Hér er glænýtt myndband frá Lúsíunni okkar í Salaskóla 13. desember sl. Mér þessu óskum við ykkur gleðilegra jóla, árs og friðar. Þökkum gott samstarf á árinu sem er að líða. Skólastarf hefst skv. stundaskrá 4. janúar 2018.
Category Archives: Fréttir
Áríðandi fundur fyrir foreldra í Salaskóla í dag
Að gefnu tilefni boða stjórn Foreldrafélags Salaskóla og skólastjórnendur til fundar í sal skólans þriðjudaginn 24. október kl. 17:30 – 18:30. Tilgangur fundarins er að upplýsa uppákomur sem orðið hafa við Hörðuvallaskóla á kvöldin, hópamyndanir m.a. með þátttöku barna úr Salaskóla. Einnig munum við ræða hvernig megi bregðast við eignaspjöllum og þjófnaði sem hefur átt sér stað í hverfinu undanfarið. Mætum og látum okkur málið varða.
Þar sem búast má við mikilli fundarsókn er skynsamlegt að þeir sem geta komi fótgangandi til fundarins því hörgull kann að verða á bílastæðum.
Niðurstöður Skólapúlsins frá síðasta skólaári
Hér er komin skýrsla um niðurstöður Skólapúlsins fyrir skólaárið 2016-2017. Allir nemendur í 6. – 10. bekk taka þátt í Skólapúlsinum og hann gefur því býsna gott yfirlit yfir viðhorf nemenda til skólans. Smellið hér til að fá skýrsluna.
Óskum eftir starfsfólki í dægradvöl
Salaskóli auglýsir eftir starfsfólki í dægradvöl skólans. Dægradvölin er frístundaúrræði fyrir 6 – 9 ára krakka og starfstími hennar er frá kl. 13 – 17. Um 50% starf er að ræða en mögulega getum við boðið 100% starf ef einhver er á þeim buxunum. Þetta er gefandi og skemmtilegt starf sem hentar t.d. ágætlega með námi. Skemmtilegur vinnustaður. Áhugasamir hafi samband við Auðbjörgu, Hafstein eða Hrefnu í Salaskóla. Netfang egg@salaskoli.is og sími 441 3200.
Okkur vantar fleira fólk
Það hefur reynst þrautinni þyngri að fá nægan mannskap til að vinna í skólanum og nú þegar örfáir dagar eru til skólabyrjunar hefur okkur tekist að fá alla umsjónarkennara en enn vantar fólk t.d. þroskaþjálfa, kennslu, starfsfólk í dægradvöl og svo vantar kokk í mötuneytið. Við höfum verið að vinna í þessum málum í allt sumar og vonum auðvitað það besta. En þetta hefur áhrif þar til tekist hefur að ráða það fólk sem þarf. Við þurfum að skera niður einhverja kennslu, draga úr þjónustu dægradvalar og hádegismaturinn mun koma frá Skólamat þar til við fáum matreiðslumann í eldhúsið. Við munum halda ykkur upplýstum eftir því sem málin þróast.
Innkaup á ritföngum
Innkaup á ritföngum verða með þeim hætti að við sjáum um sameiginleg innkaup á ritföngum fyrir nemendur í 1. – 7. bekk og verða ritföngin hér í skólanum og nota nemendur þau saman. Foreldrar greiða ákveðna upphæð sem er mismunandi eftir árgöngum. Við höfum leitað tilboða frá mörgum fyrirtækjum og erum að fara yfir þau. Endanleg upphæð á nemanda liggur ekki fyrir en er líklega rétt rúmlega 5 þús. kr. hið mesta. Inni í þessu er ekki stílabækur eða reikningsbækur. Nemendur eiga að nota þær bækur sem þeir voru með í vor og ekki tókst að klára. Það er mikilvægt að nota vel það sem til er. Við sendum ykkur lista yfir bækur sem þarf að nota í hverjum árgangi og þá kíkið þið á gamla dótið og fyllið á ef með þarf. Hvað unglingadeildina varðar þá þarf hver nemandi að útvega sér það sem hann vanhagar. Nota það sem til er frá í fyrra og þegar ein stílabók er búin að kaupa þá aðra. Passa svo að vera með góðan blýant og penna tiltæka í töskunni. Spjaldtölvurnar draga úr þörf á ritföngum og stílabókum – gleymum því ekki.