Nú þurfa krakkarnir bók í jólagjöf

Smá hugleiðing vegna PISA skýrslunnar:

Niðurstöður PISA rannsóknarinnar frá 2012 voru kynntar í vikunni. Við fyrstu sýn eru þær varla gleðiefni fyrir okkur Íslendinga, sem viljum ævinlega vera mest og best í öllu. Það er reyndar til einföld lausn á þeim vanda sem við erum í, en hún kostar korter á dag. En í PISA leynast líka góð tíðindi fyrir okkur Frónbúa.

Engum nemanda ofaukið
Fyrst að jákvæðu fréttunum. Íslenskum grunnskólum tekst að mestu að útmá þann mun sem er mögulega á aðstöðu nemenda eftir fjárhag heimilanna innan sama skólahverfis. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er með allra mesta móti í heiminum. Og niðurstöður PISA rannsóknarinnar staðfesta ennfremur að innan hvers skóla er getustig nemenda það fjölbreytilegasta sem gerist í heiminum, hver skóli hefur bæði mjög sterka og mjög slaka nemendur. Þetta er ein mikilvægasta sérstaða íslenska grunnskólans. Við viljum ekki aðgreiningu eftir námsgetu, við viljum ekki skilja neinn út undan. Í okkar skólum á engum nemanda að vera ofaukið.

Íslenskum nemendum líður vel í skólanum
PISA sýnir mjög jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda sl. 4 ár í íslensku skólum. Stuðningur kennara við nemendur er mikill og samband nemenda við kennara áberandi betra en almennt gerist í OECD ríkjunum. Nemendur líður nú mun betur í nemendahópnum í skólanum, agi í tímum hefur aukist og viðhorf nemenda til skólans batnað. Af þessu má sjá að íslenski grunnskólinn stendur sig þrátt fyrir allt býsna vel. Aðgreining er lítil og nemendum líður almennt vel.

Krakkar verða að lesa meira – líka heima
Mesta áhyggjuefnið í PISA niðurstöðunum er æ slakari lestrarhæfni íslenskra unglinga, ekki bara stráka heldur líka stelpna. Ástæðan er náttúrulega engin önnur er sú að krakkar lesa of lítið og miklu minna nú en áður. Þeir gera eitthvað annað á þeim tíma sem þeir ættu að verja til lesturs. Lesskilningur eykst ekki nema með lestri og því meira sem börn og unglingar lesa því betur skilja þau það sem þau lesa – svo einfalt er það. Það er ekki aðeins verkefni skólans að hvetja börn og unglinga til lesturs. Þar skipta foreldrarnir langmestu máli. Ef við ætlum að snúa ofan af þessu verða foreldrarnir og að sjálfsögðu krakkarnir sjálfir að taka fullan þátt í því með skólunum.

Bók í jólapakkann
Jólin eru framundan og þar liggur svo sannarlega sóknarfæri. Allir krakkar sem vilja eiga margvíslega möguleika í framtíðinni óska sér bóka í jólagjöf. Og foreldrar sem vilja stuðla að betra læsi sinna barna lauma skemmtilegri bók í jólapakkann. Og auðvitað les svo öll fjölskyldan saman um jólin og ákveður að í framtíðinni eigi allir að lesa í bókinni sinni fyrir svefninn á hverju einasta kvöldi í a.m.k. stundarfjórðung. Já og ekki gleyma litlu börnunum, það þarf að lesa fyrir þau. Ef við viljum skora hærra á PISA þá er til einföld leið og hún kostar bara 15 mínútur á dag – lesa meira!

Birt í flokknum Fréttir og merkt , , .