Sýningar á Konungi ljónanna – miðasala hafin

Nemendur í 6. – 10. bekk hafa í vetur verið að æfa söngleikinn Konung ljónanna og nú er æfingum að ljúka og sýningar að hefjast. Frumsýning verður miðvikudaginn 2. mars og önnur sýning fimmtudaginn 3. mars. Sýningum verður fjölgað ef eftirspurn verður mikil en salurinn okkar tekur ekki fleiri en 150 manns á hverja sýningu. Allir eru velkomnir.

Við stillum miðaverði í hóf og kostar fullorðinsmiði 1.000 kr og miði barnaverð er 500 kr. Uppsetningu af þessu tagi fylgir nokkur kostnaður og við ætlum að reyna að fá upp í hann. Ef afgangur verður munum við nota hann til að bæta tækjakostinn í salnum.

Miða þarf að panta með því að senda pöntun á netfangið skrifstofa.salaskola@gmail.com. Þar þarf að koma fram á hvaða sýningu, hversu marga fullorðinsmiða og hve marga barnamiða. Við sendum svo staðfestingu og þá þarf að leggja andvirði miðanna inn á reikning söngleiksins 536 05 412181, kennitala 6706013070, fyrir ákveðinn tíma. Ógreiddir miðar eru seldir öðrum eftir ákveðinn tíma.

Í hléi verður 10. bekkur með sælgætissölu og þarf að greiða þar með peningum.

Sýningar sem komnar eru í sölu eru þessar:

1. mars – lokaæfing, hefst kl. 15:00 – 17:00 (500 kr. bæði fyrir börn og fullorðna)
2. mars – frumsýning, kl. 18:00 – 20:00 (500 kr. fyrir börn, 1000 kr. fyrir fullorðna)
3. mars – 2. sýning, kl. 18:00 – 20:00 (500 kr. fyrir börn, 1000 kr. fyrir fullorðna)

Við setjum svo dagsetningar fyrir fleiri sýningar eftir því sem þörf krefur.

Foreldraviðtöl 21. janúar

Fimmtudaginn 21. janúar eru foreldraviðtöl í Salaskóla. Opnað hefur verið fyrir skráningu á mentor og sjá foreldrar sjálfir um að bóka viðtölin. Dægradvölin opin allan daginn. Þar sem að stærstur hluti starfsfólks er í hlutastarfi eftir hádegi er mjög mikilvægt að foreldrar skrái börn sín ef þeir ætla að nota dægradvölina þennan dag. Það þarf að skrá í síðasta lagi þriðjudaginn 19. janúar. Við þurfum að gera heilmiklar ráðstafanir til að hafa nógu marga starfsmenn, enda þarf að semja við fólk um aukna vinnu og sumir eiga erfitt með að bæta við sig vegna t.d. náms. Þetta er langur dagur fyrir litlu krakkana og þeir sem eiga möguleika á að stytta hann eitthvað eru bara að gera börnunum gott. Þess ber að geta að ekki er rukkað sérstaklega fyrir auka vistunartíma á dögum sem þessum. 

Gleðileg jól

Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári með þökk fyrir samstarfið á árinu.  
Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 5. janúar – að loknu jólaleyfi. 
Mánudaginn 4. janúar er skipulagsdagur og nemendur eiga frí.

Erum að opna skólann

Fyrstu starfsmenn eru mættir í skólann og við opnum á venjulegum tíma. Úti er þó nokkurt rok og rigning og það þarf að fylgja yngstu nemendum í skólann. Líklega eru göngustígar blautir og þungir yfirferðar og í dag eru stígvélin besti skófatnaðurinn. Við gerum frekar ráð fyrir að allir verði inni í frímínútum. Almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa gefið út tilkynningu um að skólahald geti raskast eitthvað en það ætti ekki að vera hér í Salaskóla að ráði nema vegna þeirra starfsmanna sem nota strætisvagna til að koma sér í vinnuna.

Óveður í dag, 7. desember

Þegar líður á daginn í dag, 7. desember, er gert ráð fyrir afleitu veðri á höfuðborgarsvæðinu með ofsaroki og úrkomu og líklega bandbrjáluðum byl. Salaskóli biður foreldra að gera ráð fyrir að sækja börn sín í skólann fljótlega eftir hádegi og frekar fyrr en seinna. Það er líklegt að það verði umferðaröngþveiti þegar líður á daginn og allir að reyna að komast heim fyrir kl. 17. Við verðum að gera ráð fyrir að búið verði að tæma skólann í allra síðasta lagi kl. 16 þannig að starfsfólk komist til síns heima. Annars sendum við nánari upplýsingar í dag undir stjórn Almannavarna. Munum bara að vera skynsöm og yfirveguð – það er betra en sitja fastur í umferðaröngþveiti og stórhríð.

Óveður í aðsigi

Morgunhressustu starfsmenn Salaskóla eru mættir og eru að opna skólann. Veðrið er í lagi þessa stundina en það er að versna. Foreldrar verða að fylgja börnum sínum í skólann. Líklegt er að það verði ófærð og kannski illviðri enn þá þegar skóla lýkur og þá verður á sækja börnin, þau fara ekki gangandi heim ein. Munum bara að vera ekkert að ana út í vitleysu, það verða örugglega nógu margir sem gera það og allt verður stopp út um alla borg.Við biðjum ykkur um að hringja ekki í skólann nema brýna nauðsyn beri til. Sendið frekar tölvupóst á asdissig@kopavogur.is eða tilkynnið fjarvistir í gegnum mentor. Látum þenna dag ganga vel.

Vont veður, verum slök

Ágætu nemendur og foreldrar í Salaskóla – vond veðurspá í fyrramálið og þið skulið því fylgjast vandlega með tilkynningum í útvarpi og fréttamiðlum strax í fyrramálið. Tilkynning um hvort það verður skóli eða ekki verður send út um kl. 7. Við í skólanum tökum enga ákvörðun um það heldur er það gert af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Mögulega getum við sem vinnum í skólanum átt erfitt með að komast í vinnu til að opna skólann og því er líka nauðsynlegt að fylgjast með tilkynningu hér á heimasíðu skólans og á facebook um hvort einhver sé búinn að opna húsið. Ekki leggja af stað fyrr en það liggur fyrir. Og ekki reyna að hringja í skólann, við höfum örugglega nóg annað að gera en að svara í símann. Svör við öllum spurningum verða á hér eða á facebooksíðu skólans. Verum bara slök og önum ekki út í vitlaust veður – það er algjjör óþarfi.