Samvinnubekkir og samstarf kennara
Lokaskýrsla um þróunarverkefnið (júní 2009)
Áfangaskýrsla (jan. 2009)
Upphaf verkefnisins
Verkefnið fór af stað í maí 2008 með því að kennarar í 2. – 7. bekk ræddu saman í teymum (2.-3. bekkjarteymi, 4.-5. bekkjarteymi og 6.-7. bekkjarteymi) sínum um markmið og útfærslu. Í skólanum voru bekkir á þessum stigum aldursblandaðir en í júní var raðað upp á nýtt í bekki þannig að í hverjum bekk voru börn fædd á sama ári.
Verkefnisstjórn
Fyrir upphaf skólaárs í ágúst var skipuð verkefnisstjórn og í henni á sæti einn fulltrúi úr hverju teymi. Ákveðið var að gefa teymunum svolítið lausan tauminn á haustönn með skipulag og nálgun á verkefninu með það í huga að fá fram fjölbreyttari nálgun og mismunandi hugmyndir. Verkefnisstjórn hefur því átt nokkuð náðuga daga fram að þessu til þess að leyfa mörgum hugmyndum að koma fram og þróast, en þeim mun meiri vinna hefur lent á hverju kennarateymi. Verkefnisstjórnin tekur nú til óspilltra málanna við að láta teymin kynna það sem þau hafa verið að gera hvert fyrir öðru og er fyrsti kynningarfundur í byrjun febrúar. Verkefnisstjórnin mun einnig vinna að tillögum fyrir stundaskrárgerð næsta skólaárs, en stundaskrá hefur svolítið hamlað framkvæmd og ljóst að þar má gera betur.
Framkvæmd
Í 2. og 3. bekk eru 5 bekkjardeildir. Það reyndist því örðugt að setja tvo og tvo bekki saman og búa þannig til tvíburabekki, eins og ætlunin var. Ákveðið var því að tveir bekkir, einn úr hvorum árgangi, ynnu saman sem tvíburabekkir, en hinir þrír bekkirnir skiptust í þrjá blandaða hópa. Fjórar kennslustundir á viku voru festar fyrir samstarfið. Unnið var með eitt þema, „Komdu og skoðaðu fjöllin“ og gekk það að mörgu leyti vel. Við mat á verkefninu var þó samdóma álit kennara að það hefði náð yfir of langan tíma eða 12 vikur. Næsta þema mun verða mun styttra og ná yfir 5 vikur.
Í 4. – 5. bekk var sama staða og í 2. – 3. bekk, þ.e. tvær bekkjardeildir í öðrum árganginum en þrjár í hinum. Í fyrstu var öllum hópnum blandað saman og myndaðir úr honum fimm árgangablandaðir hópar. Það þótti svo ekki gefast nógu vel og var því tekið upp sama fyrirkomulag og í 2. – 3. bekk. Fjórar kennslustundir voru festar á töflu undir samstarfið. Unnin voru þrjú samstarfverkefni mislöng. Eitt var um Leif Eiríksson, annað um boðorðin tíu og það þriðja um jólasveina. Auk þess blanda kennarar bekkjum sínum einu sinni í mánuði í svokallað stórval og þá velja nemendur mismunandi verkefni til að vinna að saman, óháð aldri.
Í 6. og 7 bekk eru tveir bekkir í hvorum árgangi. Þar er samstarf milli árganga skipt í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er námsleið sem kölluð er hraðbraut en þar er nemendum úr báðum árgöngum blandað saman í fjóra árgangablandaða hópa. Hver hópur fer svo í gegnum stutt en hnitmiðuð námskeið í ýmsum greinum. Lögð er áhersla á bóklegar greinar og tölvur í þessum námskeiðum. Hvert námskeið stendur yfir í þrjár vikur, þrisvar í viku í klukkustund í senn. Annar þáttur er tungumálainnlit en þá er nemendum úr 5. – 7. bekk blandað saman í námshópa og þeir fá innsýn inn í tungumál sem fæst íslensk börn hafa á valdi sínu og grunnur þeirra því sá sami. Tungumálainnlit er í 8 vikur, 2 stundir á viku. Í þriðja lagi er nemendum í 6. og 7. bekk skipt í hópa eftir námsfögum þegar líður að prófum og búa nemendur í hverjum hópi til ákveðinn fjölda spurninga úr sínu fagi. Síðan er útbúinn spennandi spurningakeppni sem hjálpar nemendum að rifja upp námsefni annarinnar, auk þess að efla samkennd og samvinnu meðal þeirra.
Á vorönn halda hraðbrautir áfram og auk þess verður landafræði Evrópu tekin fyrir í samvinnu árganganna. Hugmyndin er að tengja vinnuna söngvakeppni sjónvarpsstöðva í Evrópu. Þá er ætlunin að taka einnig fyrir verkefni sem höfða til áhugasviðs nemenda og verkefni sem heitir Fyrirtækið mitt.
Undirbúningsvinna kennara
Þessari vinnu fylgir talsverður undirbúningur. Hann felst annars vegar í skipulagningu vinnunnar í hana hefur farið talsverður tími. Hins vegar krefst þetta verulegs faglegs undirbúnings þar sem kennsla er í mörgu frábrugðin hefðbundnum nálgunum viðfangsefnisins.
Framhald vinnunnar
Á vorönn verður vinnu haldið áfram með líkum hætti en þó eru sniðnir af vankantar sem hafa komið upp. Um það hefur verið fjallað hér að ofan. Þá mun verkefnisstjórnin halda þrjá stóra vinnufundi þar sem kennarar kynna hver fyrir öðrum og fyrir öllum kennurum skólans það sem þeir hafa verið að gera. Verkefnisstjórn mun einnig koma að vinnu við stundaskrá næsta skólaárs þannig að auðveldara verði að koma á samstarfi milli árganga en reyndist í vetur.
Salaskóla 20. janúar 2009
Hafsteinn Karlsson, skólastjóri.