndu meira á en önnur. Puttarnir voru á lofti en stundum vantaði fleiri putta til að klára dæmin. Hvað var til ráða? Þær gripu pinnabretti á næstu hillu, en eins og menn vita hefur það verið notað í stærðfræðinámi áratugum saman. Önnur þeirra taldi saman pinnana á brettinu  og hin var með spjaldtölvuna og saman fundu þær svarið sem var síðan skráð til þess að komast í næsta dæmi. Á endanum fengu þær rósir og verðlaunapening í spjaldtölvunni fyrir vel leyst verkefni.  Ekki dóu þær ráðalausar, þessar litlu duglegu hnátur.

ipadar__1._bekk_

Spjaldtölvur í Salaskóla

ipadar__1._bekk_
Áhuginn og einbeitnin skein út úr andlitum fyrstubekkinganna okkar, glókollanna, er þeir fengu í hendurnar spjaldtölvur (ipada) í síðustu tveimur kennslustundunum í gær. Tveir og tveir unnu saman og þeir gátu valið um nokkur verkefni í spjaldtölvunni t.d. að búa til lítið tónverk, „sulla“ í litríku vatni, búa til listaverk og raða saman pinnum eftir fyrirmynd. Allir kepptust við að vinna í verkefnunum sínum og samvinnan hefur sjaldan verið betri. Þetta er hluti af þróunarverkefni sem Salaskóli tekur þátt í á þessu skólaári en markmið þess er m.a. að auk aðgengi allra nemenda skólans að upplýsingatækni og þróa notkun spjaldtölva í öllu námi þeirra. Bæði kennarar og nemendur sýna verkefninu mikinn áhuga og margt er á döfinni í þessum efnum. Sjá myndir frá ipad-stund hjá glókollum og sólskríkjum.





jolaball

Gleðilega jólahátíð

jolaball
Afar prúðbúnir nemendur mættu í skólann í morgun á litlu jólin í Salaskóla. Gengið var í kringum jólatréð og var vel tekið undir jólasöngvana við undirspil hljómsveitarinnar Jólakúlnanna sem er skipuð starfsfólki Salaskóla. Skyndilega heyrðist brambolt við einn gluggann og inn kom veltandi jólasveinn sem mundi alls ekki hvað hann hét í fyrstu. En þegar sveinki var búinn að liðka sig aðeins og dansa með krökkunum kom í ljós að þetta var sjálfur Þvörusleikir. Hann lék á létta strengi og reitti af sér brandarana – sumir á kostnað kennaranna einhverra hluta vegna. Ætli jólasveinum sé illa við kennara? Allir skemmtu sér hið besta. Eftir velheppnuð litlu jól fóru krakkarnir heim með bros á vör og langþráð jólafrí hófst. 

Starfsfólk Salaskóla óskar nemendum og aðstandendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir gott samstarf á árinu. Hittumst hress á ný föstudaginn 4. janúar skv. stundaskrá.  Nokkrar myndir sem sýna heimsókn Þvörusleikis.

jlaball_08_0301

Jólaböllin 2012

jlaball_08_0301
Á morgun 20. desember eru litlu jólin hjá 1. – 7. bekk. Þá mæta nemendur í stofuna sína og ganga með umsjónarkennaranum sínum í röð í salinn þar sem dansað er í kringum jólatré. Nemendur mæta sem hér segir en gott er að mæta 10 mínútum fyrr: 

kl. 9:30                 kl. 10:30            

Sólskríkjur
Lóur
Þrestir
Vepjur
Spóar
Svölur
Mávar
Ritur
Lundar

Glókollar
Músarrindlar
Hrossagaukar
Tildrur
Tjaldar
Jaðrakanar
Súlur
Kríur
Teistur

Unglingarnir halda sitt jólaball í kvöld, miðvikudaginn 19. des. og opnar húsið kl. 19.00 og stendur til klukkan 22:00.

ottarsbikarinn_005_small

Spilað um Óttarsbikarinn

ottarsbikarinn_005_small
Í dag, 19. desember, er spilað um  svokallaðan Óttarsbikar sem er árlegur viðburðum um þetta leyti árs haldinn í minningu Óttars heitins húsvarðar. Skipuð eru lið úr öllum bekkjum á unglingastigi  ásamt liði kennara og blásið til mikils körfuboltamóts í íþróttahúsinu. Mikil steming var í upphafi móts og ljóst að stefndi í mikið fjör og keppnisandinn var alveg í réttum gír, hjá yngri sem eldri. Í áhorfendastúkunni sást til nokkurra kennara sem létu illum látum er þeirra lið skoraði – og nemendur voru líka góðir að hvetja sín lið áfram. Jafnt var á komið með liðunum og ekki mátti sjá í upphafi hvaða lið myndi fara með sigur af hólmi. En eftir gífurlega mikla baráttu og æsispennandi úrslitaleik voru það tíndubekkingar sem báru sigur úr bítum og hlutu Óttarsbikarinn en níundubekkingar urðu í öðru sæti. Verðlaunafhending fer fram í kvöld á jólaskemmtun unglingastigs.  

upplestur_orgrmur_005small

Þorgrímur Þráinsson las upp fyrir nemendur

upplestur_orgrmur_005small
Rithöfundurinn, Þorgrímur Þráinsson, heimsótti okkur í dag og átti erindi við nemendur í 5. – 7. bekk. Eftir lestrarkeppnina sem lauk um miðjan nóvember sýndu krakkarnir á miðstiginu áhuga á að fá Þorgrím í heimsókn. Þorgrímur tók vel í það, kom og las upp fyrir nemendur úr nýjustu bókinni sinni „Krakkinn sem hvarf“ og sagði frá helstu aðalpersónunum í bókinni. Í lokin spurðu nemendur Þorgrím spurninga af ýmsu tagi t.d. hvenær hann hafi skrifað fyrstu bókina sína, hvað hann væri lengi að skrifa eina bók, hvernig hugmyndirnar kæmu í kollinn á honum og fleira í þeim dúr. Nemendurnir okkar voru sannarlega góðir hlutstendur, kurteisir í alla staði og tóku afar vel á móti gestinum okkar. Takk fyrir heimsóknina, Þorgrímur Þráinsson!

skypef_3

Spjallað í gegnum Skype

skypef_3
Í gær hittust tveir bekkir til að spjalla saman.  Var þetta mjög merkilegur spjallfundur en annar bekkurinn voru Mávar á Íslandi og hinn bekkurinn voru jafnaldrar á Kýpur.  Bekkirnir hittust í gegnum Skype samskiptaforritið, töluðu ensku og skemmtu sér vel.   Fundurinn stóð í um 15 mínútur.  Þessi fundur var hluti af comeniusarverkefninu sem við erum þátttakendur í. En Guðbjörg umsjónarkennari í Mávum og Hulda deildarstjóri eru nýkomnar af sameiginlegum kennarafundi sem haldinn var í Þýskalandi.  
Á þeim fundi voru næstu skref ákveðin en á vormánuðum verðum við með litla Ólympíuleika.   Bekkirnir á miðstigi eru þessa dagana að senda jafnöldrum sínum í hinum þátttökulöndunum jólakort.  Hægt verður að fylgjast með verkefninu á heimasíðu skólans undir merki menntastefnu Evrópusambandsins sem styrkir þetta verkefni. 

piparkokur

Er ég piparkökur baka ….

piparkokur
Það var mikil stemning hjá krökkunum í dægradvölinni í gær þegar þau fengu að skreyta piparkökur í öllum regnbogans litum. Einbeitnin skein úr andlitunum og greinilegt að þeim þótti gaman að kökuskreytingalistinni. Skreyttu kökurnar voru síðan settar í box sem krakkarnir fengu að taka með sér heim. Nokkrar myndir.

hilmar

Skemmtilegur nóvember að baki

Í Salaskóla er alltaf heilmikið um að vera og nóvember var sérlega viðburðarríkur mánuður er þetta varðar. Við fáum oft skemmtilegar heimsóknir og krakkarnir bjóða oft til sín gestum til að hlýða á tónlist, söng og atriði á sviði. Hver bekkur í skólanum skipuleggur eina sýningu að vetri þar sem allir nemendurnir taka þátt í sýningunni með einhverjum hætti. Svölurnar voru einmitt á dögunum með glæsilega sýningu fyrir foreldra og aðra bekki í skólanum. Þau sungu, lásu ljóð, fluttu tónlist og settu á svið þjóðsöguna Djáknann á Myrká í nútímalegum búningi með tilheyrandi leikhljóðum og tónlist. Flott vinna hjá krökkunum sem þau fengu mikið lof í lófa fyrir. Fleiri bekkir eru að undirbúa samsvarandi sýningu.

hilmarHilmar Örn Óskarsson, ungur og upprennandi rithöfundur, kom við hjá okkur í síðastliðinni viku og las upp úr bók sinni „Kamilla vindmylla – og bullorðna fólkið“ fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þetta er fyrsta barnabók Hilmars og krakkarnir kunnu aldeilis vel að meta innihaldið og skemmtu sér hið besta. Í lokin spurðu þau Hilmar nokkurra spurninga t.d. hvernig hann fengi hugmyndir þegar hann væri að skrifa. Skemmtileg og gefandi heimsókn. Myndir.

Nemendur í 1. og 2. bekk buðu til sín foreldrum um miðjan nóvember til að hlýða á samsöng í salnum. En hún Heiða tónmenntakennari er dugleg að láta krakkana syngja saman – oft með tilheyrandi látbragði. Foreldrarnir flykktust í skólann til að hlusta á krakkana sína syngja og fengu meira að segja að taka undir sönginn á köflum.

Síðast en ekki síst var skemmtileg uppákoma á degi íslenkrar tungu, 16. nóvember, en þá kepptu teistur og mávar til úrslita í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Lestrarkeppnin  er búin að vera í gangi síðan í haust á miðstiginu þar sem hver og einn hefur keppst við að lesa ákveðnar bækur sem gefnar voru upp fyrir keppnina. Bekkjarlið kepptu síðan sín á milli í október og nóvember sem endaði með að lið mávanna stóð uppi sem sigurvegari. Krakkar í öllu bekkjum á miðstigi lögðu á sig mikla vinnu við lesturinn og stóðu sig öll afar vel. Skemmtileg hvatning fyir krakka á miðstigi sem vonandi verður árlegur viðburður hjá okkur í Salaskóla. Hér má sjá myndir frá lestrarkeppninni.

Skipulagsdagur

Mánudaginn 19. nóvember eru kennarar að vinna að skipulagi námsins og því er frí hjá nemendum.
Dægradvölin er opin þann dag. Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 20. nóvember.