Morgunkaffi í 1. – 7. bekk

Nú höfum við boðið foreldrum allra nemenda í 1. – 7. bekk í morgunkaffi. Samtals mættu tæplega fimmhundruð foreldrar og sötruðu með okkur kaffisopa í morgunsárið. Foreldrar 76% barna í þessum bekkjum mættu að meðaltali og var mæting mun betri í yngri bekkjunum en þeim eldri. Foreldrar stara og stelka mættu hlutfallslega best, en þar voru 95% foreldra mætt. Fjölmennustu fundirnir voru í sendlingum og stelkum, 26 foreldrar voru á hvorum fundi. Á þessum fundum bar ýmislegt á góma og umræður voru góðar og ganglegar fyrir okkur. Það er mikilvægt fyrir okkur skólastjórnendur að eiga þessi samskipti við foreldra.

Foreldrar settu niður á blað það sem þeim finnst gott í starfi skólans og það sem má bæta. Almenn ánægja var með kennara og kennslu. Einnig voru margir sem nefndu góða sérkennslu. Upplýsingaflæði frá skóla til foreldra þykir gott sem og samstarf skólans við foreldra. Þá nefndu margir viðmót starfsfólks skólans, gott andrúmsloft og hversu vel og hratt er tekið á málum. Reyndar voru einnig einhverjir sem töldu mál vinnast of hægt. Dægradvölin fékk mjög góða einkunn hjá foreldrum og margir hrósuðu starfinu þar. Fleira sem var nefnt og ánægja er með er samvinna við tónlistarskóla, skákstarfið, kórinn, samsöngurinn, fjölgreindaleikarnir, maturinn og umhverfi skólans. Þá virtust foreldrar nemenda í 5. bekk almennt ánægðir hvernig tiltókst með uppstokkun á þeim bekkjum.

Það sem oftast bar á góma að mætti bæta var fataklefinn en þar eru snagar og hillur of hátt uppi. Það er nú verið að laga og á næstu dögum verða snagar og hillur komin í rétta hæð fyrir litla krakka. Nokkrir nefndu að skólalóðin væri tómleg og mætti bæta. Sumir nefndu tíð kennaraskipti sem ókost og það að hafa sundið eftir að skóla lýkur. Einnig kom fram að bæta mætti gæsluna í útivistinni eða skerpa á henni. Hjá einhverjum kom fram óánægja með matinn, en eins og kemur fram að ofan kom líka mikil ánægja fram með hann. Þá var talsvert nefnt að betra skipulag mætti vera á óskilafatnaði.

Fjölmargar góðar ábendingar komu fram sem við tökum til skoðunar og einnig notuðu margir tækifærið til að hrósa ákveðnum starfsmönnum. Hrósinu munum við koma til skila.

Við þökkum ykkur foreldrum fyrir góða mætingu í morgunkaffið og ykkar innlegg í að bæta skólann okkar.

Birt í flokknum Fréttir og merkt , , .