hilmar

Skemmtilegur nóvember að baki

Í Salaskóla er alltaf heilmikið um að vera og nóvember var sérlega viðburðarríkur mánuður er þetta varðar. Við fáum oft skemmtilegar heimsóknir og krakkarnir bjóða oft til sín gestum til að hlýða á tónlist, söng og atriði á sviði. Hver bekkur í skólanum skipuleggur eina sýningu að vetri þar sem allir nemendurnir taka þátt í sýningunni með einhverjum hætti. Svölurnar voru einmitt á dögunum með glæsilega sýningu fyrir foreldra og aðra bekki í skólanum. Þau sungu, lásu ljóð, fluttu tónlist og settu á svið þjóðsöguna Djáknann á Myrká í nútímalegum búningi með tilheyrandi leikhljóðum og tónlist. Flott vinna hjá krökkunum sem þau fengu mikið lof í lófa fyrir. Fleiri bekkir eru að undirbúa samsvarandi sýningu.

hilmarHilmar Örn Óskarsson, ungur og upprennandi rithöfundur, kom við hjá okkur í síðastliðinni viku og las upp úr bók sinni „Kamilla vindmylla – og bullorðna fólkið“ fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þetta er fyrsta barnabók Hilmars og krakkarnir kunnu aldeilis vel að meta innihaldið og skemmtu sér hið besta. Í lokin spurðu þau Hilmar nokkurra spurninga t.d. hvernig hann fengi hugmyndir þegar hann væri að skrifa. Skemmtileg og gefandi heimsókn. Myndir.

Nemendur í 1. og 2. bekk buðu til sín foreldrum um miðjan nóvember til að hlýða á samsöng í salnum. En hún Heiða tónmenntakennari er dugleg að láta krakkana syngja saman – oft með tilheyrandi látbragði. Foreldrarnir flykktust í skólann til að hlusta á krakkana sína syngja og fengu meira að segja að taka undir sönginn á köflum.

Síðast en ekki síst var skemmtileg uppákoma á degi íslenkrar tungu, 16. nóvember, en þá kepptu teistur og mávar til úrslita í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Lestrarkeppnin  er búin að vera í gangi síðan í haust á miðstiginu þar sem hver og einn hefur keppst við að lesa ákveðnar bækur sem gefnar voru upp fyrir keppnina. Bekkjarlið kepptu síðan sín á milli í október og nóvember sem endaði með að lið mávanna stóð uppi sem sigurvegari. Krakkar í öllu bekkjum á miðstigi lögðu á sig mikla vinnu við lesturinn og stóðu sig öll afar vel. Skemmtileg hvatning fyir krakka á miðstigi sem vonandi verður árlegur viðburður hjá okkur í Salaskóla. Hér má sjá myndir frá lestrarkeppninni.

Aðventuganga og jólabingó 6. desember

Hin árlega aðventuganga foreldrafélagsins verður nk. fimmtudag, 6. desember. Hún hefst í Salaskóla kl. 16:30 og þar tekur Skólahljómsveit Kópavogs á móti öllum með jólalögum. Lagt verður af stað frá Salaskóla kl. 1700 og gengið að Lindakirkju þar sem skólakórinn syngur. Síðan verður gengið aftur í skólann þar sem bíður okkar rjúkandi súkkulaði og gómsætar jólasmákökur.

 

Kl. 19:30 sama dag er svo jólabingó á vegum 9. bekkjar en það er liður í fjáröflun fyrir ferð í skólabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Ótrúlegir vinningar í boði. Krakkarnir ætla líka að vera með smá kaffisölu ásamt smá fjáröflunarbás þar sem nokkrar vörutegundir verða til sölu (t.d. mandarínukassar, lakkrís, útikerti, jólapappír og kannski eitthvað fleira). Það verður bæði hægt að borga með peningum eða kortum (posi á staðnum). Það er engin skylda að kaupa eitthvað en auðvitað verða krakkarnir ótrúlega glöð ef þið sjáið ykkur fær um að styrkja þau á einhvern hátt 🙂

Skipulagsdagur

Mánudaginn 19. nóvember eru kennarar að vinna að skipulagi námsins og því er frí hjá nemendum.
Dægradvölin er opin þann dag. Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 20. nóvember.

Vond veðurspá 12. nóvember

Það er spáð vitlausu veðri í fyrramálið og líklega verður veðrið kolvitlaust í Salahverfi um það leyti sem börnin eiga að mæta í skólann. Við biðjum ykkur um að kynna ykkur tilmæli til foreldra og forráðamanna frá stjórn slökkviliðsins og sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu í slíkum tilfellum, en þau er að finna á þessari slóð:

Röskun á skólastarfi vegna óveðurs

Við munum opna Salaskóla á venjulegum tíma, en ef aftakaveður verður er mögulegt að einhver röskun verði á skólastarfi fyrst í fyrramálið. Vekjum athygli á að ábyrgðin hvílir á foreldrum í þessum efnum, eins og kemur fram í tilmælum sem bent er á hér að framan.

Niðurstöður í samræmdum prófum í 4. og 7. bekk

Nemendur hafa nú fengið niðurstöður samræmdu prófanna í 4. og 7. bekk í hendur. Niðurstöður Salaskóla í 7. bekk voru ákaflega ánægjulegar og nemendur hafa tekið mjög miklum framförum almennt frá því í 4. bekk. Sérstaklega var útkoman í stærðfræði góð en þar er meðaltal skólans 8,0 sem er langt yfir landsmeðaltali en það var 6,9. Í íslensku var meðaltal skólans 6,7, örlítið yfir landsmeðaltali sem var 6,6.

Í 4. bekk var meðaltal skólans 6 í íslensku, rétt undir landsmeðaltalinu sem var 6,1. Útkoman í stærðfræði var heldur lakari en þar var meðaltal skólans 6,1 en landsmeðaltali 6,9.

Við erum nú að rýna í niðurstöður og munum grípa til aðgerða þar sem þess er þörf hjá einstökum nemendum. Við erum einnig að vinna í því að styrkja verulega stærðfræðikennslu í 4. bekk og væntum þess að það skili góðum árangri.

riturnar

Lestrarkeppnin í fullum gangi

riturnar


Eins og fram kom í haust er lestrarkeppnin Lesum meira í gangi á miðstigi, 5. – 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur verði víðlesnari, auki orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. Í fyrstu var gefinn góður tími fyrir lestur áveðinna bóka á bókalista keppninnar  og síðan var dregið um hvaða bekkir ættu að keppa saman. Í keppninni reynir jafnt á almenna þekkingu nemenda sem þekkingu á ýmsu í heimi bókmenntanna auk þess að kunna vel skil á ákveðnum sögum.

teisturNú þegar eru búnar þrjár keppnir og sú fjórða verður á morgun, miðvikudag, þegar svölur og súlur etja kappi saman. Liðin samanstanda af þremur nemendum en stuðningsliðið, sem er bekkurinn, skipar stórt hlutverk því eins og gefur að skilja er mjög mikilvægt að styðja vel við sitt lið, hvetja og fagna á réttum stöðum og sýna í alla staði háttprúða framkomu. Einnig má beina einni spurningu til bekkjarins ef liðið stendur á gati.  Bekkirnir mæta prúðbúnir til leiks því hver bekkur skartar ákveðnum litum. Þetta eru miklar skrautsýningar bæði er varðar föt og andlitsmálningu. Ekki má gleyma hvatningaspjöldunum sem að sjálfsögðu eru líka í réttum litum. Sumir bekkir hafa jafnvel troðið upp með atriði til að styðja enn betur við liðið sitt. Á meðfylgjandi myndum sést annars vegar lið ritanna spreyta sig í síðustu viku á spurningum sem fyrir það voru lagt – hins vegar eru glæsileg stuðningslið teista og rita í salnum.   

jol_ikassa

Jól í skókassa

jol_ikassaKrakkarnir okkar í dægradvölinni taka þátt í verkefninu „Jól í skókassa“ fyrir þessi jól. Í því felst að hvert barn safnar ákveðnum hlutum í skókassa s.s. skóladóti, leikföngum, hreinlætisvörum, fötum  og sælgæti, skreytir kassann að utan og merkir hvort innihaldið henti strák eða stelpu. Á dögunum söfnuðust krakkarnir saman í anddyri skólans með kassana sína og gengu síðan fylktu liði út í Lindakirkju þar sem kassarnir voru afhentir. Krakkarnir tóku greinilega verkefnið alvarlega, héldu fast utan um kassann sinn og voru ábúðarfull á svipinn.

 „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu þar sem búa um 46 milljónir manna. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili og barnaspítala. Skoðið fleiri myndir.

Skemmtilegur aðalfundur foreldrafélagsins

Foreldrafélagið hélt aðalfund sinn fimmtudagskvöldið 18. október. Á fundinum var stjórnakjör og nú eru í stjórn félagsins þau Kristinn Ingvarsson, Bjarni Ellertsson, Helgi Mar Bjarnason, Rósa Lárusdóttir og Sandra Ösp Gylfadóttir. Varamenn eru Hjörtur Gunnlaugsson og Helga Jónsdóttir. Helga og Bryndís Baldvinsdóttir eru fulltrúar foreldra í skólaráði Salaskóla.

Að loknum venjulegum aðalfundastörfum mætti Ebba Guðný Guðmundsdóttir matarbloggari á fundinn og hélt stórskemmtilegan fyrirlestur um mataræði barna, unglinga og fullorðinna. Fundarmenn sem voru því miður ekki fleiri en 27 höfðu af þessu mikið gagn og gaman og eflaust búnir að taka svolítið til í eigin mataræði í kjölfarið.

Niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk

Í morgun fengu nemendur 10. bekkjar afhentar einkunnir úr samræmdu prófunum sem þeir þreyttu í september. Nemendur Salaskóla stóðu sig afar vel og voru langt yfir landsmeðaltali í íslensku og stærðfræði, en rétt undir því í ensku.
Í stærðfræði er meðaltalið í Salaskóla 7,45 en landsmeðaltali er 6,5 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,7. Í íslensku er meðaltalið í Salaskóla  6,95 en landsmeðaltalið er 6,4 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,5.
Í ensku er meðaltalið í Salaskóla 6,52 en landsmeðaltalið er 6,6 og meðaltal skólanna í nágrenni Reykjavíkur er 6,8.
Framfarir nemenda Salaskóla frá samræmdu prófunum í 7. bekk eru að meðaltali meiri en almennt gerist.
Þessi próf eru könnunarpróf og hugsuð til að sjá stöðu nemenda í upphafi 10. bekkjar. Við munum nú leggjast yfir niðurstöðurnar og skoða hvar þarf að grípa inn í með einhverjum hætti.

Aðalfundur Foreldrafélags Salaskóla 25. október

Foreldrafélag Salaskóla mun halda aðalfund sinn 25. október n.k. í Salaskóla. Fundurinn hefst klukkan 20.00

Stefnt er að hafa fundinn stuttan og hnitmiðaðan.  Kaffi og kleinur á boðstólunum.

Efni fundar er:

Skýrsla stjórnar starfsárið 2011 – 2012

Ársreikningar lagðir fram til samþykktar

Lagabreytingar

Kosning í stjórn Foreldrafélagsins og Skólaráðs

Önnur mál

Gestafyrirlestur

Gestafyrirlesari að þessu sinni er Ebba Guðný Guðmundsdóttir sem hefur verið með innslög á MBL-Sjónvarp. Hún fjallar um mataræði fyrir skólabörn og alla í fjölskyldunni.