Samvinnubekkir og samstarf kennara

Samvinnubekkir og samstarf kennara

Lokaskýrsla um þróunarverkefnið (júní 2009)
 

Áfangaskýrsla  (jan. 2009)
Upphaf verkefnisins

Verkefnið fór af stað í maí 2008 með því að kennarar í 2. – 7. bekk ræddu saman í teymum (2.-3. bekkjarteymi, 4.-5. bekkjarteymi og 6.-7. bekkjarteymi) sínum um markmið og útfærslu. Í skólanum voru bekkir á þessum stigum aldursblandaðir en í júní var raðað upp á nýtt í bekki þannig að í hverjum bekk voru börn fædd á sama ári.

Verkefnisstjórn

Fyrir upphaf skólaárs í ágúst var skipuð verkefnisstjórn og í henni á sæti einn fulltrúi úr hverju teymi. Ákveðið var að gefa teymunum svolítið lausan tauminn á haustönn með skipulag og nálgun á verkefninu með það í huga að fá fram fjölbreyttari nálgun og mismunandi hugmyndir. Verkefnisstjórn hefur því átt nokkuð náðuga daga fram að þessu til þess að leyfa mörgum hugmyndum að koma fram og þróast, en þeim mun meiri vinna hefur lent á hverju kennarateymi. Verkefnisstjórnin tekur nú til óspilltra málanna við að láta teymin kynna það sem þau hafa verið að gera hvert fyrir öðru og er fyrsti kynningarfundur í byrjun febrúar. Verkefnisstjórnin mun einnig vinna að tillögum fyrir stundaskrárgerð næsta skólaárs, en stundaskrá hefur svolítið hamlað framkvæmd og ljóst að þar má gera betur.

Framkvæmd

Í 2. og 3. bekk eru 5 bekkjardeildir. Það reyndist því örðugt að setja tvo og tvo bekki saman og búa þannig til tvíburabekki, eins og ætlunin var. Ákveðið var því að tveir bekkir, einn úr hvorum árgangi, ynnu saman sem tvíburabekkir, en hinir þrír bekkirnir skiptust í þrjá blandaða hópa. Fjórar kennslustundir á viku voru festar fyrir samstarfið. Unnið var með eitt þema, „Komdu og skoðaðu fjöllin“ og gekk það að mörgu leyti vel. Við mat á verkefninu var þó samdóma álit kennara að það hefði náð yfir of langan tíma eða 12 vikur. Næsta þema mun verða mun styttra og ná yfir 5 vikur.

Í 4. – 5. bekk var sama staða og í 2. – 3. bekk, þ.e. tvær bekkjardeildir í öðrum árganginum en þrjár í hinum. Í fyrstu var öllum hópnum blandað saman og myndaðir úr honum fimm árgangablandaðir hópar. Það þótti svo ekki gefast nógu vel og var því tekið upp sama fyrirkomulag og í 2. – 3. bekk. Fjórar kennslustundir voru festar á töflu undir samstarfið. Unnin voru þrjú samstarfverkefni mislöng. Eitt var um Leif Eiríksson, annað um boðorðin tíu og það þriðja um jólasveina. Auk þess blanda kennarar bekkjum sínum einu sinni í mánuði í svokallað stórval og þá velja nemendur mismunandi verkefni til að vinna að saman, óháð aldri.

Í 6. og 7 bekk eru tveir bekkir í hvorum árgangi. Þar er samstarf milli árganga skipt í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er námsleið sem kölluð er hraðbraut en þar er nemendum úr báðum árgöngum blandað saman í fjóra árgangablandaða hópa. Hver hópur fer svo í gegnum stutt en hnitmiðuð námskeið í ýmsum greinum. Lögð er áhersla á bóklegar greinar og tölvur í þessum námskeiðum. Hvert námskeið stendur yfir í þrjár vikur, þrisvar í viku í klukkustund í senn. Annar þáttur er tungumálainnlit en þá er nemendum úr 5. – 7. bekk blandað saman í námshópa og þeir fá innsýn inn í tungumál sem fæst íslensk börn hafa á valdi sínu og grunnur þeirra því sá sami. Tungumálainnlit er í 8 vikur, 2 stundir á viku. Í þriðja lagi er nemendum í 6. og 7. bekk skipt í hópa eftir námsfögum þegar líður að prófum og búa nemendur í hverjum hópi til ákveðinn fjölda spurninga úr sínu fagi. Síðan er útbúinn spennandi spurningakeppni sem hjálpar nemendum að rifja upp námsefni annarinnar, auk þess að efla samkennd og samvinnu meðal þeirra.

Á vorönn halda hraðbrautir áfram og auk þess verður landafræði Evrópu tekin fyrir í samvinnu árganganna. Hugmyndin er að tengja vinnuna söngvakeppni sjónvarpsstöðva í Evrópu. Þá er ætlunin að taka einnig fyrir verkefni sem höfða til áhugasviðs nemenda og verkefni sem heitir Fyrirtækið mitt.

Undirbúningsvinna kennara

Þessari vinnu fylgir talsverður undirbúningur. Hann felst annars vegar í skipulagningu vinnunnar í hana hefur farið talsverður tími. Hins vegar krefst þetta verulegs faglegs undirbúnings þar sem kennsla er í mörgu frábrugðin hefðbundnum nálgunum viðfangsefnisins.

Framhald vinnunnar

Á vorönn verður vinnu haldið áfram með líkum hætti en þó eru sniðnir af vankantar sem hafa komið upp. Um það hefur verið fjallað hér að ofan. Þá mun verkefnisstjórnin halda þrjá stóra vinnufundi þar sem kennarar kynna hver fyrir öðrum og fyrir öllum kennurum skólans það sem þeir hafa verið að gera. Verkefnisstjórn mun einnig koma að vinnu við stundaskrá næsta skólaárs þannig að auðveldara verði að koma á samstarfi milli árganga en reyndist í vetur.

 

Salaskóla 20. janúar 2009

 

Hafsteinn Karlsson, skólastjóri.

 



 

ovedur.jpg

Foreldrar athugið

ovedur.jpg

Athygli foreldra og forráðamanna er vakin á nýjum tengli undir hnappnum foreldrar hér á síðunni, Óveður – röskun, þar sem kynnt eru tvö viðbúnaðarstig sem farið skal eftir ef veður eru vond og aðstæður krefjast þess að farið sé með gát.  Foreldrar eru vinsamlega beðnir um að kynna sér þessi mál nánar. Textinn er á fleiri tungumálum.

ovedur

Röskun á skólastarfi vegna óveðurs

Tilmæli um viðbrögð foreldra og forráðamanna

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), skipuð framkvæmdastjórum sveitarfélaganna á
höfuðborgarsvæðinu, fól SHS að útbúa, í samvinnu við fræðsluyfirvöld allra sveitarfélaganna,
reglur fyrir foreldra og skólayfirvöld um röskun á skólastarfi vegna óveðurs.
Sjá nánar með því að smella á viðeigandi skjöl:

íslenskaovedur

enska

pólska

spænska

tælenska

rússneska


dans.jpg

Þjóðdansar í 2. – 3. bekk

dans.jpgSnemma dags glumdi harmonikkutónlist úr sal skólans. Þegar betur var að gáð voru nemendur í 2. – 3. bekk að æfa þjóðdansa með kennrurunum sínum því að þeir eru að vinna að verkefni um þessar mundir sem heitir "land og þjóð". Liður í því verkefni er að kynnast gömlum hefðum eins og þjóðdönsum og þjóðbúningum en í salnum í morgun mátti einmitt sjá tvær uppábúnar konur í þjóðbúningi og eina stúlku í 3. bekk. Krakkarnir höfðu auðsjáanlega gaman að því að dansa hringdans og marsera.  Fleiri myndir

vinir__sal.jpg

Velheppnuð vinavika

vinir__sal.jpgVinaviku er lokið og það er álit manna að vel hafi tekist til. Vinabekkir heimsóttu hvern annan og unnu að ýmsum skemmtilegum verkefnum í skólanum. í lokin voru svo vinbekkirnir kallaðir saman á sal þar sem farið var í leiki sem tengdust vináttu og hjálpsemi. Eldri nemendur voru einstaklega ábyrgðarfullir og  sýndu þeim yngri mikla umhyggju. Í myndasafni skólans er fjöldi mynda frá vinavikunni.

vinavika.jpg

Vinavika í Salaskóla

vinavika.jpgÞessa vikuna er svokölluð vinavika í Salaskóla. Þá þurfa allir að finna sér vinabekk, 2 – 3 bekkir saman, gjarnan á ólíkum aldri og vinna saman að skemmtilegum verkefnum. Dæmi eru um sameiginleg listaverk og gerð vinabanda. Einnig er vinþema gjarnan fléttað inn í kennsluna þannig að hver og einn nemandi geri einstaklingsverkefni sem tengist vinavikunni. Þemavikunni lýkur á föstudaginn með því að vinabekkirnir hittast í hátíðarsal skólans þar sem farið verður  í leiki undir handleiðslu Olweusarteymisins.

 

lestin.jpg

Vinnusamir nemendur í 1. bekk

lestin.jpg

Föstudaginn 6. febrúar voru 1. bekkingar búnir að vera 100 daga í skólanum. Þá var haldin hátíð og unnið með töluna 100 á mismunandi hátt. Kórónur útbúnar með 100 á, talið 10 sinnum upp í tíu með mismunandi góðgæti og fleira. Í myndasafni eru myndir frá hundraðdagahátíðinni.

Á miðvikudögum eru Maríuerlur og Steindeplar í samstarfi. Þeir tímar eru kallaðir lestin. Þá er bekkjunum blandað saman og síðan skipt  í þrjá hópa. Þá koma fleiri kennarar að hópunum. Unnið er að verklegum viðfangsefnum sem tengjast stærðfræðinni svo sem talnalínu, tugum og einingum. Útikennslan verður svo tengd við þau viðfangsefni sem tekin eru fyrir. Hóparnir eru: rauði hópurinn, blái hópurinn og guli hópurinn eins og litirnir á lestinni. Þau fara í einn hring og prófa öll viðfangsefni. Ánægjan leynir sér ekki á myndum sem smellt var af nemendum á dögunum.

kadlar197.jpg

Skólahreysti: Vorum hæst í undankeppninni

kadlar197.jpgAnnar riðill í undankeppni Skólahreystis fór fram í gær. Skólar frá Kópavogi, Mosfellsbæ,Garðabæ, Álftanesi og Kjalarnesi kepptu innbyrðis í Smáranum. Skemmst er frá því að segja að Salaskóli varð efstur í riðlinum og heldur því áfram keppni. Stórglæsilegur árangur hjá keppnisliði okkar. 

  skolahreysti2.jpg

skak09.jpg

Stelpurnar Íslandsmeistarar í skák

skak09.jpgÞrjú stúlknalið fóru á Íslandsmeistarmót í skák núna um helgina. Mótið var haldið hér í Salaskóla. Úrslit urðu á þann veg að Salaskóli vann í flokki A liða, B liða og C liða. Öll liðin okkar voru efst að stigum sem er frábær árangur hjá stelpunum. Í einstaklingskeppni varð Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, nemandi í 10. bekk, Íslandsmeistari stúlkna í eldri flokki (fæddar 1993-95) sem er stórglæsileg frammistaða. Hægt er að lesa nánar um úrslitin á skak.is 

Stúlknaliðin voru þannig skipuð:
A-sveit. 1. Jóhanna Björg, 10.bekk

             2. Hildur Berglin, Ritum

             3. Guðbjörg Lilja Svavarsd, Hávellum

             4. Erna María Svavarsd, Súlum.

B-sveit. 1. Una Sól, Ritum

             2. Anastasia, 9. bekk

             3. Rebekka Ósk Svavarsd, Kríum

             4. Heiða, Mávum

 C-sveit 1. Guðrún Vala, Þröstum

             2. Freyja, Hrossagaukum

             3. Móey, Hrossagaukum

             4. Hulda Clara, Steindeplum

              

Varamenn í C-sveit: Lana Kristín, Þröstum

                                 Hildur María, Steindeplum.