Fjölgreindaleikarnir 5. og 6. október

Fjölgreindaleikar Salaskóla eru einn mikilvægasti viðburður skólaársins. Fyrstu fjölgreindaleikar Salaskóla voru vorið 2003, á öðru starfsári skólans. Það voru kennarar við skólann sem áttu hugmyndina að leikunum og síðan hafa þeir breiðst út til fjölda skóla á Íslandi. Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn verkefna sem reyna á allar greindir mannskepnunnar.

Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Þar reynir ekki síst á leiðtoga hvers hóps, en það eru nemendur úr elstu bekkjum skólans. Þá daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir hana mætir starfsfólk í furðufötum.

Efnt verður til 13. fjölgreindaleika Salaskóla 5. og 6. október. Allir nemendur taka þátt í leikunum og er þeim skipt í um 40 hópa og í hverjum hópi eru nemendur af öllum skólastigum. Keppnisgreinar eru um 40 og hver hópur keppir í öllum greinum. Keppnisgreinar reyna eins og áður segir á allar greindir og fjölbreytni er afar mikil.

Birt í flokknum Fréttir og merkt .