stodvar

Allt fer vel af stað á fyrsta degi fjölgreindaleika

stodvar
Já, annar af tveimur dögum fjölgreindaleika er runninn upp.   Á fjölgreindaleikum er krökkunum í Salaskóla skipt upp í 40 lið – en í hverju þeirra eru 10 krakkar, einn úr hverjum árgangi. Elstu nemendurnir eru fyrirliðar og eiga að gæta þess að allt fari vel fram innan liðsins. Liðin fara á milli stöðva þar sem er stöðvarstjóri úr röðum starfsfólks skólans. Stöðvarstjórar eru klæddir í grímubúning sem útskýrir þá miklu ringulreið sem varð í morgun þegar ýmis furðudýr og skringilegt fólk dreif að skólanum.

Afar vel gekk að skipa krökkunum niður í  liðin sín og hófust síðan leikarnir stundvíslega klukkan 9. Liðin safna stigum á hverri stöð með góðum árangri sínum og góðri liðsheild. Hægt er að fá aukastig m.a. fyrir góða stjórnun liðsins. Stöðvarnar sem eru um 50 talsins reyna á hinar ýmsu greindir okkar. Nokkrar nýjar stöðvar eru í boði að þessu sinni t.d. stígvélaspark, uppþvottur, landkönnuðurinn, nafnarapp o.fl.

stgvlaspark
Nokkrir krakkar sem Stína Lína hjá GREINDARLEGUM FRÉTTUM hitti á stígvélasparkstöðinni sögðu að það væri ótrúlega erfitt að fá stig fyrir stígvélaspark. Það mætti bara sparka innan ákveðins svæðis og það væri þrautinni þyngri. Þau voru samt bjartsýn á að ná inn fullt af stigum á þeirri stöð. Nokkrir krakkar á limbóstöðinni voru brosmild og sögðu létt í bragði að þetta væri skemmtilegur dagur og það væri „svo rosalega gaman að sjá hvað kennararnir væru skrýtnir..“
  

Birt í flokknum Fréttir og merkt .