Salaskóli er framsækinn skóli, óragur við að fara ótroðnar brautir. Í stefnumótun og starfi er stuðst við rannsóknir, innlendar og erlendar, og reynslu. Nemendur og hagsmunir þeirra eru ávallt í fyrsta sæti. Allt starfið miðast við að gera sérhvern þeirra að góðum og nýtum þegn þessa lands, óhræddum við að glíma við öll þau nýju verkefni sem honum munu mæta á lífsleiðinni.
Helstu áhersluatriði eru:
Áhersla á einstaklinginn
Við leggjum áherslu á sterkar hliðar hvers einstaklings og að sérhver nemandi fái að njóta sín sem einstaklingur og í hóp.
Umhverfismálin
Skólinn er „grænn skóli” og hefur hlotið viðurkenningu Landverndar sem slíkur. Nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa gert með sér umhverfissáttmála. Við flokkum rusl, spörum orku og notum ekki einnota drykkjarumbúðir.
Strákar og stelpur
Við leggjum áherslu á að bæði strákar og stelpur fái að njóta sín. Stelpurnar fyrir að láta meira til sín taka, verða hugrakkari, taka meira rými og verða líkamlega virkari. Strákarnir þurfa að læra að virða mörk og reglur og sýna umhyggju.
Heilbrigði, hreyfing og hollusta
Við temjum okkur heilbrigði og holla lífshætti. Markviss áhersla er lögð á útivist og fjölbreytt íþróttastarf.
Siðfræði og góð framkoma
Við leggjum áherslu á þau gildi sem sérhver manneskja í siðmenntuðu samfélagi verður að rækta með sér og að nemendur temji sér góða framkomu og góð vinnubrögð.
Heimili og skóli
Við leggjum mikið upp úr góðu sambandi og samstarfi við foreldra. Upplýsingar um skólastarfið eru aðgengilegar og foreldrar fá tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins.