pusl

Fjölgreindaleikar, það hlaut að vera!!

puslÞegar málið var rannsakað (sjá frétt fyrir neðan) kom í ljós að fjölgreindaleikar voru að byrja í Salaskóla þennan ágæta miðvikudagsmorgun. Það er orðin hefð að halda þá að hausti en þá er skólastarfið leyst upp í tvo daga og nemendum skipt upp í hópa. Í hvern hóp raðast nemendur þvert á árganga sem þýðir að í hópnum eru nemendur frá 1.- 10. bekk. Elstu krakkarnir eru liðsstjórar og þurfa að standa sig í að halda utan um hópinn sinn og styðja við þá sem yngri eru. Hóparnir fara á milli 40 stöðva sem reyna á ýmsa hæfileika manna t.d. gæti einhver í hópnum verið góður í að þekkja fána meðan annar slær met í að klifra upp kaðal eða finna orð. Þannig verða einstaklingarnir í hópnum ein sterk heild sem vinnur til stiga er reiknuð eru saman í lokin. Á hverri stöð er stöðvastjóri, oftast kennari, sem er klæddur í furðuföt. Hann tekur tímann, safnar stigum og gefur gjarnan aukastig ef hópurinn er til fyrirmyndar. Þar er komin skýringin á skurðlækninum, spæjaranum Bond, senjórítunni og kengúrunni sem voru á sveimi við skólann fyrr í morgun. Skoðið myndir af þessu stórfurðulega fólki hér.

Krakkarnir voru hressir í bragði á fjölgreindaleikunum og þeir sem voru teknir tali sögðu að þetta væru afar skemmtilegir dagar. Þegar þeir voru spurðir hver væri skemmtilegasta stöðin voru svörin ærið misjöfn, sumum fannst stóra trambólínið skemmtilegast, aðrir nefndu húllahringina, kvikmyndastöðina og skákina. Kósí-hornið var einnig oft nefnt á nafn. Hvað skyldi vera gert þar, hm? Það verður rannsakað á morgun. Skoðið myndir af krökkunum við að leysa hinar margvíslegustu þrautir í skólanum. Þar reyndi mjög misjafnlega á hvern og einn. 

Birt í flokknum Fréttir og merkt , .